20.04.1949
Sameinað þing: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (4863)

121. mál, ríkishlutun um atvinnurekstur

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er nú orðið alllangt síðan þetta mál var til umr. hér síðast, en ég hafði þá kvatt mér hljóðs, bæði vegna þess, að í till. sjálfri, sérstaklega greinargerðinni, sem henni fylgdi, og í ræðu hv. flm. hefur komið fram nokkur gagnrýni á tvö fyrirtæki, sem undir mitt rn. heyra, og enn fremur vegna þess, að ég vildi um leið segja nokkur orð um málið almennt.

Hv. þm. skiptir efni till., sem hér um ræðir, í þrennt. Í fyrsta lagi er hún um ríkisrekstur og beinan atvinnurekstur ríkisins. Í öðru lagi um afskipti ríkisvaldsins af atvinnurekstri landsmanna og í þriðja lagi um fjármálastefnu hins opinbera, sem hann taldi, að leitt hefði til geigvænlegrar verðbólgu, taprekstrar, hafta, skömmtunar, athafnaskerðingar o. s. frv., með stórum orðum, sem hv. þm. hafði í ræðu sinni um þetta efni.

Ég skal nú í þeim fáu orðum, sem ég segi hér, reyna að hafa þann hátt á að svara nokkurn veginn í sömu röð eins og hann flutti sitt mál, og byrja þá á þeim ríkisreknu fyrirtækjum, sem hann taldi vera rekin heldur linlega og vera til viðvörunar, að mér skildist, og þar með þau tvö, sem mig snerta og ég skal koma sérstaklega að síðar.

Um hin ríkisreknu fyrirtæki almennt skal ég segja það, að þau eru sjálfsagt öll sett á stofn þannig, að það er ekki gert vegna áhuga þeirra, sem stofnsettu þau, fyrir ríkisrekstri eða þjóðnýtingu almennt, að þessum ríkisrekstri hefur verið komið á, heldur hefur það verið gert vegna þess, að það hafa ekki, þegar þau eru sett á stofn, verið aðrar leiðir taldar heppilegri af þeim mönnum. sem því réðu, en þessi ríkisrekstrarleið. Það gefur auga leið með það, að Alþfl. og Kommúnistafl. samanlagt hafa ekki haft bolmagn eða atkvæðamagn til að koma í gegn ríkisrekstri á Alþ., sem þeir kannske mundu vilja vegna sinna sérstöku stjórnmálaskoðana. Það er annað, sem liggur því til grundvallar, að þessi ríkisrekstur hefur verið tekinn upp. Það er í fyrsta lagi, að mínu viti, að þessi fyrirtæki mörg hafa verið það fjárfrek, að einstaklingar hafa ekki fengizt til þess að leggja í þau fé og beinlínis ekki haft getu til að leggja fram það fé, sem þurft hefur til þess að koma þessum fyrirtækjum upp. Í því sambandi má t. d. nefna síldarverksmiðjur ríkisins, sem að vísu hafa að nokkru leyti verið reknar af einstaklingum, en að tiltölulega litlu leyti nú síðustu árin. Þegar fyrst var stofnað til síldarverksmiðja ríkisins hér á landi af Íslendingum, var það ekki talið öðrum kleift, en því opinbera, og þess vegna er þetta yfir á hendur ríkisins komið, en ekki út af fyrir sig af tilhneigingu til þess, að fyrirtækið ætti í sjálfu sér að vera ríkisrekið. Það er m. ö. o. vegna þess, að Alþ. hefur á þeim tíma, þegar fyrirtækið hefur verið stofnað, ekki fundið neitt heppilegra form en þetta til að reka það með. Alveg það sama gildir um tunnuverksmiðju ríkisins og önnur hliðstæð fyrirtæki, það er stofnað til þess vegna þess, að það hafa ekki fengizt einstaklingar til þess að standa fyrir þessum rekstri í nægilega stórum stíl, til þess að reksturinn gæti gefið þá raun, sem ætlazt var til. Það hefur verið bent á um hvort tveggja þessara fyrirtækja, að þau hefðu ekki skilað þeim rekstrarhagnaði, sem búizt hefði verið við upphaflega, Tunnuverksmiðjan hefði skilað tapi og Síldarverksmiðjur ríkisins hefðu safnað skuldum. Ég efast um það og er í raun og veru ekki í nokkrum vafa um það, að einstaklingar, sem hefðu stofnað til þessa rekstrar, hefðu ekki skilað betri útkomu, vel að merkja ef til fyrirtækisins hefði verið stofnað undir svipuðum kringumstæðum og gert var. Að vísu skal ég viðurkenna það, að við stofnsetningu síðustu Síldarverksmiðju ríkisins hafa orðið allmikil mistök, sem ekkert frekar hafa orðið fyrir þá sök, að um þjóðnýtt fyrirtæki er að ræða, heldur vegna þess, að þeir menn, sem voru í forsvari þar, virðast ekki hafa verið starfi sínu vaxnir, og slíkt mun vissulega geta komið fyrir, þó að um einkafyrirtæki sé að ræða.

