27.04.1949
Sameinað þing: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í D-deild Alþingistíðinda. (4946)

182. mál, afnám ríkisfyrirtækja o.fl.

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem við flytjum hér hv. 3. þm. Reykv. (HB) og ég, er náskylt máli, sem var verið að greiða atkv. um hér áðan og var til umr. s. l. dag, en málið er varðandi ríkisfyrirtæki og ríkisafskipti af þeim málum, sem annars eru venjulega í höndum einstakra borgara þjóðfélagsins. Þetta mál er í raun og veru náskylt fjárhagsmálum þjóðarinnar og þar af leiðandi afgreiðslu fjárl. þeirra, sem nú eru enn í meðferð þingsins og ég hef gert nokkurn ágreining um og þá um leið haft tækifæri til að láta í ljós skoðun mína um, einmitt á sumum þeim sviðum, sem þessi till. hér á þskj. 525 fjallar um. Starf fjvn. hefur verið nú, eins og hér um bil alltaf, barátta við óhagstæðan rekstur hjá ríkinu á ýmsum sviðum, og kemur þar ekki síður til greina ýmiss konar rekstur, sem beinlínis er sérgreindur undir einstakar ríkisstofnanir, heldur en rekstur ríkisins sjálfs, hið óumflýjanlega. Við höfum rekið okkur á það, að margt af því, sem ríkið hefur með höndum og ekki kemur beint við venjulegum rekstri ríkissjóðs, veldur ríkinu mjög miklum útgjöldum, og sérstaklega bindur það mjög fé ríkisins og eykur áhættu ríkisins í rekstrinum. Ég þarf ekki að nefna margt af þessu. Það er vitanlegt, að fyrir þessu þingi, eins og flestum þingum undanfarið, hafa legið kröfur um það, að ríkið beinlínis veiti fé til þess að jafna rekstrarhalla á ýmsum sviðum hjá ýmsum fyrirtækjum, að ríkið leggi fram fé til hækkunar á stofnkostnaði og að ríkið leggi fram fé til þess að borga skuldir eða vegna ábyrgða. Allt þetta gengur yfir á hverju þingi og veldur auðvitað áhyggjum og vandræðum, og þess vegna held ég, að ekki sé hægt að hafa á móti því, að þetta sé leitt í umr. hér, hvort ríkið eigi ekki að losa sig við eitthvað af þessum tilkostnaði og þessari áhættu. Sumt af þessari starfrækslu ríkisins er í geysistórum stíl, og má þá fyrst og fremst minna á Síldarverksmiðjur ríkisins, sem við flm. till. erum að fara fram á breytingar á. Þessi starfræksla er nú einmitt að biðja þetta yfirstandandi þing um að greiða a. m. k. 1 millj., sem er rekstrarhalli, eða þá að ganga í ábyrgðir fyrir skuldum, fyrir utan svo það, að ríkið er náttúrlega ábyrgt fyrir stofnfé þessara verksmiðja. Við vitum líka, að á þessu þingi hefur því verið mjög ákveðið hreyft, sérstaklega af hæstv. samgmrh., að leggja þyrfti fram stofnfé til að jafna kostnaðarsama og víðtæka starfrækslu eins og eru áætlunarferðir bifreiða, sem ríkið rekur. Það er vitanlega ekki hægt að reka slíka starfrækslu, nema til komi stofnfé í einhverri mynd. Allir þekkja, hvernig þetta er með Skipaútgerð ríkisins. Það líður aldrei það þing, að ekki þurfi að leggja fram stórfé í rekstrarhalla hennar, sem er að mörgu leyti eðlilegt, og líka stórkostlegar fjárhæðir sem stofnfé. Það er vitanlegt, að sumt af þessu er óumflýjanlegt og þetta, sem ég hef nú nefnt, fyrir utan Skipaútgerð ríkisins og þær till., sem við flm. þessarar till. erum með, sýnir, hvað útþenslan hjá ríkinu er orðin geysilega áhættusöm og kostnaðarsöm. Ég held, að það sé ekkert ofmælt, þótt sagt sé, að fjárl. séu ekki nema dálítill skuggi af því, sem ríkið á í hættu og leggur sína ábyrgð við, svo að segja árlega. Til þess benda alveg sérstaklega þær gífurlegu ábyrgðir, sem hv. þm. geta séð, ef þeir vilja fletta síðasta ríkisreikningi, og hefur þetta aukizt mjög síðan. Það er auðvelt að fá upplýsingar um það, að ríkið er í ábyrgðum fyrir ákaflega vafasömum fyrirtækjum, sem nema hundruðum milljóna, og alltaf er krafizt meiri ábyrgða og af meiri ágengni, eftir því sem reksturinn er vafasamari. Þegar stofnun er mjög vafasöm fjárhagslega, gengur erfiðlegar að fá stofnfé lánað og er þá auðvitað enn ríkari þörf fyrir ríkisábyrgð. Við þurfum ekki að skýra það fyrir hv. þm., hvaða afleiðingar eru af því, að ríkið taki, ýmist beint eða óbeint, þátt í rekstri mjög vafasamra hluta. Afleiðingin getur ekki orðið önnur en stór skakkaföll og útgjöld, sem leiðir aftur af sér nýjar álögur á landsfólkið. Það er kunnara en að það þurfi að rifja það upp, að fjárl., sem nú liggja fyrir, eru með miklum greiðsluhalla, og það er mál þeirra manna, sem mesta ábyrgðartilfinningu hafa fyrir fjárhagsafkomu ríkisins, að útgjöld fjárl. séu orðin það há, að til þess þurfi miklu meiri hluta af iðjuarði þjóðarinnar árlega, en nokkurt vit sé í að heimta. Ef þetta er rétt, sem ég álít hárrétt, þá er bersýnilegt, að ekkert vit er í að auka við þessar greiðslur. Fjárl. sitja nú með greiðsluhalla, sem er milli 30 og 40 millj. kr. Samkomulag virðist ekkert um að draga úr útgjöldunum. Afleiðingin hlýtur þar af leiðandi að verða skuldasöfnun og miklar nýjar álögur. Og sannleikurinn er sá, að þótt að því ráði verði horfið að leggja á nýjar álögur — það er búið að leggja á nýjar álögur á þessu þingi, sem eru ekki undir 20 millj. kr. — og bæta við 30 til 40 millj. kr. álögum, þá er ég alveg sannfærður um það, að slík afgreiðsla leiddi ekki til annars en skuldasöfnunar. Þessar álögur mundu alls ekki greiðast. Það er orðið alveg vitað mál, að gömlu tekjustofnarnir eru þegar farnir að bila, af því að fólkið rís ekki undir þeim, og þó er ekki hægt að segja, að neitt lélegt atvinnuárferði hafi enn þá komið yfir landið. Af þessu geta menn séð mjög glögglega, að komi nú lélegt atvinnuárferði, þó að ekki verði hraklegt, hljóta gömlu tekjustofnarnir að bila stórkostlega, og hvað mundi þá verða um nýjar og miklu vafasamari álögur, sem tiltölulega lítill grundvöllur er undir? Það yrði því sama útkoman, þó að á pappírinn kæmu tekjuáætlanir af nýjum álögum. Þær mundu ekki greiðast, ef eitthvað brygði út af með atvinnuárferði ríkisins, og það hlyti óhjákvæmilega að leiða til skuldasöfnunar.

