16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í D-deild Alþingistíðinda. (4895)

131. mál, áburðarverksmiðja

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að þegar um staðsetningu þessa fyrirtækis er að ræða, þá sé sjálfsagt að athuga alla staði, sem til mála koma, enda duldist mér ekki, þegar ég ásamt fleiri hv. þm. bar fram mína brtt., að Akureyri er staður, sem er mjög álitlegur í því sambandi. Í fram kominni þáltill. er lögð áherzla á að athuga gaumgæfilega einn stað, og til þess að víkka út þann þrönga hring, sem þar er markaður, fluttum við þessa brtt., því að sjálfsagt er að benda á aðra heppilega staði, til þess að þeir verði einnig vandlega athugaðir. Hv. þm. Borgf. rann fyrstur á þetta hljóð, en síðan ég ásamt hv. meðflm. mínum.

Ég þarf ekki að halda langa ræðu til þess að leiða rök að því, að athuga beri vandlega möguleikana á því að reisa áburðarverksmiðjuna á Akureyri. Þar eru næstmestir raforkumöguleikar á landinu, því að Laxá er annað mesta fallvatn með bergvatni á landinu, svo að hægt er að framleiða þar rafmagn með constant straumi. Nú er Laxá hvergi nærri fullvirkjuð, en í aðsigi er að auka virkjunina nú á næstunni upp í 10–12 þúsund hestöfl, en ef neðri hluti árinnar væri tekinn við Brúarfossa, gætu fengizt um 40 þúsund hestöfl, og með viðbótarvirkjun telja fróðir menn, að auka mætti raforkuna upp í 70–80 þúsund hestöfl. Önnur skilyrði eru í ríkum mæli fyrir hendi á Akureyri. Þar er hin ákjósanlegasta höfn, svo að hvergi er betra að flytja út en þaðan, og vegakerfið frá Akureyri er gott og nær mjög langt út um land. Við flm. brtt. á þskj. 388 höfum því sérstaklega bent á Akureyri, því að þar má sízt ganga fram hjá við athugun á staðsetningu hinnar væntanlegu áburðarverksmiðju.