Þá skal ég með örfáum orðum minnast á þau tvö fyrirtæki, sem að mér snúa persónulega, en það er sérleyfisrekstur ríkisins og ferðaskrifstofa ríkisins. Því hefur verið haldið fram hér við fjárlagaumr., og eins vitaskuld af hv. flm. þessarar till., að þessi sérleyfisrekstur væri rekinn á þann hátt, að ríkissjóður hefði óeðlilega mikið tjón af rekstrinum og ætti því að losa sig við hann. Mér er nú kunnugt um það, að þeir sérleyfishafar yfirleitt, sem stundað hafa þennan atvinnuveg á ýmsum leiðum hér á landi, og þeir eru heil legíó, liggur mér við að segja, hafa undanfarin ár, 1947–148, átt við að stríða rekstrarörðugleika, vegna þess að fargjöldum þeirra hefur verið haldið niðri af ástæðum, sem öllum hv. þm. eru kunnugar, og sérstaklega þeim ástæðum, að ríkisstj. hefur viljað reyna að halda niðri verðlaginu í landinu. En ég fullyrði það, að þeir sérleyfishafar, sem bezt hafa rekið sínar leiðir, hafa ekki náð neitt verulega betri árangri en sérleyfisrekstur ríkisins hefur náð.

Ég fer ekki út í það að rökstyðja þetta með tölum hér nú, en ég mun ef til vill gera það siðar, þegar ég hef safnað ýtarlegri upplýsingum um þessi mál. Ég læt mér nægja það að þessu sinni að slá því föstu, að þeir sérleyfishafar, sem rekið hafa sína starfsemi hliðstætt við ríkið, hafa ekki fjárhagslega betri afkomu en sá rekstur, sem ríkið hefur haft með höndum. Ég vil líka benda á það, hvernig til þessa atvinnurekstrar upphaflega var stofnað. Það var ekki þessi stj., sem nú situr, sem tók upp þennan rekstur, ekki fyrrverandi stj. heldur. Hver var það, sem tók hann upp? Það var sú stj., sem hv. tillögumaður og flm. átti sæti í, svo að hann sjálfur, hv. 1. þm. Reykv., er upphafsmaður að því, að hér er rekinn sérleyfisrekstur á vegum ríkisins. Hann flutti á Alþ. 1944 frv. til l. um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum. Það er lagt fram sem stjfrv., ekki af einstökum ráðh., heldur af ríkisstj. allri, og er þess vegna borið fram af sjálfum flm. till., sem þá var viðskmrh., en í þessum l., í 1. gr. þeirra, er því í fyrsta sinn slegið föstu, að ríkið skuli taka að sér sérleyfisrekstur bíla, en þar stendur þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Atvmrn. er heimilt að taka í sínar hendur að nokkru eða öllu leyti póst- og farþegaflutning með eigin bifreiðum á þeim leiðum, er því þykir henta, enda fullnægi bifreiðar þess settum reglum fyrir sérleyfishafa.“