Hv. þm. er kunnugt um það, að þeir hafa afgreitt a. m. k. tvö undanfarin ár mjög ógætileg fjárlög og þau hafa leitt af sér greiðsluhalla, sem þessi tvö ár nemur 90 millj. kr. Það var vitanlega til frá næsta ári á undan nokkur tekjuafgangur, svo að þetta munaði ekki nema 70 millj. kr. En þessar 70 millj. kr. hafa orðið skuldasöfnun hjá ríkinu. Það er svo komið, að nú veit maður, að búið er að tæma skuldabréfamarkaðinn innanlands, svo að það þýðir ekki að fara inn á hann að nokkru ráði, og þá er ekki vitanlega um neina aðila að ræða, sem ríkið geti knúið út lán hjá, nema Landsbankann, og það eru orðnar gífurlegar skuldir hjá ríkinu við Landsbankann. Af þessu leiðir það, að Landsbankinn mun a. m. k. hafa tregðazt mjög við, ef ekki neitað að lána ríkinu rekstrarfé, og það virðist í sjálfu sér ákaflega óeðlilegt, að Landsbankinn skuli ekki vilja láta ríkisstj. hafa rekstrarfé meðan ríkistekjur eru ekki innheimtar, en hann hefur brennt sig á þessu soði í tvö ár um nokkuð marga tugi milljóna. Er þá undarlegt, að hann segi, að hann vilji sjá fyrst greiðsluhallalaus fjárl., áður en hann fer að bæta við þessa súpu? Þetta ástand hefur ekki eingöngu skapazt fyrir hina beinu eyðslu í fjárl., það hefur einnig skapazt fyrir það, hvað ríkið hefur verið óðfúst að taka að sér ýmiss konar starfrækslu og það á mjög áhættusömu og vafasömu sviði, þrátt fyrir það að reynslan er sú, að yfirleitt verður útkoman lakari hjá ríkinu en hjá einstaklingum, ef hvorir tveggja fást við það sama.

Það er ekki álitlegt fyrir okkur flm. þessarar till. að koma með hana fyrir þessa háu samkomu hér, því að þrátt fyrir það, að flestir hv. þm. munu viðurkenna, að erfitt muni reynast að koma saman tekjuhallalausum fjárl. og óálitlegt að fara að leggja nýja tolla og skatta á þjóðina, verða ekki séð nein sinnaskipti hjá þm. í því að fara gætilega með afgreiðslu fjárl. Ég gat um það hér, þegar ég gaf skýringu á ágreiningi mínum við fjvn., að ég hefði tekið hér saman bein útgjöld og ábyrgðir, sem farið væri fram á af þm., að ríkissjóður gengi í utan fjárl., og það var nokkuð á þriðja hundrað millj. kr., sem átti að koma á gömlu Skjónu fyrir utan fjárl. Ég held, að þetta vitni um miklu meira andvaraleysi, en líklegt er um jafn viti borna menn og skipa þessa háu samkomu. En till. okkar flm. er a. m. k. tilraun til þess að vita, hvort þm. muni ekki átta sig á því, að það er komið of langt á þessari braut og farið er glannalega með fé ríkissjóðs og hvort ekki á að snúa til lands, áður en komið er gersamlega á óstætt.

Þessi till. okkar, sem er í 15 liðum, hefur ekki verið rædd mjög mikið utan þings, en þó hafa blöð getið um hana nokkuð. Tvö þeirra blaða, er nú styðja hæstv. ríkisstj., hafa minnzt á till., og bæði hafa þau talað mjög gægsnislega um málið, og sker það sig ekki úr öðru því, er þessi virðulegu blöð segja um landsmál. Það er venjan þar að taka málin ekki á málefnalegum grundvelli, heldur áróðurslegum, og fer það þó misjafnlega úr hendi. Mér dettur ekki í hug að halda, að fulltrúar þessara flokka í hæstv. stj. standi fyrir þessum skrifum. Það er oft gelt að fólki. Það er gelt að gestum, er að garði ber, og engum dettur í hug, að húsbændurnir séu að siga á gestina. Mér dettur ekki í hug að leggja þetta út á neitt óvinsamlegan veg.

