16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í D-deild Alþingistíðinda. (4898)

131. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki metast á um, hvar verksmiðjunni skuli valinn staður, því að till. er flutt í þeim tilgangi, að það verði athugað, og við viljum sætta okkur við úrskurð n. um það. Mér kom það því einkennilega fyrir sjónir, er hv. þm. Borgf. talaði í villandi tón um þetta. Það er ólíkt honum, og ég bjóst ekki við því, að hann mundi færa fram blekkingar til varnar Akranesi, en hann gerði það svo augljóslega, að jafnvel þeir, sem aldrei hafa til Akraness eða Þorlákshafnar komið, hlutu að sjá, að hann fór með blekkingar. Hv. þm. sagði, að Þorlákshöfn væri ekki heppilegur staður fyrir verksmiðjuna, því að þar væru ekki hafnarskilyrði. Það er þó alkunnugt, að á undanfarandi árum hefur verið veitt fé í fjárl. til hafnarinnar og mikið verk verið unnið fyrir það. Um það leyti sem verksmiðjan verður til, verða líka hafnarskilyrði til staðar í Þorlákshöfn. Röksemdir hans um landflutninga falla því fyrir borð, og skil ég ekki, að jafnmætur þm. skuli halda slíku fram. Hann hefði getað haldið fram kostum Akraness, þó að hann hefði sleppt þessu. Hv. þm. minntist á raforkuna og sagði, að umframorka væri til staðar, sem ekki væri notuð. En þó að Andakílsfossar væru virkjaðir að fullu, yrði það ekki nóg fyrir verksmiðjuna og Borgarfjarðarhérað, því að þeir hafa allir ekki nema 12 þús. hestöfl. Ég hygg líka, að héraðið sé svo blómlegt, að það mundi þurfa á allri þeirri orku að halda. Ég tel ástæðulaust að orðlengja þetta frekar við hv. þm. Borgf. Við erum áreiðanlega báðir sammála um það, að ekki eigi að metast um, hvar verksmiðjunni verði valinn staður, heldur beri að reisa hana þar, sem það verður praktiskast fyrir nútíð og framtíð. — Hæstv. atvmrh. taldi jafnvel gott, að n. væri skipuð, og er það gleðilegt, að hæstv. ráðh. hefur skilning á nauðsyn þess, að ráð margra góðra manna komi hér saman. — Hv. 2. þm. Reykv. er að vísu ekki hér, en ég vil þó taka það fram, að mér þykir það kynleg staðhæfing hjá honum, að þetta sé verkefni fjárhagsráðs. Þess hlutverk er að veita innflutningsleyfi til verksmiðjunnar, en ekki að ákveða, hvar hún skuli vera. Hv. þm. sagði líka, að verksmiðjan þyrfti mikið rafmagn, en varðandi það eru skilyrðin hvergi betri, en í Þorlákshöfn, enda mælti hv. þm. ekki gegn því. Hann sagði líka, að byggja þyrfti bústaði. Ég hélt nú, að þessi hv. þm. léti sér ekki bregða við það, þó að byggja þyrfti verkamannabústaði. Annars gæti ég trúað því, að menn byðust til að byggja yfir sig sjálfir, ef um trygga atvinnu er að ræða. Þess er einnig vert að minnast, að verksmiðjan þarf ótrúlega fáa verkamenn. Það ætti ekki að þurfa að vera til fyrirstöðu, þó að byggja þyrfti bústaði fyrir þá, enda þurfa þeir húsaskjól, hvar sem verksmiðjan verður reist. Ég læt svo þessu lokið, en vil að endingu lýsa ánægju minni yfir góðum undirtektum.