Og í grg. frv. stendur enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þessu ári tók hið opinbera að forminu til í sínar hendur rekstur á einni af aðalsérleyfisleiðum landsins, og hefur það gefið góða raun.“ Nú vil ég biðja hv. 1. þm. Reykv. að taka eftir: „Með tilliti til þessa og þar sem gera má ráð fyrir að, að því verði stefnt í framtíðinni, að ríkið taki í sínar hendur meira af sérleyfisakstrinum, þykir ekki ástæða til, að sérleyfishafar kjósi nema tvo menn í nefndina í stað þriggja eins og nú er.“ M. ö. o., þessi hv. þm., 1. þm. Reykv., sem nú er að leggja til, að þessi sérleyfisakstur verði lagður niður, hann bar sjálfur fram frv. á Alþ. fyrir 5 árum um það, að þessi rekstur yrði tekinn upp. Hann var þá ekki að leggja til, að slíkur rekstur yrði tekinn upp á einni einstakri leið, nei, hann lagði þá til og segir í grg. fyrir frv., að gera megi ráð fyrir, að þessi sérleyfisakstur muni aukast í framtíðinni. Hv. þm. talaði oft um ofrausn og sjúklega ofrausn í sinni ræðu, en er það nú ekki sjúkleg ofrausn að koma hér með sitt eigið afkvæmi og biðja Alþ. að koma því fyrir kattarnef? Ég er ekki að ásaka hv. 1. þm. Reykv. fyrir það, að hann hefur borið fram þetta frv. á árinu 1944. Það vill nefnilega þannig til, að hann er í allt annarri aðstöðu nú, en hann var þá. Þá var hann ráðh. með ábyrgð og gerði sér grein fyrir hlutunum samkvæmt því. Nú er hann venjulegur þm. og finnst hann ekki þurfa að taka eins mikið tillit til hlutanna og hann þurfti að gera þá, og ég geri ráð fyrir því, að afstaða hans mótist samkvæmt þessu. M. ö. o., þegar einstaklingshyggjumaðurinn Björn Ólafsson, hv. 1. þm. Reykv., er kominn út í sinn „business“ og hættur að vera ráðh., talar hann um að leggja niður opinberan rekstur fyrirtækja, en þegar hann er í ráðherrastólnum og á að bera ábyrgð samkvæmt því, sér hann ekkert annað betra, en að láta þessi fyrirtæki, sem hann nú vill leggja niður, vera rekin af því opinbera. Skyldi yfirleitt finnast nokkur betri sönnun fyrir því, að opinber rekstur er ekki alveg út í loftið, heldur en þetta, að þegar svona harðsvíraður einstaklingshyggjumaður og einkarekstrarmaður kemst í þá aðstöðu að bera ábyrgð á hlutunum, þá sér hann ekki annað ráð betra til þess en að taka þá í opinberan rekstur?

Ég viðurkenni, að það hefur verið illa búið að þessum rekstri frá öndverðu, því að til hans var stofnað í svo miklum fljótheitum af hv. 1. þm. Reykv., að ekki var séð fyrir neinu rekstrarfé eða stofnfé, til þess að þessi rekstur gæti gengið á sæmilegan hátt. Vagnarnir, sem keyptir voru, voru keyptir frá póstsjóði og hann látinn lána fé til þess, en því verður ekki neitað, að reksturinn hefur liðið við það, að hann hefur aldrei fengið stofnfé og ekki heldur greitt hallann, þegar um hann hefur verið að ræða. Þetta hefur orðið til þess, að hv. þm. Barð. hefur komið og borið mig allra handa aðdróttunum út af þessum rekstri, sem fá hvergi staðizt. Ég vil nota þetta tækifæri til að benda á, að þessi siður var innleiddur af hv. 1. þm. Reykv. eða hans stj. og hefur í engu verið breytt síðan. Ég viðurkenni, að það hefði verið æskilegt, að það hefði verið annað form á rekstrinum og hann fengið meira fé til ráðstöfunar. Máske er hægt að breyta því enn og tryggja reksturinn, en það er gaman að bera saman hér hv. 1. þm. Reykv. sem venjulegan þm. og sem ráðh.