Nú er það svo, að mér og hv. 3. þm. Reykv. dettur ekki í hug, að menn líti sömu augum á þessar till., og líklegt er, að ýmsir þm. séu samþykkir svo og svo mörgum till., en kannske mótfallnir ýmsum öðrum. Það er svo með mig og hv. meðflm. minn, að við munum ekki leggja jafnmikla áherzlu hvor um sig á allar till. Ég get sagt það líka hiklaust, að mér þykir líklegt, að ef ég hefði flutt þessar till. einn, þá hefði ég haft þær fleiri. Ég veit t. d., og kem ég að því síðar, að þótt hv. meðflm. minn sé flm. með mér að öllum liðum till., þá leggur hann litla áherzlu á 13. till., sem er um vinnumiðlun. Mér þykir rétt að geta um það hér, þó að hann hafi ekki skorizt úr leik, að sú till. væri hér með, og að sjálfsögðu verður það svo, að menn koma til með að leggja mismunandi áherzlu á till., en allar stefna þær í sömu átt, að draga úr kostnaði og áhættu ríkisins.

Ég vil líka geta þess, að ég hef heyrt raddir um það, að hér sé tekið allt of fátt af því, sem ríkið hefur með höndum. Ég veit, að þetta er alveg rétt. En þessi till. er bæði flutt til þess að draga úr áhættu og kostnaði ríkissjóðs og líka flutt í þeim tilgangi að fara inn á aðra braut, en gengin hefur verið. En ef þessar till. fá góðan byr hjá þinginu, þá er ákaflega auðvelt að sjá, að það stafar af því, að þingið álítur útþensluna of mikla hjá ríkissjóði og áhættu hans of mikla, og þá er ekkert ósennilega ályktað, að haldið muni verða áfram á þeirri braut, sem mörkuð er með þessari till., þ. e. að draga úr rekstri og áhættu ríkisins og láta þetta falla meira á eðlilegan hátt til framtaks einstaklingsins.

Ég get getið um það í þessu sambandi, að það hefur verið talsvert mikið á það minnzt við mig, hvers vegna ekki sé lagt hér til að leggja niður Áfengisverzlun ríkisins og Tóbakseinkasölu ríkisins. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ákaflega erfitt að gera það. Eins og allir vita, má ekki minnast svo á brennivín, að mestu reglu- og bindindismenn verði ekki ölvaðir og tali af sér. Það er málefni, sem tekur meira og minna dómgreindina frá fólki. Þess vegna vil ég helzt komast hjá að blanda því inn í mál, sem maður vill, að tekið sé alvarlega. Þó að þessi fyrirtæki gefi góðar tekjur, þá koma þær ekki af himnum ofan, þær eru partur af því, sem fólk greiðir. Þetta eru nokkurs konar frjáls samskot, menn gera þetta af frjálsum vilja, en flestar aðrar álögur eru teknar svo að segja með valdi. Og þó að fyrirtæki eins og þessi gefi stórkostlegan gróða í ríkissjóð, þá er þar bundinn fjöldi fólks, upp undir hundrað manns, en ef þetta færi eins og aðrar vörur gegnum hendurnar á venjulegum verzlunum, þá er ég viss um, að ekki þyrfti meira en tíunda part af þessum vinnukrafti. Það er vert að athuga það, að þegar ríkið er að draga í sína dilka eitt og annað, þá er vinnukrafturinn, sem ríkið eyðir í sínum dilk, fram yfir það, sem væri, ef einstaklingar væru látnir sjá um það á eðlilegan hátt, og það er geysilega mikill tilkostnaður að binda 100 manns við óþarfa hluti. Þó að þetta sjáist ekki í peningum, þá dregur það stórkostlega úr starfrækslu nauðsynlegra hluta, úr framleiðslu þjóðarinnar.

Ég skal ekki tala frekar um þessa hluti almennt. Það hefur líka verið nýlega, eins og ég áður gat um, verið mikið rætt um útþenslu ríkisins í sambandi við till., sem er fyrsta mál á dagskrá í dag, og margt af því, sem þar hefur verið sagt með og á móti, gæti að sjálfsögðu átt við þá stefnu, sem mörkuð er með flutningi þessarar till. Nú skal ég minnast á hverja till. út af fyrir sig og eyða ekki allt of löngum tíma til þess og skal reyna að fara fljótt yfir sögu.

Fyrsta till. var mjög þrautrædd í sambandi við fyrsta mál, sem hér er á dagskrá í dag, þ. e. um þær áætlunarbifreiðar, sem ríkið rekur nú. Þessi rekstur hefur farið þannig, að hann hefur skapað ríkissjóði stórkostleg útgjöld. Áður var hann í höndum einstaklinga. Ég man, að ríkið var búið að afla sér réttar til að setja þær reglur, sem því sýndist um starfræksluna, en tók hana í sinar hendur. Á s. l. ári fékk það yfir hálfa millj. kr. í tekjuhalla af þessum rekstri. Áður var almennt litið svo á, að hann væri gróðavænlegur, ef einstaklingar höfðu hann með höndum, og var keppt eftir því að fá þessar ferðir. Áhætta sú, sem ríkið hefur af þessum rekstri, er því alveg óþörf. Auk þess er ríkið búið að setja stórfé, milljónir, sem stofnfé í þetta. Mér sýnist því ekkert á móti því, að ríkið losaði sig við þessi óþörfu útgjöld og léti einstaklinga annast þennan rekstur, þar sem það getur alveg ráðið yfir, hvernig þessi starfræksla er, og losaði einnig það fé, sem það er búið að binda þarna sem stofnfé, því að það virðist ekki úr vegi, að ríkið, sem er að reyna að sarga við að reyna fyrir sér um ný lán, reyndi að taka þetta fé hjá sjálfu sér með því að losa sig úr skuldum. Það liggur ekki ljóst fyrir eftir þeim pappírum, sem ég hef séð, hvað þetta fyrirtæki muni vera í miklum skuldum, en það skiptir milljónum, og ef fyrirtækið selur þessar eignir sínar, sem eru aðallega bifreiðar, má gera ráð fyrir, að það mundi geta að mestu leyti jafnað þessa skuld (GJ: Það er fimm milljón króna skuld.) Ég vil ekki fullyrða, að skuldirnar yrðu alveg greiddar upp, en ríkið veit þó, hvar það stendur með þessa starfrækslu, ef það selur eignirnar og borgar skuldirnar að því leyti, sem andvirðið hrekkur til.

