25.04.1949
Sameinað þing: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í D-deild Alþingistíðinda. (4872)

121. mál, ríkishlutun um atvinnurekstur

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég tel það illa farið, að talsverðum tíma hefur verið varið til þess að ræða mál, sem í rauninni koma ekki þessu máli við, sem hér liggur fyrir, og vænti ég, að þeim deilum mætti nú verða lokið milli síðustu ræðumanna.

Ég ætla þá að leyfa mér að svara nokkrum atriðum, sem komið hafa fram í ræðum þeirra þm., sem hafa um þetta mál rætt. Ég sé, að hv. 2. þm. Reykv. er ekki hér staddur, svo að ég ætla ekki að fara út í nokkur atriði, sem ég ætlaði að svara ræðu hans. Annars tel ég það ekki skipta miklu máli að fara út í deilur við hann um þetta mál, sem hér liggur fyrir. — Ég ætla þá fyrst að leyfa mér að svara nokkrum atriðum í ræðu hæstv. ráðh., sem hann hélt hér við síðustu umr. málsins. Þar heldur hann fram ýmsum staðhæfingum mig varðandi, og undrar mig mjög, hversu óvandur hann er að fullyrðingum sínum í því efni. Ég sé, að blaði hæstv. ráðh. hefur fundizt mjög mikið til um þessar fullyrðingar og hefur varið allri sinni fyrstu síðu til þess að skýra frá þeim og m. a., sem kannske er ekki í frásögur færandi, birt mjög laglega mynd af hæstv. ráðh. Og í sambandi við þetta segir blaðið m. a., og hefur það eftir ráðh., að ég leggi nú til á Alþ., að dregið sé úr ríkisrekstri og þær stofnanir afnumdar, sem ég hafi sjálfur gengizt fyrir að koma á fót í minni ráðherratíð, og ég komi nú þannig til Alþ. til þess að biðja það að afnema mín eigin afkvæmi. Og blaðið segir enn fremur, að ráðh. hafi bent á það sem sönnun fyrir nauðsyn ríkisrekstrar, að jafnvel fjandmenn þeirrar stefnu, eins og Björn Ólafsson, taki upp ríkisrekstur, þegar þeir séu í ríkisstj. Þetta er sagt vegna þeirrar fullyrðingar ráðh., að sérleyfisakstur ríkisins hafi verið settur á laggirnar, þegar ég var í ríkisstj., og ég hafi verið upphafsmaður að þessum flutningum og ég hafi komið með sérstök l. í þingið og fengið þau samþ. til þess að fá þessa flutninga í hendur ríkisins. Mér dettur ekki í hug að halda, að hæstv. ráðh. skýri frá þessu vísvitandi rangt. En mig furðar á því, að hæstv. ráðh. skuli ekki vita betur um þessi mál, en hann hefur skýrt frá, og lætur ekki einungis skína í það, heldur fullyrðir, að ég sé upphafsmaður að því að koma þessu í gang og hafi fengið lög samþ. til þess að festa þennan rekstur í höndum ríkisins. Það sanna í þessu máli er það, að veturinn 1944 féll niður sú heimild, sem hafði veríð gefin tveim sérleyfishöfum um rekstur á norðurleiðinni. Þá var það, að póststjórnin var látin reka þessa leið til bráðabirgða frá 1. marz til 1. maí 1944. Frá 1. maí 1944 er svo leiðin fengin í hendur tveim aðilum, annars vegar fyrrverandi leyfishafa, Bifreiðastöð Akureyrar; og hins vegar þremur öðrum aðilum úr Reykjavík, sem ráku leiðina á móti B.S.A. Ég hafði ekki með þetta að gera, heldur þáverandi atvmrh., en við vorum báðir sammála um það, að það kæmi ekki til mála að láta ríkið reka þessar ferðir, meðan nokkur maður fengist til að gera það. Það var þess vegna ekki ég, sem tók upp þessar ferðir, vegna þess að þær voru ekki teknar upp á vegum ríkisins meðan ég var fjmrh. — Hæstv. ráðh. talaði um, að sérstök lög hefðu verið sett í þessu skyni. Þetta er kannske ekki alveg rangt, en það er mjög villandi. Þau lög, sem hann á við, eru l. um fólksflutninga síðan 1935. Þessum l. var breytt 1936 og aftur 1944. Þetta voru engin ný l., sem ég