Annar flokkur ríkisrekstrarfyrirtækja er sá, sem fyrirsjáanlegt er, að hlýtur að verða rekinn með tapi, m ö. o., það er þjónusta án þess, að nokkurt gjald sé tekið fyrir. Hv. þm. fór í sinni ræðu allmikið út í rekstur Ferðaskrifstofu ríkisins og vildi segja, að hennar rekstur væri ekki í góðu lagi, þannig að það hefði mátt sjá betur fyrir þeirri starfsemi, ef einstaklingar hefðu haft hana með höndum. Ég veit ekki, hvað fyrir hv. þm. vakir með þessari aths. sinni, því að hann veit það vel, að ýmis þjónusta, sem ferðaskrifstofan beitir sér fyrir, er veitt og það er kostað til hennar allmiklu fé, án þess að nokkurt gjald sé tekið fyrir, svo sem að auglýsa landið, útgáfa pésa og bæklinga og auglýsingar af ýmsu tagi. Til þessarar starfsemi er kostað miklu fé í því skyni að hæna fólk til landsins og kynna útlendingum landið, og er engin von, að ferðaskrifstofan fái þann kostnað upp borinn beinlínis. Hins vegar get ég upplýst hv. þm. um það, að sá atvinnurekstur, sem ferðaskrifstofan hefur beinlínis tekið að sér, hefur staðið undir sér og vel það. Ferðaskrifstofan hefur rekið ýmsa starfsemi, hefur annazt sölu minjagripa, séð um hópferðir, tekið að sér afgreiðslu sérleyfisbíla og ýmiss konar þess háttar starfsemi, þar sem fé er greitt fyrir, og öll þessi starfsemi skrifstofunnar stendur undir sér. Þá er einn rekstur enn hjá ferðaskrifstofunni, sem er nýr og líka stendur undir sér, og það er nógu gaman að athuga hann. Þegar búið var að loka flugvallarhótelinu, var ferðaskrifstofan neydd til að taka að sér rekstur þessa hótels án þess að óska eftir því. Það var ekki hægt að horfa upp á, að hótelinu væri lokað, meðan vantaði hótel í bænum. Þess vegna var ferðaskrifstofan fengin til að annast þennan rekstur, meðan enginn annar vildi gera það. Hún tók reksturinn að sér með þeim árangri, að nú í fyrsta sinn síðan Íslendingar tóku við þessum rekstri, þá ber hann sig.

Ég held, að það sé óþarft að fara um þetta fleiri orðum. Þessi tvö fyrirtæki, sem ég hef nefnt, eru engan veginn sönnun fyrir málstað hv. þm., heldur miklu frekar sönnun fyrir því gagnstæða, og þó er þessi rekstur yfirleitt rekstur, sem einstaklingar hafa ekki viljað taka að sér, en ríkið hefur orðið að taka að sér í neyð, af því að aðrir hafa ekki fengizt til þess. Þannig er að vissu leyti stofnað til sérleyfisaksturs ríkisins, rekstrar ríkisins á flugvallarhótelinu og ýmissar annarrar starfsemi, sem ríkið hefur orðið að taka að sér, af því að aðrir hafa ekki viljað gera það, og líklegt er, að ríkið hafi þar ekki lent á arðsamasta atvinnurekstrinum nema síður sé, það hefur yfirleitt lent á þeim rekstri, sem aðrir hafa ekki viljað líta við, en ekki þótti fært að fella niður.