Annað fyrirtæki, sem við flm. viljum leggja niður, er Landssmiðjan, en Landssmiðjan gefur, eftir því sem séð verður í reikningum hennar, 116 þús. kr. arð s. l. ár. Annars hefur hún staðið lengst þannig, að hún hefur ekki getað borgað einu sinni opinber gjöld. Ég vil í þessu sambandi og einnig í sambandi við 1. lið minna á, að hinn opinberi rekstur tekur oft að sér hluti, sem er ekki hægt að fá neinn annan til að gera, og stundum til að forða undan okri. Nú er það svo um þessi tvö fyrirtæki, og þannig er það einnig um ýmis fleiri fyrirtæki, sem ég mun koma að síðar, að það er síður en svo, að þau selji ódýrar, en einstaklingar gera. Um áætlunarferðirnar er það að segja, að um leið og ríkið tók við þessu, þá hækkuðu fargjöldin. Ég vil alls ekki halda fram, að það hafi verið ósanngjarnt, en það fékk rekstrarhalla samt. Landssmiðjan selur sin verk alveg á toppi, jafnt eins og aðrir, sem hafa sams konar rekstur hér á landi. Þó eru landssmiðjunni fengin mikil hlunnindi, þar sem stærstu fyrirtækin eru skylduð til að skipta við hana, eins og Skipaútgerð ríkisins og Eimskipafélag Íslands. Samt hefur reksturinn gengið svona hörmulega til þessa dags.

Þá leggjum við til, að lögð verði niður Trésmiðja ríkisins, sem er nýtt fyrirtæki. Það þykir kannske nokkuð fljótráðið að heimta þetta fyrirtæki lagt niður hér um bil strax, en ill er þess fyrsta ganga, ekki er hægt að neita því. Það er sagt hér, að þetta fyrirtæki hafi kostað kringum milljón króna, en hér er það fært með skuld upp á 1,6 millj. kr. Rekstrartap er ekki reiknað nema 14 þús. kr., en ef maður gætir nánar að, þá er tapið miklu meira. Vil ég nefna það sem dæmi, að fyrning af vélum er 2%. Þó hefur ríkið heimilað að reikna allt að 20% í fyrningu, og talið er, að hún þurfi að vera a. m. k. 10–12%, og er það sjálfsagt ekki of mikið eftir reynslu manna, en svona hefur orðið að fara að til þess að koma tapinu niður í 14 þús. kr., þ. e. með því að hafa fyrninguna á vélum 2%.

Ég skal svo ekki fara út í þetta nánar, því að það hefur verið rætt mikið í sambandi við fjárl., og margt af því er nákvæmlega það sama og það hefði verið sagt í sambandi við umr. um þessa till.

Þá er 4. liðurinn Það er skömmtunin. Hún er áætluð að kosta 1.040 þús. kr. Tekjur eru auðvitað engar nema það, sem lagt er á. Það er því auðvitað fólkið, sem verður að borga þessa fjárhæð. Það væri of langt mál að fara að ræða þetta nákvæmlega, en það er ekki aðeins svo, að þetta sé alveg gagnslaust, heldur til stórtjóns. Það er ekki hægt að neita því, að skömmtunin er orðin veruleg landplága. Aðrar þjóðir, jafnvel þær, sem hafa búið við skort stríðsáranna, eru sem óðast að koma af sér skömmtuninni, vilja fyrir hvern mun losna við hana sem fyrst, en hér er þetta talið eitthvert mesta fagnaðarerindi. Það eru þessi eilífu afskipti af öllu, smáu og stóru, láta engan í friði, vera með nefið niðri í öllum einkahlutum. Hér má enginn fá matvöru, sem enginn skortur er á, nema ríkið sé að skammta honum. Það er einkennilegt, að í hvert einasta sinn, þegar nýtt skömmtunartímabil hefst, kemur hver einasti maður með heilan bunka af kornskömmtunarseðlum, sem er hent út í öskutunnu, og á sama tíma er mönnum úti í sveitunum bannað að kaupa sér heilan sekk af kornvöru. Menn voru vanir áður fyrr að flytja að sér mikið af kornvöru í einu, kannske á 10–12 hestum, birgja sig upp til hálfs árs í senn, en nú verða menn að fara með skjóðu eða bréfpoka ofan úr afdölum til að kaupa mjöllúku, meira fæst ekki í einu vegna skömmtunarinnar. Og hér í bæ hefur það verið svo, að tímunum saman hefur ekki fengizt rúgbrauð. Hveitibrauð hafa menn fengið með eftirgangsmunum, en ekki rúgbrauð. En kökurusl hefur fengizt óskammtað. Í það má fara eins mikið af hveiti og hver vill. Og þetta skaltu éta og annað ekki, karl minn, rúgbrauð færðu ekki! Og svo er verið að skera niður sykur, og húsmæður geta ekki bakað heima vegna þess, en hver búðargluggi er fullur af konfekti og brjóstsykri, óæti. Í það má sykurinn fara, og ekkert eftirlit með, hvernig þetta er búið til, ekkert eftirlit í mjólkurbúðum, ekkert eftirlit í kjötbúðum, ekkert í fiskbúðum, og þetta eru vörur, sem eru viðkvæmastar gegn hvers kyns óhollustu. — Ég fór þennan útúrdúr, af því að mér er ekki kunnugt um, að nágrannaþjóðir okkar séu neyddar til að skammta sykur, en þar er sykrinum ekki heldur eytt í konfekt og brjóstsykur. Til þess fæst sykur hér, og ef maður setur upp kaffiholu, þá fær maður hér sykur, hvort sem nokkur kaffibolli er seldur eða ekki.Þessar þjóðir mundu áreiðanlega telja það menningarskort, ef tekinn væri sykurmolinn, sem menn ætluðu að hafa með kaffinu sína eða teinu, og sagt: Búið til úr því konfekt og brjóstsykur, og seljið það síðan með þúsund prósent álagningu. — Þar þætti það ekki menning, en hér þykir það stórt menningarmál.