kom með, þetta eru l., sem taka breyt. frá ári til árs, eftir því sem á þarf að halda. Inn í þessi l. hafði þáverandi atvmrh. sett heimildargrein fyrir atvmrn. að taka í hendur sínar, ef á þyrfti að halda, rekstur á sérleyfisleiðum, en þessi heimild var ekki notuð af þáverandi ríkisstj., heldur notuð af ríkisstj., þegar núverandi hæstv. viðskmrh. kom í hana, og mig minnir, að hann hafi haft með þessi mál að gera, þegar hann kom í ríkisstj., sem tók við 1944. En ég vil upplýsa hæstv. ráðh. um það, að ég hafði ekkert með þessi mál að gera, þau heyrðu ekki undir mig. Þótt atvmrn. eða ríkisstj. kæmi með breyt. á l. frá 1935, þá getur það ekki talizt stjfrv., sem lagt var fram, til þess að ríkið tæki í sínar hendur rekstur flutninga á langleiðum. Það er þess vegna hæstv. viðskmrh. sjálfur, sem hefur komið þessu í lag, og hann segir, að það hafi verið gert af illri nauðsyn. Hver var sú illa nauðsyn? Sú, að því er hann segir, að það fékkst enginn maður til þess að taka við akstri á þessari leið. Ég vil ekki nota stór orð um þetta, en ég vil segja það, að sannleikanum er talsvert mikið misþyrmt í þessum efnum. Bifreiðastöð Akureyrar bauðst til þess hvað eftir annað 1945 að taka við akstrinum, ef hún gæti fengið hann ein, en vildi ekki reka hann á móti því opinbera. Þetta staðfesti eigandi stöðvarinnar við mig í samtali fyrir tveimur dögum. Og hann segist vera reiðubúinn til að votta hvar sem er, að hann hefði á þeim tíma verið reiðubúinn til þess að taka við akstrinum á þessari leið. Og ég verð að segja, að það er ekki í kot vísað að láta þennan mann taka við þessum rekstri, sem er einhver harðduglegasti maður, er hefur haft með sérleyfisakstur að gera, — svo að í þessu efni eru það vægast sagt mjög villandi upplýsingar, sem hæstv. samgmrh. hefur gefið hér. En undir handleiðslu þessa hæstv. samgmrh. hefur svo þessi akstur borið þann árangur, að hann er kominn í nálægt einnar millj. kr. tap. Á árinu 1948 er talið, að tapið hafi numið í kringum 600 þús. kr. Þetta virðist benda á það, að hæstv. ráðh. hafi alls ekki fylgzt með rekstrinum og ekkert vitað, hvað var að gerast. Og ég verð að segja, að ég varð talsvert undrandi, þegar þetta kom til umr., ég held í sambandi við fjárlagafrv., að þá vildi hæstv. samgmrh. alls ekki viðurkenna, að um tap væri að ræða á þessum rekstri. Ég verð að segja, að hefði ég verið í hans sporum, þá hefði ég a. m. k. fylgzt með rekstrinum. Og ég mundi hafa tekið í taumana, þegar ég hefði séð, í hvert óefni væri komið. — Ég skal ekki í þessu sambandi ræða mikið um stjórnina á þessu fyrirtæki. Það væri kannske kapítuli út af fyrir sig til að ræða um. Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Barð. sagði um aðbúðina við sérleyfishafa um mörg ár. Ég var um skeið formaður í þeirri nefnd, sem hafði með þennan rekstur að gera, og er því málinu kunnugur. Aðbúðin fór versnandi með hverju ári. Og það var orðið svo síðast, að þeir menn, sem vildu halda uppi góðri þjónustu í akstrinum, gátu ekki gert það, vegna þess að þeir fengu ekki nauðsynleg tæki til þess. Þetta vita allir, sem hafa nokkuð fylgzt með þessum málum. Og ég skal geta þess í þessu sambandi, að ég fyrir mitt leyti hafði ekki á móti því, að póstsjóður léti byggja yfir nokkra bíla seint á árinu 1944, með því skilyrði, að þeir bílar yrðu afhentir til sérleyfishafa á stærri leiðum. En ég sé það nú, að þessir bílar hafa verið notaðir til þess að taka sérleyfisleiðir undir ríkið, eftir að núverandi hæstv. samgmrh. kom í ráðherrastólinn.