Af því að nokkuð hefur verið talað hér um ríkisrekstur almennt, þá get ég ekki stillt mig um að nefna eitt dæmi til að bera saman einkarekstur og opinberan rekstur, en það er olíuskipið Þyrill, sem ríkið á og rekur, en sagan af því er alllærdómsrík. Ríkissjóður eignaðist þetta skip með öðru setuliðsgóssi, sem það keypti eftir stríðið. Olíufélögin, sem þá voru starfandi hér, Olíuverzlun Íslands og Shell, höfðu hvort um sig skip til olíuflutninga kringum land, Shell hafði Skeljung og Olíuverzlun Íslands leiguskip. Þau voru spurð, hvort þau vildu eignast þetta skip. Bæði sögðu að athuguðu máli, að þau vildu ekkert hafa með skipið að gera. Þá var farið að leita fyrir sér um sölu á skipinu til útlanda. Sölunefnd setuliðseigna hafði einhverja von um að geta selt það til útlanda fyrir um eina milljón norskar krónur. Þá rétt um sama leyti vildi svo til, að olíuflutningaskip annars olíufélagsins strandaði. Þá gekk ég í það að neita um að veita útflutningsleyfi fyrir þetta skip til útlanda. Varð þá úr, að ríkissjóður tók að sér að reka skipið og hefur annazt það síðan. Og hver hefur útkoman orðið á rekstri þessa skips, sem olíufélögin vildu ekki taka að sér og leit út fyrir um tíma, að væri ekki hægt að halda í landinu, og hefði verið selt til útlanda, ef ekki hefði verið beitt harðræði? Niðurstaðan hefur orðið sú, að það hefur verið hægt að lækka fragtirnar meðfram ströndum landsins um eina milljón króna, og skipið hefur skilað upp undir það sömu upphæð í tekjur. Þetta er dæmi um rekstur ríkisins, sem var þrengt upp á ríkissjóð, af því að olíufélögin höfðu ekki sinnu á að taka við honum, ég veit ekki hvers vegna. Þau hafa sjálfsagt ekki gert sér grein fyrir, um hvað hér var að ræða, en svona er niðurstaðan eftir eins árs rekstur. M. ö. o., ef ekki hefði verið gripið í taumana og ríkissjóður hefði ekki tekið að sér rekstur þessa skips, þá hefði skipið verið látið fara úr landi. Það hefði fengizt í bili ein milljón króna í erlendum gjaldeyri, þó þannig, að olíufélag, sem starfaði hér, hefði orðið að fá nýtt skip. Þar að auki var það svo, að þeir taxtar, sem olíufélögin höfðu fengið samþykkta af verðlagsyfirvöldunum og gert grein fyrir, að þau þyrftu að fá, voru svo ríflegir, að þegar það opinbera tók að sér þennan rekstur, var hægt að lækka taxtana um eina milljón og hagnaður samt upp undir það sama upphæð á einu ári. Þetta sýnir, að það er ekki alltaf til hins verra, að það opinbera hafi afskipti af atvinnurekstri.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta, en ég tel, að bæði þau dæmi, sem hv. fim. þessarar till. hefur dregið fram til að sanna, að rekstur hins opinbera eigi ekki rétt á sér, séu að meiri hlutanum til gripin úr lausu lofti og sanni ekki það, sem hann ætlar þeim að sanna. Hins vegar vil ég segja, að ég tel, að mér hafi tekizt að nefna dæmi sem sýna, að ríkisrekstur getur stundum orðið til að spara almenningi fé og veita ríkissjóði tekjur.