Þá er fimmti liður þessarar till. Ég geri ráð fyrir, að ýmsir þm. muni segja, að það sé undarlegt að vilja láta það opinbera losa sig við verzlun, sem gefi gróða. Ég hef aldrei orðið var við, að ríkissjóður fengi eyrisgróða af viðtækjaverzluninni. Ég veit, að hún er með gróða, en ríkið hefur ekkert af þeim gróða fengið. En ríkið getur eins áskilið sér tekjur af þessum hlutum, þó að það hætti að hafa sjálft þessa verzlun með höndum. Og ég er sannfærður um, að það fólk, sem við þessa verzlun er bundið, mundi allt hverfa að öðrum störfum, ef Viðtækjaverzlun ríkisins væri lögð niður, og það þyrfti enga sérstaka verzlun með þessa hluti. Það mundi geta horfið inn í verzlun einstaklinga og félaga, eins og önnur viðskipti, án þess að bæta þyrfti við mannafla eða húsnæði, og þjóðfélagið mundi græða á því óbeinlínis mikið fé, ef ríkisverzlun þessi væri lögð niður, en ríkissjóður, sem hefur engan eyri fengið frá þessari verzlun, gæti með einhverjum álögum á þessa vöru fengið sitt fé, án þess að vörurnar yrðu nokkuð dýrari. Vinnulaun mundu sparast, ef því væri jafnað niður á margar verzlanir, sem ríkið hefur tekið undir sig. Ríkið hefur þarna bundinn vinnukraft og húsnæði, sem hvort tveggja mundi losna, ef þetta fyrirtæki væri lagt niður.

Það er alveg sama hér með verzlun með tilbúinn áburð. Þessi einkasala er látin bera sig á þann hátt, að það er ætlaður til hennar nú a. m. k. 280 þús. kr. kostnaður, og þá verður að leggja sömu fjárhæð á vöruna, ef sú verzlun á að bera sig. Ég skil ekki í öðru, af því að það eru eingöngu bændur, sem nota þessa vöru, en að það mætti hafa sölu þessarar vöru hjá félagsverzlunum bænda, og ég held, að þeir gætu annazt þessa verzlun og þyrftu ekki til þess dýrt vinnuafl og úthald. Það virðist bersýnilegt, að verzlun með tilbúinn áburð á ekki að vera til.

Þá skal ég taka 9. lið till. minnar, grænmetisverzlun ríkisins. Talið er, að hún eigi að kosta 380 þús. kr. á næsta ári. Það er áætlun um það. Þessum kostnaði er ætlazt til, að náð verði upp með álagningu á vöruna, og ég ætla ekki að efast um, að það verði gert, því að álagningin á þá vöru, sem er ein mesta nauðsynja- og hollustuvara, sem við neytum, er alveg ægileg, og er ekki vansalaust, að slíkt skuli þrífast fyrir beina tilskipun ríkisstj. Það er stórkostlega ámælisvert. Ég verzla alltaf við þessa verzlun, því að það er mjög gott að verzla við hana að því leyti, að maður getur fengið þarna góða vöru og þarna er ágætisfólk við að eiga. En ég fæ aldrei eiginlega neitt þar nema kartöflur, og þær kosta þarna í heildsölu — því að ég er ekki að sækja þetta í bréfpokum, sem borða kartöflusekk á viku — 1 kr. og 30 aura kg. Ég veit, að þessar kartöflur er hægt að fá á 30 aura kg, og mér hafa verið boðnir tíu til tuttugu sekkir á því verði. Ég hef sagt: Nei, í guðanna bænum, þá verð ég sektaður eða þeim fleygt í sjóinn. Nei, ríkisvaldið er að pína okkur til þess að neyta hér vöru með margföldu verði og hefur sett upp dýra stofnun til þess að geta kvalið fólk á þessu. Tilgangurinn er góður og útkoman því betri. Ég segi þetta ekki til ámælis þeim mönnum, sem falið er að sjá um þetta verk. En þeir, sem sífellt eru að signa sig og segja, að allt eigi að vera gert fyrir fólkið, þeir ættu að reyna að forsvara það að selja hér kartöflur fyrir kr. 1,30 kg, þegar þær kosta ekki nema 20 aura kg, og varla er hægt að fá þar nokkuð annað af grænmeti. En grænmeti er þó einhver beztu matvæli.

Ég skal játa, að um 7. lið, tunnuverksmiðju ríkisins, brestur mig mjög upplýsingar. En ég veit bara, að þarna er bundið mikið fé. Og í aths. ríkisstj. við fjárlagafrv. segir, að mig minnir, að stjórn fyrirtækisins hafi ekki treyst sér til þess að gera áætlun um rekstur þessa fyrirtækis, og það er kannske ekki undarlegt. Ég vil nú ekki taka undir neinar slúðursögur. en það gengur þó manna á milli um þessa forretningu, að hún geti ekki framleitt með því verði, að nokkur vilji kaupa það, sem hún framleiðir. Og ef svo er, að hún geti ekki framleitt vöru, sem neinn vill kaupa, þá er eðlilegt, að henni gangi illa að gera áætlun. Það er nú samt sett upp áætlun á fjárl. um þetta fyrirtæki, og auðvitað er sú áætlun algerlega út í loftið, þegar sjálf forretningin segist ekki geta gert áætlun. En hér er gerð áætlun, og þetta er forretning upp á 5 millj. og 700 þús. kr. Þar er ætlazt til þess, að komi sömu tekjur á móti. Ég held, að þessi forretning sé a. m. k. það áhættusöm, að réttara væri fyrir ríkið að losa sig við hana. Það að reka þetta fyrirtæki, sem áætlað er, að muni gera umsetningu upp á 5.700.000 kr., er alveg óþörf viðbót við þá áhættu, sem ríkið hefur og getur ekki komizt undan.