Þá er það ferðaskrifstofan, sem hæstv. ráðh. minntist á. Ef hæstv. ráðh. hefði haft fyrir því að hlusta á það, sem ég sagði um þessa stofnun, þá mundi hann vita, að ég sagði um hana hvorki lof né last. Ég sagði aðeins frá því, að hún væri byrjuð á hótelrekstri, sem mér vitanlega er ekki í höndum neinnar ferðaskrifstofu í heiminum, nema „Intúrist“ í Rússlandi. Mér er ekki kunnugt um hótelrekstur í sambandi við ferðaskrifstofu annars staðar. Ég sagði líka, að tapið á ferðaskrifstofunni væri áætlað 200 þús. kr., og mér skilst, að ekki sé borið á móti því, að svo sé. Hæstv. samgmrh. sagði, að það væri ekki nema eðlilegt, að skrifstofan gæti ekki staðið undir dýrri landkynningu. Þetta viðurkenni ég, að er rétt. Landkynning sem slík, ef um er að ræða prentun á pésum og bókum, sem dreift er ókeypis, er þannig, að ekki er að búast við því, að stofnun eins og ferðaskrifstofa ríkisins standi undir henni. Landkynningin er talin munu kosta 65 þús. kr., en tapið er talið 200 þús. kr., sem þá kemur ekki allt af landkynningunni, því að tapið er 135 þús. kr. meira en sem nemur landkynningunni, þó að hún sé öll tekin með og færð á reikning ferðaskrifstofunnar. — Svo skildist mér hæstv. samgmrh. vera talsvert drjúgur yfir því, að landkynningin á Keflavíkurflugvellinum væri ábatasöm. Þar hefur ferðaskrifstofan sérstaka skrifstofu og sérstaka menn, og þar eru seldir margs konar munir, sem erlendir flugfarþegar geta keypt þar. En það er talinn kostnaður við Keflavíkurflugvöllinn 73.200 kr., en tekjurnar eru ekki áætlaðar nema 45 þús. kr. M. ö. o., að þarna er um 28 þús. kr. tap að ræða á rekstri við Keflavíkurflugvöllinn. Það getur vel verið, að það sé hið mesta nauðsynjaverk að hafa þennan rekstur þarna, og það getur vel verið, að það borgi sig fyrir ríkið að tapa á því 28 þús. kr. á ári. En það er alls ekki við því að búast, að þetta fyrirtæki sé rekið hallalaust, vegna þess að forstjórinn þar hefur lýst því yfir opinberlega, að svona fyrirtæki eins og ferðaskrifstofa sé menningartæki, sem ekki eigi að bera sig — eins og t. d. landsbókasafnið eða atvinnudeild háskólans. Og hvernig er hægt að búast við því, þegar sjálfur forstjórinn fyrir þessu fyrirtæki hefur þessar hugmyndir um reksturinn, að þetta fyrirtæki beri sig fjárhagslega? Það er útilokað. Ég álasa honum ekkert fyrir það, hvaða hugmyndir hann hefur um þetta, hvernig eigi að reka ferðaskrifstofu. Það er kannske hæstv. ráðh. að dæma um það, með hvernig hugarfari sá maður á að vera, sem tekur stjórn á rekstri ferðaskrifstofu að sér. En mér finnst ekkert benda til þess, að það sé ætlazt til þess á hærri stöðum, að skrifstofa þessi sé rekin öðruvísi en með stórkostlegum halla. Annars staðar eru ferðaskrifstofur reknar sem hver önnur atvinnufyrirtæki og látnar borga sig. Flestar þeirra eru ágæt atvinnufyrirtæki, og sumar ferðaskrifstofur eru stórgróðafyrirtæki, eins og við vitum. Þetta eru heimsfirmu. Það má kannske segja sem svo, að ekki sé við því að búast, að hér á Íslandi sé hægt að reka ferðaskrifstofu með miklum ágóða, og kannske er ekki við því að búast, að þessi skrifstofa geti borið sig fjárhagslega. En þá verðum við bara að líta á hlutina eins og þeir eru og gera okkur grein fyrir því, að það stoðar heldur ekki að vera með skrumauglýsingar í útlöndum til að laða menn hingað til landsins í vetrar- og sumarsport, meðan við höfum ekki hótel til að hýsa þá. — Ég skal ekki fara nánar inn á þetta, þó að ástæða væri til að ræða það í fullri vinsemd, hvernig gera mætti ráð fyrir, að heppilegast væri að koma fyrir þessum málum, svo að ríkið hefði af þeim sem léttastan bagga eða kannske engan bagga, en að þetta kæmi samt að notum eða gæti látið af hendi þá þjónustu, sem þessari skrifstofu er ætlað að gera. Ég hef aldrei tekið það alvarlega, og ætla mér ekki að ræða það hér, þó að forstjórinn fyrir þessari skrifstofu vildi láta mjög ákveðið í það skína, að ég hefði minnzt á þessa skrifstofu vegna þess, hve mér væri mikið í nöp við hana, af því að ég hefði einu sinni verið í samkeppni við hana. Sá þáttur er fyrr löngu horfinn. En ég man ekki eftir, að ferðaskrifstofa ríkisins riði mjög feitum hesti frá þeim viðskiptum að ýmsu leyti, sem hún hafði í samkeppni við þá einstaklinga, sem höfðu þennan rekstur, sem voru fáeinir menn, ég og mínir félagar.