Ég skal nefna eitt dæmi enn um opinberan rekstur, sem bendir ekki í þá átt, sem hv. þm. vill vera láta. Það er bæjarrekstur togara. Fyrir nærri því tuttugu árum byrjuðu bæjarfélög að gera út togara. Bæjarfélögin byrjuðu út úr neyð, af því að einstaklingarnir höfðu dregið sig í hlé, þegar þeir græddu ekki nóg. Það var ekki talað um, að þeir þyrftu að sjá fyrir fólkinu, sem var atvinnulaust. Út frá því sjónarmiði var hafizt handa um bæjarútgerð árið 1931. Ég skal viðurkenna, að á þeim erfiðu árum gaf hún nokkurt tap, sem var ekki óeðlilegt, því að þá var ekki hægt, eins og afurðasölu og rekstri var háttað, að gera út, svo að nokkrar líkur væru fyrir fjárhagslegum ávinningi af rekstrinum, en þeir, sem stofnuðu til þessa rekstrar, töldu samt ávinning fyrir bæjarfélagið í heild að halda uppi þessum rekstri, þó að hann sýndi lítils háttar reikningslegt tap, því að með honum skapaðist atvinna í bænum og þjóðarbúinu tekjur, sem annars hefði ekki verið aflað. Síðar sýndi sig, þegar önnur útgerðarfélög komust af, þá græddi þessi starfsemi ekki síður en einkafyrirtækin og hefur síðan orðið bæjarfélögunum stoð og stytta um langan tíma. Og hér þarf ekki að taka minn vitnisburð einan, þvert á móti. Fjölda margir aðrir geta þar borið vitni. Það vitnið, sem þar ber hæst, er íhaldsbæjarstjórnarmeirihluti Reykjavíkur. Hann hefur fundið sig til knúðan að taka upp slíkan rekstur og ekki getað komizt hjá því, og fjöldi bæjarfélaga hefur komið upp hjá sér slíkum bæjarrekstri og gert það með sæmilega góðum árangri, sum með gróða. Það er jafnvel svo, að meiri hluti bæjarstjórnar Reykjavíkur, einstaklingshyggjumenn, hafa ekki séð sér fært að spyrna móti broddunum og láta einstaklingana eina um þennan rekstur. Ég held, að það sýni kannske ljósar en nokkuð annað yfirburði opinbers rekstrar á stundum, að þegar þessi hv. þm. komst í þá ábyrgð, sem hann eitt sinn var í, þá sá hann ekki aðra leið færa á sumum sviðum en að fara út í opinberan rekstur, og þegar bæjarfélög, sem er stjórnað af sjálfstæðismönnum, hafa aðstöðu til að taka upp bæjarútgerð, þá gera þau það, af því að þau telja, að það sé heppilegasta rekstrarfyrirkomulagið fyrir þessi skip. Hvað sannar betur ágæti opinbers rekstrar en það, þegar þeir, sem ekki trúa á hann, neyðast til að taka hann upp?

Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að geta þess, að opinber rekstur, sem stofnað er til á þennan hátt, hlýtur að verða allmikið öðruvísi en sá opinberi rekstur, sem við Alþýðuflokksmenn leggjum til, að stofnaður verði eða þjóðnýttur. Sá opinberi rekstur, sem rekinn er af mönnum, sem hafa ekki trú á honum og vilja hann kannske feigan, eins og hér hefur komið fram, og nota hvert tækifæri til að bregða fyrir hann fæti, — það er ekki von, að sá opinberi rekstur verði tryggur.

