16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í D-deild Alþingistíðinda. (4897)

131. mál, áburðarverksmiðja

Jónas Jónsson:

Ég álít, að það sé gott, að þetta mál sé rætt, og það var rétt af hv. þm. Ak. að minnast á Norðurland í þessu sambandi og Laxárvirkjunina. Þar eru skilyrði, sem gera það að verkum, að verksmiðjan gæti verið þar, en ég álit, að umr. ættu að hníga að því, að verksmiðjan verði reist þar, er bezt er til langframa. Ég vil í þessu sambandi minna á þann ágreining, sem verið hefur um staðsetningu skóla, t. d. Eiðaskóla, Möðruvallaskóla og Hvanneyrarskóla, þar sem álitið var, að þeir mundu hafa meiri þýðingu fyrir nágrennið en landið í heild. Raunin hefur orðið sú á Hvanneyri, að þar eru fleiri úr fjarsveitum en úr næstu sýslum. — Hv. þm. Borgf. minntist á Þorlákshöfn. Ég álít, að ekki þurfi að líta á framtíð Þorlákshafnar með bölsýnisaugum. Héraðið í nánd er það stærsta á landinu, og ekkert hérað þarf eins mikið af áburði. Í öðru lagi er því þannig varið með höfnina, að ekki ætti að vera langt þar til að strandferðaskipin geta lagzt þar, eftir framkvæmdirnar í fyrra og hittiðfyrra og þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru þar í sumar. Hvar sem verksmiðjan verður reist, verður áburðurinn aðallega fluttur með skipum. Varðandi Reykjavík vildi ég benda á þá hættu, sem því er samfara að draga alla slíka iðju saman í Reykjavík. Þó að Reykjavík sé ekki stór, ef hún er borin saman við borgir erlendis, er hún stór á okkar mælikvarða. Nú er hvarvetna í heiminum reynt að dreifa iðnaðinum, og menn eru farnir að harma það, hve mjög hann hefur verið staðsettur í borgum, bæði vegna hernaðarhættunnar og vegna þeirrar hættu, sem af því stafar fyrir allt mannlegt líf. Næst Keflavík er Reykjavík hættulegasti staðurinn á landinu. Í Reykjavík — og kannske á Akureyri — er hernaðarhættan mest. Reykjavík hefur stækkað svo, að hún er orðin eins og höfuð, sem líkaminn getur ekki haldið uppi. Verði Þorlákshöfn fyrir valinu, geta flestir bændur í nábýlinu flutt áburðinn á vögnum heim til sín, og höfnin liggur vel við til útflutnings, samtímis sem mesta vatnsmagn á Suðurlandsundirlendinu er í nánd. Þessar athugasemdir vildi ég láta fylgja málinu til n.