Hæstv. ráðh. kom lítils háttar inn á að tala um síldarverksmiðjur ríkisins og sagði m. a., að þær hefðu verið settar á fót vegna þess, að einkaframtakið hefði ekki getað staðið undir þeim framkvæmdum. Þetta er að mörgu leyti rétt. Hitt er líka rétt, að það eru fjórar einkarekstrar-síldarverksmiðjur til í landinu, sem þrífast mjög vel. Og hæstv. ráðh. veit kannske alveg eins vel og ég, hvers vegna þær þrífast vel. Það er af þeirri ástæðu, að Síldarverksmiðjur ríkisins reka sínar verksmiðjur með miklu hærri tilkostnaði, en einkaverksmiðjurnar eru reknar. Í stríðinu, frá því árið 1939 og þangað til 1944, var ég meira og minna við riðinn samninga, sem voru gerðir um sölu síldarafurða til útlanda. Það voru alltaf Síldarverksmiðjur ríkisins, sem gáfu sína útreikninga um það, hvað þyrfti að fá hátt verð fyrir afurðirnar. Og þegar einstaklingarnir, sem síldarverksmiðjur ráku, voru spurðir um það, hvort þeir hefðu nokkuð út á þessa reikninga að setja, þá var aldrei minnzt á það af þeirra hendi, að þeir þyrftu að fá hærra verð fyrir afurðirnar, en Síldarverksmiðjur ríkisins töldu sig þurfa að fá fyrir sínar afurðir. Hvers vegna? Þetta var af því, — og það var á allra vitorði, — að einstaklingarnir hefðu getað selt afurðir frá sínum síldarverksmiðjum við 10% lægra verði, en síldarverksmiðjur ríkisins.

Það væri nú of langt mál að fara hér út í þau afglöp, sem hafa orðið í sambandi við þessi síldarverksmiðjumál á vegum ríkisins á undanförnum árum. Það er náttúrlega þáttur, sem þarf að koma fram, þó að ekki sé hér tími nú til að gera honum full skil. En hvers vegna verða þessi afglöp? Þau verða vegna þess, að það er ríkisvaldið, sem ræður yfir fyrirtækinu, það er ríkisvaldið, sem hefur í höndum sér ákvarðanir, án þess að það sé lagt undir dóm eða í framkvæmd manna, sem eru frambærilegir til þess að gera það, sem gera skal í þessum málum. Þessi hæstv. ráðh. á ekki sök á því, og sá þáttur, hvernig afglöp voru unnin í þessum málum á síðustu árum, er mjög mikið sök annarra ráðh. Og sá þáttur hlýtur að koma fram í dagsljósið síðar miklu betur, en hann er kominn enn.