Svipað má segja um Fiskiðjuverið, 8. liðinn. Það er ekki auðvelt fyrir okkur, flm. till., að afla upplýsinga um það, hvernig það stendur. Þetta fyrirtæki er sett upp svona meira og minna út í loftið. Það er byrjað á því að taka fé úr fiskimálasjóði í þetta, og síðan er verið að slá lán og krefja ríkið um hjálp. Hvað komið er í þetta fyrirtæki, er ekki fullvíst. Ég hef heyrt sagt 7 millj. kr. Hvort þetta getur nokkurn tíma orðið forretning, getur víst enginn maður sagt um enn þá. En það er bersýnilegt, að þetta er mjög áhættusamt fyrirtæki og að ríkið getur ekki komizt hjá að binda stórfé í þessu. Og þegar það vantar stórfé í daglegar greiðslur og ríkið getur ekki fengið það fé að láni vegna skulda, þá er ekki hagkvæmt fyrir ríkið að vera að burðast með slíkt fyrirtæki eins og þetta.

Ég kem þá hér að því, sem ég geri ráð fyrir, að verði nokkuð mikið þrætuepli, sem er afnám orlofslaganna. Nú er það orðið svo, að það er mjög áberandi stefna í þessu þjóðfélagi að fá menn til þess, með illu eða góðu, að vinna sem allra minnst. Það eru nú orðnir í raun og veru ekki nema fimm virkir dagar í viku, og það meira að segja um sláttinn, því að vegagerðarmenn og aðrir, sem vinna hjá ríkinu eða sveitarfélögum, hafa fimm virka daga í viku. En það þykir ekki nóg. Það er verið að bjóða mönnum fé til þess að vinna ekki, ef þeir vilja nú bara fara í frí, einkum yfir bjargræðistímann. Ég man eftir því á uppvaxtarárum mínum og áður en ég fékk fullan vöxt, að þá var vinnuharkan svo mikil, að það var tekið eftir því, hvað maður brýndi oft ljáinn sinn. Og það þótti mesta ósvinna, ef maður talaði við samverkamann sinn, meðan vinnudagurinn stóð yfir, í 10–12 tíma, og ekki var neinn gjafatími fyrir kaffi eða því um líkt. Og það voru ekki sex vinnudagar í vikunni, heldur sjö, því að alltaf, ef þurfti með um sláttinn, unnu menn við heyskap á sunnudögum, og auðvitað unnu menn við fjárhirðingu alla sunnudaga, vor, haust og vetur. Nú eru ekki nema fimm vinnudagarnir, og það mega helzt ekki vera nema 5–6 vinnutímar á dag. Svo er auk þess verið að kaupa menn til þess að hætta að vinna um sláttinn og reyna að kóklast eitthvað út á landið og leika sér. Auðvitað fer þetta orlofsfé að ákaflega miklu leyti til ríkisins aftur, því að menn kaupa fyrir það brennivín, og það er kannske ljósi punkturinn í því. En ég vil, að menn taki það til athugunar, hvort ekki eigi að afnema þessi lög. Ef á að hækka kaup, þá á það að koma fram í öðru, en að múta mönnum til þess að þeir hætti að vinna.

11. liðurinn er um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga. Ég vil ekki fara mjög náið út í þetta. En það er alveg vitað mál, að þessi jöfnunarsjóður á engan rétt á sér. Það var hér á árunum búið til eins konar ráðuneyti utan um þessi sveitarstjórnarmál, og þá varð þetta jöfnunarfé til, sem ríkið gat ekki vitað um, hversu mikið yrði, og það var komið þannig, að hvorki fjvn. né ráðh. réðu nokkuð við þetta. Það var komið talsvert mikið á aðra millj. kr. á ári, og þá vildu sumir og þar á meðal ég láta afnema þessa fjarstæðu. En þá var miðlun sett á þennan sjóð, þannig að gjaldið til hans takmarkaðist við 600 þús. kr. En ég fullyrði, að þessi sjóður er alveg óþarfur og ekkert annað en uppfinning til þess að búa til einhvern skatt um þetta. (PZ: Er ekki hv. þm. nýbúinn að samþ. hér breyt. á l. um þennan sjóð?) Nei, ég er búinn að greiða atkv. á móti henni, en ég gerði það að till. minni og hef alltaf gert að afnema blátt áfram l. um jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Þá er hér hinn margumræddi Skálholtsskóli. Um hann hefur svo oft verið talað. En þegar maður er nú, eins og ég, að leggja til að fresta framkvæmd á byggingu ýmissa skóla úti um landið, sem standa nú fullir og meira en það, finnst mér ekki hægt að forsvara það að byggja einhvern nýjan skóla einhvers staðar úti í móum yfir ekki eina einustu sál, eins og þarna í Skálholti. Þeir bændaskólar, sem hér eru, eru mjög vel úr garði gerðir, og ríkið hefur látið þá hafa það, sem þeir þurfa, og lagt þeim til bú og annað. Samt sem áður hafa þeir ekki verið fullskipaðir, og vantar talsvert mikið á það enn. Til þess nú að bæta úr þessu, að fólkið sækir ekki þessa skóla eins og þeir hafa pláss og kennslukrafta til o. fl., þá finna menn upp á því að ætla að byggja þriðja bændaskólann skammt frá dyrum Hvanneyrarskólans, svo að segja. Þetta virðist mér vera hrein, ég vil ekki segja geggjun, en a. m. k. hrein móðursýki, og er þetta að sjálfsögðu ein af þeim uppfinningum, sem gerð er til þess að vekja áhuga kjósenda. Menn eru alltaf að finna upp áhugamál fyrir fólkið og tala það upp í að heimta þetta og hitt. Fólkið hefur ekki tök á að brjóta það til mergjar, hvort það sé heppilegt, sem það er fengið til að heimta. En það er hægt að gylla þetta og því um líkt af flokksstuðningsmönnum sem heppilega hluti. Svo þegar hv. þm. eru búnir með ógnar hávaða að fá fólkið til þess að heimta þetta, koma þeir á eftir hér inn á Alþ. skjálfandi og stynja undir þessu og spyrja sjálfa sig, hvort þeir geti ekki losnað við að uppfylla það, sem fólkið er að krefjast, og óska þess, en þora ekki að ganga á móti því, af því að þeir eru búnir að gera fólkið hálfvitlaust (PZ: Þetta er ljót lýsing.) Satt er það. En menn vekja upp drauga úti um allt land, og þetta Skálholtsskólamál er einn draugurinn.

