16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (4921)

147. mál, skattfrelsi sparifjár

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Okkur er öllum kunnugt um það, að Íslendinga vantar nú mjög veltufé, og eins vita allir, að við höfum orð á okkur fyrir að vera allt annað en sparsamir og erfiðlega gengur að fá fólkið til að spara. Ég skal benda á sem dæmi um það, hvað við erum illa settir með veltufé, að þegar Reykjavíkurbær og Kveldúlfur lögðu í að gera verksmiðju í Örfirisey í sumar, þá áttu þessir aðilar ekki til þess nándar nærri nóg sparifé og þurfti erlent fjármagn að koma til. Þetta kann að þykja langsótt og þúsund önnur dæmi nær okkur, en ég tel það nokkuð sláandi, þegar efnaðasti bærinn og sennilega efnaðasta fyrirtæki landsins geta ekki komið upp fyrirtæki án erlends fjár. Ég býst ekki við, að þessi till verði samþ. á þessu þingi, en ég ber hana fram til þess að vekja athygli á því, að ef við viljum safna sparifé, þá þarf að grípa til nýrra ráðstafana, og skal ég benda á það, að Danir hafa ákveðið að vernda spariféð fyrir sköttum, því að þeir halda, að það verði að tryggja spariféð á einhvern hátt, ef fólkið á að fást til að spara. Ef litið er á, hvað tilfinnanleg vöntun er hér á veltufé, þá vænti ég, að þetta þyki athyglisverð uppástunga, og vænti þess, að till. verði látin ganga til hv. allshn.