Það er óþarfi fyrir mig að ræða mikið um bæjarútgerðina, vegna þess að hv. þm. Barð. hefur tekið það ómak af mér. En ég verð að segja það, að það eru hörð og ósanngjörn ámæli hjá hæstv. ráðh., þegar hann tekur það sem dæmi um nauðsyn bæjarútgerðar, að 1939 hafi einstaklingar dregið sig í hlé og ekki viljað gera út togara. Ég veit, að hæstv. samgmrh. er það eins vel kunnugt eins og okkur hinum, sem nokkuð höfum fylgzt með þessum málum, hvers vegna togaraútgerðin þá komst í strand. Og það var vegna þess, að hún var búin að eyða öllum sínum sjóðum og öllu sinu lánstrausti í taprekstri margra ára. Sá taprekstur kom líka við bæjarútgerð Hafnarfjarðar, sem þá var starfandi. Og ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. muni, að þá voru talsverðir erfiðleikar, sem útgerðin hafði við að etja. Og það er fullkomin ósanngirni af hans hálfu að bera það á einkaframtakið, að það hafi þá svikizt undan merkjum, þegar mest á reið, einmitt þegar einkaframtakið var búið að offra öllum sínum efnum og öllu sínu lánstrausti í það að halda áfram togaraútgerð svo lengi sem mögulegt var fyrir það að gera það. Og flokkur hæstv. samgmrh. á þeim tíma ætlaði sér þá einmitt að ganga að stærsta útgerðarfyrirtækinu, sem var búið að eyða öllum sínum eignum og öllu sínu lánstrausti í að reka togaraútgerð. — Það er ekkert undarlegt, þó að þeir aðilar vilji gera út skip, sem geta rekið útgerð þessara skipa án þess að borga nokkra skatta. Einstaklingar mundu líka vilja eignast nýja togara, ef þeir þyrftu ekki að borga skatt af þeim hagnaði, sem af rekstri þeirra togara yrði. Ég ætla að vona það, að þessi bæjarútgerð, sem hér hefur verið hafin á mörgum stöðum á landinu, megi blessast. En því miður er þannig til hennar stofnað á mörgum stöðum, að það lítur ákaflega illa út með, að þessi útgerð geti blessazt.

Þá kem ég að því atriði, er hæstv. samgmrh. sagði, að ég hefði — eða það mátti fullkomlega skilja það á honum — að ég hefði verið upphafsmaður að höftum, lagt út í niðurgreiðslur og lagt á nýja skatta, alveg eins og núverandi ríkisstj. gerir. Það er alveg rétt, að ég lagði út á þessa braut, sem kölluð er niðurgreiðslur, sem margar þjóðir hafa gert. (FJ: Já.) Hvað sagði hv. þm.? (FJ: Ég sagði já.) Og það var til þess að reyna að forða þjóðinni frá þeirri hættu, sem stafaði af verðbólgunnl. En hæstv. ráðh. og Alþ. kærðu sig ekki um að snúa við á þeirri braut, heldur vildu halda áfram, og hæstv. Alþ. heldur enn áfram á sömu braut. Ég sá það árið 1944, að þessi braut leiddi til ófarnaðar. Hæstv. samgmrh. hefur ekki séð það enn, því að ef hann hefði séð það, mundi hann fyrir löngu hafa snúið við. Ástæðan fyrir því, að utanþingsstjórnin sagði af sér, var ekki önnur en sú, að hún vildi ekki halda áfram á niðurgreiðslubrautinni og braut aukinna skatta, eins og núverandi hæstv. ríkisstj. hefur gert. Það er rétt, að ég setti á lítils háttar skatt. En hvað er það, samanborið við þá skatta, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur sett? Ég kem kannske nánar inn á það seinna. En nú er það svo, að á meðan allar þjóðir aðrar í Evrópu eru að losa sig við höftin, þá erum við að bæta á þau. Við erum alltaf að þrengja það svið, sem menn hafa til athafna, bæði viðkomandi innflutningnum, útflutningnum, framleiðslunni og yfirleitt allri starfsemi í landinu. — Það er dálítið spaugilegt, að það kom í útvarpinn — ég held á páskadaginn, að það væri nú í fyrsta skipti, síðan styrjöldin hófst, sem Frakkar fengju páskaegg. En í fyrsta skipti, síðan styrjöldin hófst, sem Íslendingar fengu ekki páskaegg, það var í ár. Þetta sýnir bara þróunina, þó að þetta sé ekki merkilegt atriði út af fyrir sig. Mér liggur í léttu rúmi, hvort við höfum páskaegg eða ekki. En þetta bara sýnir það, að okkur er alltaf að fara meir og meir aftur. En hæstv. samgmrh. virðist alls ekki verða var við þetta. Okkur vantar allt mögulegt og þar á meðal páskaegg. Þó að það sé kannske ekki mikils virði að hafa sælgæti, þá held ég nú, að þær þjóðir, sem hafa haft verulega stranga skömmtun á sælgæti, hafi fundið til þess. Og mér er nær að halda, að þær lausnir, sem hafa verið gerðar á skömmtun í Englandi t. d. undanfarið — og Englendingar eru að leysa meir og meir alla sína skömmtun og öll sín höft —, þá held ég, að engri lausn í þeim efnum hafi verið þar tekið með jafnmikilli gleði eins og því, er aflétt var skömmtun á sælgæti. Það má kannske hneykslast á því, en það var nú svona. þegar ein þjóð, eins og Englendingar, hafa orðið að herða að sér beltið í mörg ár, þá getur þetta verið svolítill sólargeisli, þó að ekki sé nema að fá sælgætið frjálst. Hér er það ekki skammtað, en hér fæst það ekki. Og hvers vegna er þetta? Er það kannske af því að hæstv. ríkisstj. og hæstv. Alþ. eru hér með ranga fjármálastefnu? Af hverju er það? Það er ekki af því, að við getum ekki fengið jafnvægi eða fundið jafnvægi í okkar þjóðfélagsrekstri alveg eins og hver önnur þjóð. Við verðum bara að sníða okkur stakk eftir vexti, alveg eins og þær verða að gera.

