16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í D-deild Alþingistíðinda. (4896)

131. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefur líklega fallið niður hjá hv. flm. þessarar till., að kostnaðurinn við n. skuli greiddur úr ríkissjóði, því að ég geng út frá því, að ætlunin sé ekki sú, að n. vinni þetta verk ókeypis. Það er í sjálfu sér virðingarverð viðleitni að bæta nú þessari n. við aðrar n., og ekki óeðlilegt, að þm. bæti nú við n., því að það hefur sýnt sig, að n. hafa jafnvel verið settar til þess að athuga, hvort framkvæma ætti l., sem þegar hafa verið sett. Ég skil þetta því vel, en ég er hissa á því, hvernig hv. þm. hugsa sér undirbúninginn. Það er ákveðið að skipa stj. verksmiðjunnar undireins, sem ríkið á að bera allan kostnað við. Hvernig sem l. verða afgr., verður starf verksmiðjunnar órjúfanlega tengt staðsetningu hennar. Það er því einkennilegt, ef stj. verksmiðjunnar er ekki fær um að ætla verksmiðjunni stað. Enn fremur er til n., sem á að hafa með höndum yfirstj. allra þessara mála, fjárhagsráð, en það á að skipuleggja allan þjóðarbúskapinn. Það er einhver dýrasta n. í landinu, skipuð 5 mönnum, en hefur auk þess fjölda manna í þjónustu sinni. Skipun þessarar n. verkar því næstum eins og vantraust á fjárhagsráð. Annars vildi ég benda hv. flm. á, að staðsetning verksmiðjunnar er ekki einfaldur hlutur. Segjum, að n. ákveði verksmiðjunni stað í Þorlákshöfn, eins og flm. þessarar till. hafa í huga. Þá er ekki nóg, að n. ákveði, að verksmiðjan skuli þarna sett. Það er langt frá því. Það þarf vitanlega að gera fleiri hluti. Það þarf að byggja höfn, hvort sem verksmiðjan verður stór eða lítil, þar sem gert er ráð fyrir því, að hún stækki seinna. Það þarf því að athuga hafnarskilyrðin. Þá þarf mikið vinnuafl í sambandi við framkvæmdirnar, og þess vegna þarf að gera ráðstafanir til þess að koma upp bústöðum fyrir verkafólk og starfsmenn. Það verður að gera ráð fyrir því, að þarna rísi upp aðrar verksmiðjur en áburðarverksmiðjan, sem vinna úr aukaefnum, er til falla. Það þarf því m. ö. o. að gera ráðstafanir til þess að skapa þarna bæ. Það er það eina rökrétta. Það þarf samræmdar aðgerðir. Eins og ég gat um áður, var það ætlunin, er fjárhagsráð var skipað, að það hefði þessi mál með höndum, enda er það eðlilegt, að valdið yfir þessum málum öllum sé á einum og sama stað, til þess að tryggja samræmdar aðgerðir. Hv. flm. hefðu því átt að ræða málið við fjárhagsráð, ef það væri ekki svo, að það hefur aldrei um þessi mál hugsað, þótt það ætti að gera það. Þetta vildi ég hafa sagt almennt um stefnuna í þessari till., sem er viðleitni í þá átt að ráða bót á getuleysi, sinnuleysi og fyrirhyggjuleysi þeirra, sem átt hefðu að hugsa um þessa hluti.

Hvað snertir innihald till., sem er aðalatriðið fyrir flm., er það að segja, að mikið hefur verið rætt um það, að Þorlákshöfn eða Akranes komi alveg sérstaklega til greina í þessu sambandi. En það eru fleiri staðir á Suðurlandsundirlendinu, sem ekki er vert að gleyma, t. d. Reykjavík. Ég held, að ekki verði hjá því komizt að taka þá einnig til athugunar. Höfnin í Reykjavík er einhver sú bezta á landinu og vinnukraftur og tæki til framkvæmda ekki betri annars staðar. Eins og hæstv. atvmrh. minntist á, er því einnig þannig varið, að ekki veitir af því, að lagt sé í allmiklar framkvæmdir í Reykjavík, ef þar á ekki að verða atvinnuleysi á næstunni. Þegar svo er ástatt, er ekki hægt að samþ. athugun á þessum málum, nema skilyrðin í Reykjavík séu einnig athuguð sérstaklega. — Þetta vildi ég segja við þessa umr. Ég geri ráð fyrir því, að till. verði athuguð betur í allshn. En ekki þætti mér það góð afgreiðsla, ef það ætti að hafa áhrif á afgreiðslu málsins, að kosningar standa fyrir dyrum. Ég held, að það sé gagnlegt að ræða þetta mál, en ég er vantrúaður á það, að skynsamleg niðurstaða fáist með því að samþ. till.