Næsti liður er vinnumiðlun. Það hefur verið rætt um þetta atriði. Það er nýbúið að drepa till. fjvn. um að lækka þetta úr 100 þús. kr. í 50 þús. kr. Ég skal ekkert segja um þetta. Það getur vel verið, að hv. þm. haldi fast við þá ákvörðun að slá þessari lækkunarviðleitni frá sér. En í tíu ár hefur þetta staðið á fjárl. og þó hefur ekkert atvinnuleysi verið til í landinu þann tíma og enga svona miðlun því hægt að gera. Og ef einhver einstakur maður hefði farið þannig með ríkisfé, að verja því í svona hlut, þá hefði slíkt verið talið svindl, að kasta 100 þús. kr. á ári í það, sem alls ekki hefur verið framkvæmt. Menn hafa hirt þetta fé ýmist til þess að leigja húsrúm fyrir skrifstofu, sem gerir ekki neitt, eða til þess að borga vinnu á skrifstofu, sem gerir ekki neitt. Það þarf og á að afnema þetta. Nú getur komið atvinnuleysi í þessu landi. Ég er ekki að spá neinn sérstöku um það. Það væri óskandi, að það yrði ekki, því að það var ekki svo skemmtilegt ástand, meðan atvinnuleysi ríkti hér. En ef svo verður, að atvinnuleysi kemur hér, er nógur tími til þess að taka þetta upp. Ég legg áherzlu á, að ríkið á ekkert að skipta sér af þessu. Vinnu, sem þurfti að miðla fyrir stríð, var miðlað af sveitarfélögunum, og þegar þau gerðu þetta, þurftu þau ekki að kosta til þessa. Ég var fleiri ár í bæjarstjórn, sem miðlaði vinnu, og sú nefnd, sem ég var í, átti að gera þetta, auðvitað fyrir ekki neitt. Og því átti hún ekki að gera það fyrir ekki neitt?

Ég á nú eftir að minnast á tvo liði þessarar till., sem eru um endurskoðun tveggja laga, sem sjálfsagt hafa verið mikil áhugamál og hitamál, en ekki mjög mikil ágreiningsmál. Önnur þau lög eru l. um hina nýju skipun skólamálanna, sem að sönnu var allmikið ágreiningsmál, sérstaklega um fyrirkomulagið, og hin l. eru um almannatryggingarnar. Hvað skólamálin snertir, þá renna menn náttúrlega nokkuð blint í sjóinn um það, hvað heppilegast sé, að skólaskyldan sé löng. Fyrst þegar sú skylda var sett á, 4 ár, var hún allkostnaðarsöm, en sveitarfélögin voru þá látin bera verulegan hluta af kostnaðinum. Þá var lítið um kennara á Íslandi og þá var settur upp kennaraskóli hér. Og ég fullyrði, að þó að margt færi góðra manna á þann skóla, var mjög mikil vöntun á hæfum kennurum, og allmikill hluti af því fólki, sem annaðist kennslustörf, var ekki fær um að kenna, þó að það væru góðir menn í eðli sínu og vildu láta gott af sér leiða, en voru ekki færir um að vera menningarleiðtogar. Suma skorti kannske gáfur, suma þekkingu. Síðan hefur verið aukin þessi skólaskylda, fyrst niður á við um þrjú ár og svo upp á við um tvö ár. Því miður getum við ekki lagt til nóg af kennurum til þess að þetta geti blessazt. En þetta dregur líka annan dilk á eftir sér, sem er, að til þessa þarf geysilegt húsnæði. Þegar búið er að keyra menn inn í skylduskóla í 6–7 ár, krefst þetta svo mikils húsnæðis, að það er ekki nokkur leið, að ríkið geti komið þessu fyrir á stuttum tíma. Og það dugir ekki að ætla sér að hafa nein snögg átök í þessum efnum. Ég álít óþarfa að láta skólaskylduna ná til unglingaskólanna. Ég hef átt tal um þetta við mjög marga kennara. Ég hef líka tekið eftir því, hvaða áhrif þetta hefur á iðjusemi í landinu. Nú er það svo, eins og áður hefur og verið, að menn eru misjafnlega gefnir til bóknáms, misjafnlega gáfaðir. Auk þess er fjöldi unglinga, sem kærir sig ekki um að hafa framhaldsnám, eftir að barnaskólanáminu er lokið. Þetta fólk, einkum það af því, sem bráðþroska er, fer til ýmissar vinnu. Í kaupstöðum voru margar stúlkur í húsum í vist og lærðu margt af því, bæði matargerð, þrifnað, saumaskap o. fl. Þetta var kannske verulegur hluti af iðjuliðinn á heimilunum, ungar stúlkur, sem skyldaðar voru nú með nýju skólalöggjöfinni til að setjast á skólabekk. Víða, sérstaklega við sjávarsiðuna, voru ungir piltar við lóðabeitingu, aðgerð á fiski og unnu í frystihúsum og voru þannig aðstoð þeim heimilum, sem þeir tilheyrðu, og unnu auk þessa alls konar aðra nytsama vinnu. Nú er þetta fólk allt tekið og keyrt inn í skóla, sem ekki eru hús til yfir, nema ríkið geti sargað út lán. Svo er kennsla unglinganna hafin þar, sem hús eru til þess. Kennarinn er þá kannske svo lélegur, að krakkarnir gætu kennt honum. En að því slepptu eru þessi ungmenni svo misjafnlega stödd á vegi til þess að nota sér námið, að tvö kannske geta lært verulega mikið sjálfra sín vegna, en þriðji unglingurinn tefur þau, svo að þau komast ekki eins áfram og þau annars gætu í náminu, og þetta verkar alveg eins og dragbítur á sleða. — Hv. þm. voru ekki allir með því að setja slík lög, heldur sumir á móti því, og þar á meðal var ég. Og svo er sagt, að þetta sé til minnkunar, að vilja breyta hér til. Það er sannarlega ekki til minnkunar að endurskoða lög, sem augljóst er, að þarf að endurskoða. Það er ekki nema til sóma, að lög séu endurskoðuð, ef þörf er á því, og ef það er nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið, þá á að gera það. Og jafnvel þó að þessi aukna skólaskylda væri til bóta, sem ég hef neitað, að hún sé, nema að verulega litlu leyti, þá er það svo margt, sem menn verða að neita sér um í fátæku þjóðfélagi. Ef við getum ekki haft svona marga kennara, þá verðum við að grisja þetta um eitt ár eða svo.