Það má nú kallast fullmikið að telja mig upphafsmann haftanna, vegna þess að höftin byrjuðu árið 1931. Og það, að ég kom með ný lög um viðskiptaráð, var ekki að setja á ný höft. En það var breyt. til batnaðar á eldri höftum, sem höfðu verið illa rekin, en þó ekki eins illa rekin eins og höftin eru nú. Og ég verð að segja, að fyrstu tvö árin voru þessi mál rekin af viðskiptaráði betur en þau hafa verið rekin fyrr eða seinna hér á landi. Og það fór allt úr reipunum hjá viðskiptaráði, þegar mennirnir í það voru skipaðir flokkslega og pólitískt, og síðan hefur það alltaf verið úr reipunum. Og nú held ég, að ófremdarástandið sé meira en það hefur verið nokkurn tíma fyrr, frá því 1931. Ég er ekki beinlínis að ásaka hæstv. viðskmrh. Það getur vel verið, að hann geti ekkert við því gert, því að það eru mörg öfl hér að verki. En mér finnst, að hann ætti að finna til þess, hvernig þetta er. Hann stendur þó það nærri því. Að vísu verð ég að viðurkenna, að hann þarf ekki að sækja undir þessar stofnanir. Það þurfum við hinir að gera, sem annaðhvort höfum verzlun, iðnað eða útgerð eða hvaða framkvæmdir sem eru. Við þurfum að sækja undir þessar stofnanir, og við vitum, hvað það er. Og þó að ég segi sjálfur, þá verð ég að segja það — og segi það eins hlutdrægnislaust eins og ég sé mér fært og tel rétt —, að ég get ekki hugsað mér verr reknar ríkisstofnanir en viðskiptanefndina og aðrar þær stofnanir, sem eru í hennar kjölfari. Ég skal fúslega viðurkenna, að hæstv. viðskmrh. á ekki alla sök á þessu, vegna þess, eins og hann sagði áðan, að þessi mál heyra ekki undir hann nema að nokkru leyti. Og ég er honum fyllilega sammála í því, að það er háðung, að svona mál skuli heyra undir alla ríkisstjórnina, og það er háðung, að þessi mál skuli ekki vera í hendi eins ráðherra, sem beri ábyrgð á þeim. Og ég er sannfærður um það fyrir mitt leyti, að mikið af þessu ófremdarástandi á rót sína að rekja einmitt til þessa. (GÞG: Þetta er ásökun á formenn nefndanna.) Ég er ekkert að ásaka þá menn persónulega, heldur að finna að því, í hvaða formi þessi rekstur er, sem við höfum við að búa, sem teygir anga sína út um allt þjóðlífið og allan atvinnurekstur í landinu. Það getur vel verið, að þessir góðu menn, sem ráða þarna og þarna, geti heldur ekki fengið við þetta ráðið vegna þess, hvernig þessum málum er skipað. Menn verða að fara frá Heródesi til Pílatusar. Það er meira að segja svo, að einn maður í viðskiptanefnd getur vísað deilumáli til fjárhagsráðs, og fjárhagsráð getur svo aftur vísað sama deilumáli til ríkisstj. Það er ekki von, að þessi mál gangi með þessum hætti. Þetta er að verða hrein þjóðarógæfa, hvernig þessi mál eru komin. Og ef við ekki reynum að fá eitthvert betra skipulag á þau en nú er, þá fáum við að súpa af þeim seyðið enn frekar, en við höfum gert hingað til.