Hv. þm. minntist nokkuð á Fiskiðjuver ríkisins. Mér er ekki örgrannt um að halda, að það hefði mátt búa betur að því fyrirtæki. Það hefði mátt láta það fá nauðsynlegt rekstrarfé til sinna þarfa, svo að það hefði getað komið upp sinni starfsemi, sem hugsuð var, og efla meira en nú er gert, þann rekstur, sem því var ætlað að inna af höndum. En hvers vegna er þetta ekki gert? Það er vegna þess, að meiri hluti Alþingis hefur ekki viljað ljá því það fjármagn, sem það þarf til að sinna sínu hlutverki. Þannig eru ýmsir örðugleikar, sem opinber fyrirtæki hafa við að stríða, meira og minna tilbúnir, kannske til þess að gera þeim örðugra fyrir og til þess að láta líta svo út, að þau séu óhæfari til að sinna því hlutverki, sem þeim er ætlað að vinna, heldur en ella mundi. Ég gæti nefnt fleiri dæmi, og getur verið, að ég geri það síðar.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þessi opinberu fyrirtæki, en koma að öðrum þætti í ræðu hv. þm., þar sem hann talaði um skerðingu athafnafrelsisins. Skerðing á athafnafrelsi manna hér á landi er eiginlega í því fólgin nú, að menn þurfa að fá fjárfestingarleyfi til ýmiss konar framkvæmda, sem þeir þurftu ekki áður, og þeir mega ekki flytja til landsins vörur nema með leyfi viðskiptanefndar. Höft á athafnafrelsi manna eru, að ég ætla, ekki veruleg önnur en þessi. En hvernig var það með hv. 1. þm. Reykv., þegar hann var í ríkisstjórn? Var hann ekki með neina skerðingu á athafnafrelsi manna? Ég held það. Hann bar fram frv. um stofnun viðskiptaráðs. Í því frv. var svo fyrir mælt, að ákveða mætti af hinu opinbera, hvaða vörur mætti flytja til landsins. Voru það ekki hömlur á athafnafrelsi manna? Fjárhagsráð gat einnig ráðstafað farmi í skipum. (LJóh: Var ekki stríð, þegar þetta var gert?) Jú, að vísu, en ég held, að „mótíveringin“ fyrir þessum ráðstöfunum hafi ekki verið, að það var stríð, heldur vöruskortur, eins og hafði verið fyrir stríð og eftir stríð. Það var ekki hægt að fullnægja eftirspurninni. (BÓ: Það var enginn vöruskortur.) Að þessu frv. var hann meðflm. Það átti að ráðstafa gjaldeyri og farmi í skipum. Þetta eru alveg sömu ráðstafanir og nú eru í gildi. (LJóh: Á stríðstímum.) Við skulum segja það. — Ég skal þá koma að öðrum ráðstöfunum þessa hv. þm., sem ekki helguðust af stríðinu. Það voru dýrtíðarráðstafanir, sem hann gerði og er nú að atyrða ríkisstj. fyrir. Hann flutti frv. um að leggja á nýjan tekjuskatt. Hann kom með frv. um nýjan eignarskatt. Hvað átti að gera við þessa peninga? Sama og núverandi stj. gerir við þá skatta, sem hún innheimtir. Hún borgar niður vöruverð, það gerði hann líka. Hún heldur upp framleiðsluvörum landsmanna. Það gerði hann líka. M. ö. o., það, sem hann átelur stj. fyrir, stóð hann að, að gera sjálfur, þegar hann var í ábyrgri stöðu sem ráðh. Það er furðulegt, að þessi hv. þm. skuli tala um ofrausn og sjúklega ofrausn, þegar hann ber fram till. um að leggja niður allar þær ráðstafanir, sem hann beitti sér fyrir að koma á, þegar hann var ráðh. Ég gæti talið upp ýmis fleiri frv. og l., sem hann stóð að og setti á þessum tíma í sama tilgangi og núverandi ríkisstjórn hefur sett lög og reglur um til þess að ná sama tilgangi 1948 og 49 og hann vildi ná 1944 og 45. Nú leggur hann að vísu til, að farið verði inn á nýja leið og aðra leið, en hann vildi 1943 og 44. Nú er úrræðið hjá honum að lækka gjaldeyrinn um 25% og afhenda annan fjórðung gjaldeyrisins til frjálsrar ráðstöfunar til framleiðenda. Þetta eru, að mér skilst, höfuðtillögurnar, sem hann vill gera til þess að bæta úr dýrtíðarvandamálinu. Árið 1943 vildi hann hafa annan hátt á. Þá vildi hann leggja 2% gjald á cif-verð allra innfluttra vara og 15% álag á tekju- og eignarskattinn. M. ö. o., þegar hann var í stj., vildi hann fara sömu leið og núverandi ríkisstj. hefur farið nú. En hvaða leið hafa þessar ráðstafanir farið? Þá leið að reyna að afla tekna í dýrtíðarsjóð með hækkuðum sköttum, með söluskatti og með hækkuðum tollum til þess að geta á þann hátt borgað niður vöruverð innanlands og séð til þess, að íslenzkir framleiðendur fengju fullt ábyrgðarverð fyrir sína vöru. Nákvæmlega það sama vildi þessi hv. þm. gera, þegar hann var ráðh., þó að hann vilji fara allt aðra leið nú.