Svo eru það almannatryggingarnar. Það neitar enginn því, að bæði er það æskilegt í þjóðfélaginu og mikið menningarmál að hafa sem fullkomnastar tryggingar, og við í okkar fátækt erum alls ekki eftirbátar annarra í því efni, nema síður sé. En það er ákaflega óæskilegt og hættulegt að bjóða fólki upp á hluti, sem verður svo að svipta það aftur. Það á ekki að fara hraðar í að bjóða fólki upp á hlunnindi en svo, að hægt sé að standa við orð sín. Nú hafa þessar tryggingar farið hratt yfir. Við höfðum að vísu áður ellitryggingu og höfðum svo sjúkratryggingar, og þetta var ákaflega þarft og nauðsynlegt, en ég held, að við höfum tekið síðasta stökkið allt of stórt. Við rísum ekki undir þessu, sveitarfélögin eru að sligast, ríkissjóður sligast náttúrlega undir öðru, en þetta er ein af þeim stóru byrðum, sem eru að sliga ríkissjóðinn, og einstaklingarnir kveina undan þeim álögum, sem á þá leggjast. Ég held, að það eigi að draga úr þessu, svo að mönnum verði þetta viðráðanlegt. En í leiðinni ætti ríkisvaldið að sjá um, að það verði athugað, hvort þessar tryggingar séu ekki allt of dýrar. Ég skal ábyrgjast, að þessar tryggingar, sem borguð er gífurleg upphæð fyrir, væri hægt að útvega erlendis fyrir stórkostlega miklu minna gjald. Og sumar þessar tryggingar eru þannig, að þær eru bara hlægilegar. Það mundi verða hlegið að því sums staðar að borga fleiri hundruð þús. kr. fyrir slysatryggingar, þar sem mikið af því fé má telja greitt til þess að tryggja fólk, sem ekki sýnist vera í mikilli slysahættu, eins og t. d. skrifstofustúlkur. Þær gætu kannske meitt sig þannig, að þær gætu stungið sig á pennanum. En nú fást ekki pennar. Ríkisstj. sér um það, og sú hætta er því ekki fyrir hendi.

Ég skal ekki lengja mál mitt um þetta. Ég hef ekki orðið annars var, en að það væri viðurkennt af flestum hv. þm., að ríkið sé í talsverðum örðugleikum, — ekki orðið svo fátækt, því að það á geysilegar eignir. En þessir örðugleikar stafa af tvennu: Of háum fjárlögum, sem aftur stafa af því, að menn leyfa sér of mikil lífsþægindi og meiri en menn geta veitt sér. Og í öðru lagi stafa erfiðleikarnir af útþenslu, af því að ríkið er farið að vasast í svo mörgu, sem verður því allt of kostnaðarfrekt, bæði um stofnfé og rekstrarfé. Mér þætti gaman að heyra, ef einhver gæti bent á, að ríkið hefði tekjur af nokkru því, sem við erum hér í þessari till. að biðja um að leggja niður. Það er ekki einu sinni, að ríkið græði óbeint á því, því að þetta er gert eins dýrt hjá ríkinu eða dýrara en nokkur einstaklingur mundi gera það. Óbeini arðurinn er ekki mikill, en áhættan er mikil. Og við, ég og meðflm. minn, höfum gert það af ásettu ráði að hafa þessa till. í mörgum liðum, til þess að menn gætu ekki sagt það, að allt hefði þetta hrunið með einu atriði, af því að þetta væri bundið allt svo fast saman. Nú getur einum fundizt sjálfsagt að samþ. þennan lið, en hann vill síður samþ. hinn o. s. frv., svo að þetta er að því leyti gott form, að menn geta greint á milli þess, sem menn hafa trú á, og hins, sem þeir hafa minni trú á. En sérstaklega vildi ég, þó að ég sé ekki með getsakir til hv. þm., samt sem áður ekki þegja hér yfir því, að mér hefur ekki fundizt framkoma hv. þm. hafa fyllilega verið í samræmi við orð þeirra, þegar þeir eru sífellt að kveina undan því, að ógætilega sé farið í eyðsluna. Mér hefur ekki fundizt framkvæmdir hv. þm. í fjármálum í samræmi við orð þeirra. Ætlunin er ekki að leggja mælispjald á herðar neinnar tröllskessu, heldur að gefa þm. tækifæri til að sýna, hvað þeir meina með atkvgr. Þá sést, hvort þeir álíta, að útþenslan sé of mikil.