Hæstv. samgmrh. sagði það um gengislækkunina, að hann væri á móti henni vegna þess, að hún mundi skerða hlut launþeganna í landinu. Það er náttúrlega alveg rétt, hún skerðir hlut launþeganna í landinu. Það vita allir. En mér er spurn. Hefur þessi hlutur ekki verið skertur? Hefur ekki núverandi ríkisstj. skert hlut launþeganna í landinu? Ég veit, að hæstv. ráðh. er svo glöggur maður, að hann sér, ef hann athugar það, að allar ráðstafanir hæstv. ríkisstj., sem heldur sér við þessa stefnu, eru skerðing á kjörum launþeganna. Ég skal lofa hæstv. ráðh. að heyra lítils háttar dæmi af því. 6% söluskattur á innflutta vöru samsvarar 10–13% hækkun á innkaupsverði. Ég hálfskammaðist mín, þegar ég sá, að söluskatturinn er að meðaltali 10–13% af innkaupsverði, og hélt, að tollstjóraskrifstofan hefði gert reginvitleysu, — en söluskatturinn er m. a. lagður á matvöru og vefnaðarvöru, auk 3% álagningar í smásölu. Þetta samsvarar því 15–18% af innkaupsverði. Útgerðarvörur eru þó undanskildar. Það mundu fáir trúa því, að söluskatturinn, sem er svo sakleysislegur, mundi valda hækkun, sem samsvarar 15–18% gengislækkun. Þá er 65% hækkun á verðtolli og 200% á þungatolli. Það veldur 20–30% hækkun á öllum innkaupum á vefnaðarvöru og skófatnaði. Ég tek þetta af því, að það er einn stærsti liðurinn hjá almenningi og auðvelt að átta sig á tollahækkun á honum. Á vefnaðarvöru og skófatnaði er söluskattur og tollahækkun 35–53% af innkaupsverði. Þessar vörur hafa því fyrir aðgerðir og stefnu hæstv. ríkisstj. í dýrtíðarmálum hækkað sem svarar 35–53% gengislækkun. Hæstv. ríkisstj. heldur því ef til vill fram, að þessar aðgerðir, að taka tugi millj. kr. af almenningi í skatta, komi ekki fram sem kjaraskerðing hjá almenningi. Ég vil taka undir með hv. þm. Barð., að mér þykir gengislækkun slæm og kæmi ekki til greina, nema nauðsyn beri til, en gengislækkun til að ná því jafnvægi, sem þarf, er ódýrasta leiðin og leggur minnstar byrðar á almenning.

Hæstv. ráðh. ræddi ekkert gagnrýni mína á fjármálastefnu hæstv. ríkisstj., eins og hún kemur fram, og hefur kannske af ásettu ráði hliðrað sér hjá því, og skal ég ekki fara lengra út í það að svo stöddu, en vil ræða nokkuð, hvaða áhrif og afleiðingar dýrtíðarstefna Alþfl. hefur haft og er að hafa á hag þjóðarinnar. Ég skal víkja að því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði hér fyrr við umr. Blað hans tók einnig upp þá ræðu, og þar segir m. a.: „Það, sem fyrir þeim félögum vakir í því efni, er einfaldlega það, að einstaklingum verði gefinn kostur á að reka í gróðaskyni fyrir sjálfa sig hin umræddu ríkisfyrirtæki.“ Þetta er úr leiðara blaðsins, en hv. þm. sagði, að það vekti fyrir mér að svipta ríkið tekjum af þessu. Ég verð að segja það, að meinloka er ekki heppileg til að byggja rök á, en þetta er einhver mesta meinlokan, því að öll fyrirtækin, sem hann minntist á, eru rekin með tapi, t. d. fiskiðjuverið, ferðaskrifstofan, sérleyfisferðirnar o. fl. Og þó að ég gæti ef til vill látið þetta bera sig, ef ég verði í það öllum mínum tíma, þá kæri ég mig ekkert um að taka við þeim, eins og stendur, en ég sagði, að betra væri, að þau væru rekin af einstaklingum, og á hvern veg sem á það er litið, er betra, að einstaklingar reki þau með hagnað,i en ríkið með tapi, því að ég veit ekki betur en ríkið hafi langa hönd til að hirða hagnaðinn, því að einstaklingar reka fyrirtækin raunverulega fyrir ríkið, sem hirðir bróðurpartinn af hagnaðinum.