16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í D-deild Alþingistíðinda. (4893)

131. mál, áburðarverksmiðja

Pétur Ottesen:

Enda þótt ég hafi flutt brtt. við þessa þáltill., þá felur það ekki það í sér, að ég mundi hafa átt frumkvæði að flutningi slíkrar þáltill., því að, að sjálfsögðu er það eitt af hlutverkum hinnar væntanlegu verksmiðjustjórnar að ákveða verksmiðjunni stað, og er þeirri væntanlegu verksmiðjustjórn enginn stakkur skorinn um að leita upplýsinga og tillagna um það efni, enda geri ég ráð fyrir, að frá þeim stöðum, sem sérstaklega vilja fá verksmiðjuna til sín, muni verksmiðjustjórninni berast upplýsingar um aðstöðuna á þeim stöðum, svo að jafnan mundu fyrir verksmiðjustjórninni liggja yfirgripsmiklar og víðtækar upplýsingar um aðstöðuna til verksmiðjurekstrar á hverjum stað og flutningamöguleika frá þeim stöðum út um hinar dreifðu byggðir landsins. En af því að þessi till. er fram komin, þótti mér rétt að benda á þann stað, sem um getur í minni brtt , því að ég tel hann hafa mikla yfirburði yfir þann stað, sem sérstaklega er bent á í þáltill., og skal ég færa nokkur rök fyrir því.

Það, sem sérstaklega þarf að hafa í huga, er slík verksmiðja er reist, er það, að staðsetja hana þar, sem ódýrast er að framleiða áburðinn, og verður þá að miða við, að flutningskostnaður frá staðnum til notenda áburðarins verði sem minnstur, því að flutningskostnaðurinn er mjög verulegur hluti hins endanlega kostnaðarverðs. Augljóst er, að þegar undan er tekið Suðurlandsundirlendið og Vestur-Skaftafellssýsla, þá verður Akranes heppilegri staður en Þorlákshöfn hvað þessa hlið snertir. Það er alllangt í land með það, að hafnargerð í Þorlákshöfn sé komin það áleiðis, að þaðan sé hægt að flytja áburðinn á hvaða tíma árs sem er, svo að flutningar þaðan yrðu fyrst um sinn að miðast við vissa árshluta, og yrðu þeir þá aðallega á landi, og til Vesturlands, Norðurlands og Austurlands yrðu þeir þá allmiklu dýrari heldur en ef verksmiðjan væri á Akranesi. Nú er hafnargerð svo langt komin á Akranesi, að hvaða skip sem eru geta komið þar á hvaða tíma sem vera skal, svo að allan ársins hring er hægt að afgreiða vörur þaðan. Augljóst er, að þau atriði, sem ég nú hef drepið á, skipta miklu um áburðarverðið. — Nú, um raforkuna, sem til þessara framkvæmda þarf, þá má það vera, að hún sé hvergi nægilega mikil eins og stendur. Það er vitað, að á svæði Sogsvirkjunarinnar er ekkert rafmagn aflögu, því að sú raforka, sem nú er framleidd, er hvergi nærri fullnægjandi. Á Akranesi er aftur á móti nokkurt afgangsrafmagn, en þó vissulega ekki nægilegt til að knýja slíka verksmiðju. Hins vegar eru þar verulegir aukningarmöguleikar, eins og annars staðar, og skal ég þó ekki fullyrða, að með aukningarmöguleikum Andakílsárvirkjunarinnar yrði fullnægt þeirri þörf. Hins vegar hefur það legið í loftinu, þegar rætt hefur verið um auknar raforkuframkvæmdir, að tengja saman raforkuframkvæmdir í Borgarfjarðarhéraði og raforkuframkvæmdir Reykjavíkurbæjar og ríkisins við Sogið, og bæri þá að sama brunni, á hverjum þessara staða verksmiðjan yrði reist. Raforkan verður náttúrlega afgerandi atriði, þegar til framkvæmdanna kemur, en með tilliti til flutningskostnaðar er það alveg gefið, að verksmiðjan verður bezt sett í Þorlákshöfn fyrir Suðurlandsundirlendið og Vestur-Skaftafellssýslu, en áburðurinn fyrir alla aðra landshluta yrði dýrari að því er landflutninga snertir, en um þá er aðallega að ræða fyrst um sinn, þótt vonir standi til, þegar lengra líður, að bæta megi svo lendingarskilyrði í Þorlákshöfn, að þar megi að staðaldri afgreiða stærri skip.

Ég mun svo ekki hafa um þetta öllu fleiri orð: Ég tel ekki mikla þörf á því að skipa sérstaka nefnd um þetta, heldur tel ég, að fela beri væntanlegri verksmiðjustjórn þessa athugun, því að hún hefur sömu aðstöðu og sú þriggja manna nefnd, sem flm. þáltill. vilja skipa, til þess að kynna sér öll atriði, er máli skipta um staðsetningu hinnar væntanlegu áburðarverksmiðju.