Ég skal ekki, af því að ég sé, að fundartíminn er bráðum á enda, fara út í að „diskútera“ við þennan hv. þm. um gengislækkun og afhendingu gjaldeyrisins til frjálsrar ráðstöfunar. Ég held, að það megi finna á þeirri leið ýmsa agnúa, ekki síður en þeim leiðum, sem hann er að átelja. Ég fyrir mitt leyti get sagt það hispurslaust sem mína skoðun, að ég vil ekki leggja til, að sú leið verði farin, fyrr en öll önnur sund væru lokuð. Því að án þess að ég vilji ræða það sérstaklega, þá tel ég, að þessari leið fylgi svo margir annmarkar, að mjög sé undir hælinn lagt, hvort sá ávinningur, sem af því fæst, svari tilkostnaði. Og hitt er víst, að sá almenni kostnaður, sem af þeirri leið leiðir, leggst með fullum þunga á allan almenning í landinu. Hann kemur fram í hækkuðu vöruverði og verður þess vegna til þess að draga úr þeim lífskjörum, sem almenningur á nú við að búa. Þá er tvennt til: Annaðhvort að almenningur sætti sig við þetta, sem ég býst ekki við, að hann geri, en ef hann gerir það, þýðir þetta skert lífskjör og verri lífsafkomu. En ef hann sættir sig ekki við þetta, þýðir það vinnudeilur og algert öngþveiti. (BÓ: Höfum við ekki vinnudeilur?) Jú, en það eru smámunir samanborið við það, sem þá mundi hefjast, ef leið hv. þm. yrði farin. Mér skildist á honum, að hann mundi vilja binda kaupgjald, en það hefur verið reynt áður.

Ég held þess vegna, að það sé ekki ráðlegt að fara þá leið, sem hv. þm. bendir þarna á, að lækka gengið um 25% eða gefa önnur 25% af gjaldeyrinum frjáls til þeirra, sem að framleiðsluatvinnuvegunum standa. Ég hygg, að það yrði miklu frekar til þess að koma öllu í enn þá meira öngþveiti, en það nú er, þó að þm. telji það mikið. En öngþveitið er þó ekki meira en það, að okkur hefur tekizt á árinu sem leið í fyrsta sinn í mörg ár að ná gjaldeyrisjöfnuði í viðskiptajöfnuði okkar við útlönd, og um það er ég sammála hv. þm., að það verður að vera grundvallaratriðið í öllum okkar viðskiptamálum, að við höfum jöfnuð við útlönd. Einnig er ég honum sammála um það, að við verðum að hafa greiðsluhallalaus fjárl. og eftirlit með fjárfestingu. Þetta eru þrjú mjög stór atriði til viðreisnar fjárhags- og atvinnulífi landsins, og ef okkur tekst að koma þeim öllum vel í höfn, tel ég, að miklu sé náð. Eftirliti með fjárfestingu hefur verið komið á, og með allgóðum árangri það eina ár, sem það hefur starfað. Komizt hefur verið hjá greiðsluhalla við útlönd árið sem leið í fyrsta skipti um mörg ár, og nú er það Alþingis að gera það upp við sig, hvort það vill greiðsluhallalaus fjárl. eða ekki, en ég álít, að af mörgum ástæðum sé nauðsynlegt, að stefnt sé að því, að fjárl. verði greiðsluhallalaus, og er ég tillögumanni um það sammála, að nauðsynlegt sé að, að því verði unnið. Hins vegar tel ég mjög orka tvímælis, hvort það yrði til góðs að lækka gengi frjáls gjaldeyris eða það næði þeim tilgangi, sem hv. þm. vill ná. Ég er ekki í vafa um, að það yrði til ills fyrir allan meginþorra landsmanna og að kjör þeirra yrðu skert meir á þann hátt, en hingað til hefur nokkurn tíma verið gert. Það hefur verið stefna ríkisstj. hingað til að reyna að mæta dýrtíðinni á þann hátt að reyna að halda vöruverðinu í skefjum og greiða niður með fé ríkissjóðs, þar sem ekki hefur tekizt að koma verðlaginu nógu lágt. Til þess verður að afla tekna, og það eru takmörk fyrir því, hvað afla má mikilla tekna í þessu skyni. En enn þá að minnsta kosti held ég að komizt verði hjá því að grípa til þeirra ráðstafana, sem ég vil kalla örþrifaráð, og fylgja till. hv. þm.

Ég get svo gjarna látið máli mínu lokið í bili. Ég hefði getað farið út í og ætla mér raunar að fara út í ýmis fleiri atriði og geri það kannske seinna, en mun hætta að sinni, þar sem fundartíma er fyrir nokkru lokið.