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að till. væri vantraust á hæstv. ríkisstj., vegna þess að hún stefndi að því, sem væri í mótsögn við yfirlýsta stefnu hæstv. ríkisstj. Er það mótsögn við stefnu hæstv. ríkisstj. að afgreiða hallalaus fjárl. og sporna á móti og lækka verðbólguna í landinu og koma á heilbrigðu jafnvægi og létta af höftum og skriffinnsku? Og ef þetta er allt mótsögn við stefnu hæstv. ríkisstj., þá hef ég stutt hana illu heilli, það sem af er. Hv. þm. sagði, að ástæðan til íhlutunar ríkisvaldsins í atvinnuvegunum væri sú, að einstaklingsframtakið hefði brugðizt. En þetta er ekki alls kostar rétt, það er ekki vegna þess, heldur hefur Alþ. og flokkur hv. þm. brugðizt skyldu sinni og ekki hirt um að koma málefnum þjóðarinnar á heilbrigðan grundvöll, en farið út á hina breiðu braut styrkja og ihlutunar ríkisvaldsins. Einstaklingsframtakið hefur ekki brugðizt, heldur hefur hið opinbera tekið af þeim hverja greinina eftir aðra. Mér þykir leitt að nota orðið loddaraskapur, en ég finn ekkert orð, sem passar betur við þetta. Hv. 4. þm. Reykv. er sérmenntaður maður á þessu sviði og sér vafalaust, hvernig á að leysa þessi mál, en þegar hann stendur upp hér á þingi, dettur honum ekki í hug að segja það, heldur yfirskyggir pólitík hans fræðimennskuna, eins og sú firra, að höftin hafi verið sett 1931 vegna þess, að einstaklingsframtakið hafi verið búið að koma gjaldeyrismálunum í ógöngur, ber vott um. Ég skal viðurkenna, að þá var mikil pólitísk lausung, en ástæðan til haftanna var heimskreppa, en ekki að einstaklingsframtakið hafi brugðizt. Kreppan var alls staðar, nema ef til vill í Ameríku, og það var vegna heimskreppu, sem höftin voru sett.

Þá talaði hv. þm. enn fremur um glundroðann í fjárfestingarmálum og kenndi einstaklingsframtakinu um það. En ég vil segja, að Alþ., og ekki sízt flokkur hv. 4. þm. Reykv., á sök á því. Ef tekið hefði verið fyrir verðbólguna, væru fjárfestingarmálin nú öðruvísi en þau eru. Þetta er því ekki að kenna einstaklingsframtakinu, heldur pólitísku ástandi í landinu, og ef hv. þingmenn hefðu gert skyldu sína, væri nú öðruvísi umhorfs í þessum efnum. — Hv. þm. sagði enn fremur, að þetta væru hreinar íhaldstillögur og hrein íhaldslausn á vandamálum dýrtíðarinnar. Já, hv. þm. er sérfræðingur í þessum efnum og hefur kynnt sér þau í mörg ár og skrifað fræðilegar ritgerðir um þau og verið í n., sem hafa fjallað um þessi mál. En hafa komið till. frá honum? Engar. En frá hans flokki? Engar. En ég vil spyrja: Hefur Alþfl. stefnu í þessum málum? Ég kalla það ekki stefnu, hina svokölluðu þriðju leið eða status quo. Ég kalla það ekki stefnu, ef sjúklingur er með 40 stiga hita, að halda honum í því, en það er ekki hægt að stöðva hann í því fremur en snjóflóð í fjallshlíð. En það er einmitt það, sem Alþfl. er að reyna að gera. Hann gerir sér ekki ljóst, hversu óskaplega ógæfu þessi stefna getur leitt yfir þjóðina, ef hún á að ganga sér til húðar. Af hverju kemur ekki hv. 4. þm. Reykv. með bjargráð, hann, sem er sérmenntaður á þessu sviði? Því kemur hann ekki með till. og mælir fyrir þeim og stendur með þeim eins og maður? Ég hygg, að það sé rétt hjá hv. þm. Barð., að Alþfl. skorti hugrekki. Hann hefur á hendi stjórnarforustu og ber skylda til að hafa forustu í að koma þessum málum á réttan grundvöll, því að það er enginn maður á þingi, sem ekki viðurkennir, að það sé nauðsyn. En hv. þm. sér ekki fyrr en allt er komið í strand, en það er erfitt að ná skipinu aftur á flot, þegar það er strandað. Ég skal segja hv. 4. þm. Reykv., að ég skal vera með hvaða till. til bjargar og til að koma jafnvægi á efnahagsmálin sem hann kemur fram með aðra en gengislækkun, ef sú till. nær sama tilgangi og leggur ekki þyngri byrði á almenning í landinu.