17.05.1949
Neðri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í D-deild Alþingistíðinda. (4969)

194. mál, óeirðirnar 30. marz 1949

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég sé hér hina rökst. dagskrá, sem hefst á orðunum: „Þar eð alþm. voru sjónarvottar að óspektunum við alþingishúsið hinn 30. marz s. l. og er því öllum ljóst, hverjir sök áttu á þeim, og málið auk þess er í rannsókn hjá sakadómara“ o. s. frv. Það er nú svo. Upphaf málsins hjá hv. flm. er, að alþm. hafi verið sjónarvottar að atburðunum 30. marz og meira en það. Þeim er því öllum ljóst, hverjir áttu sök á þeim, en þrátt fyrir það er mál þetta til rannsóknar hjá sakadómara. En augsýnilega er rakakeðjan ekki alveg óbrotin. Þetta er allt saman ljóst, en samt sem áður er málið í rannsókn hjá sakadómara. Nú vil ég spyrja hv. flm., hvort þeim sé ljóst til hlítar þáttur Sjálfstfl. í þessu máli, hvað því olli, að þessi flokkur hélt uppi heræfingum vikum saman, áður en til þessara atburða dró. Það er dagsanna, að unglingur í einum af skólum bæjarins bar það fyrir sig, að hann hefði ekki getað lesið vegna þess, að hann hefði verið á æfingu hjá Sjálfstfl. Það er dagsatt, að æfingar fóru fram, og þar sem hv. flm. vita allt svo vel, ættu þeir einnig að vita tilganginn með þessum æfingum. Þeir vita þá sennilega, hver var tilgangurinn með þeim óvenjulega hraða, sem var á afgreiðslu málsins, og ástæðuna til þess, að það var hindrað, að málið væri rætt á almannafæri, og eins tilganginn með því að skipa 927 manna sveit fyrir framan alþingishúsíð, þegar málið var afgreitt. Það er fleira, sem þeir þurfa að upplýsa, þar sem þeir vita þetta allt svo dæmalaust vel. Þeir þurfa einnig að upplýsa. hvernig á því stóð, að hin fjölmenna lögregla gerði enga tilraun til að hindra þá unglinga, sem voru með ærsl á Austurvelli. Hví stóðu þeir sem veggur fyrir framan hina 927, en höstuðu ekki á unglingana? Allt þetta hljóta hv. flm. að vita, úr því að þeir slá því föstu, að allir alþm. viti, hverjir áttu sökina. Þeim hlýtur að vera ljóst, hvers vegna lögreglustjóri fyrirskipaði árás á mannfjöldann án aðvörunar. Hvers vegna var ekki hafður eðlilegur háttur á þessu? Hvers vegna var ekki sagt við fólkið: Það er ósk lögregluyfirvaldanna, að þið hverfið héðan. Ef þið gerið það ekki, verður gripið til annarra ráða? — Þetta var ekki gert, en hvers vegna ekki? Það hljóta hv. flm. að vita og ber skylda til að skýra frá því, úr því að hér stendur, að þeir viti skil á orsök og tilgangi óeirðanna.

Þá er fleira skráð á þetta ágæta blað. Það er skráð á það, að þessir hv. þm. láti í ljós undrun sína yfir flutningnum og átelji málflutning hv. þm. Siglf. í grg. og vilji vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá. Það er ástæða til að svipast um, hvað þeir vilja átelja í grg. till. Það er ekki sæmandi að leggja málið undir atkv. d. án þess að fyrir þessu sé gerð grein. Undir þetta skrifar hinn brosandi þm. Ísaf. Ég skil hans undirskrift vel. Hann er stór hluthafi í Aðstoðaríhaldi h/f og hefur fengið veglega stöðu sem innkaupastjóri ríkisins og er þar með orðinn stéttarbróðir innkaupastjóra Reykjavíkurbæjar, sem hefur það hlutverk að sjá um, að innkaup bæjarins fari í gegnum hina réttu heildsala. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. á, að ræðutími hans er búinn, þar sem aðeins er um athugasemdatíma að ræða.) Ég skal benda á, að ég er hér í forföllum hv. flm. og á því rétt á 3 ræðum. Ég er sannfærður um, að þessi hv. hluthafi verður dyggur maður á sínum verði og sér um, að innkaupin lendi á réttum stað, og standi á verði fyrir íslenzka auðvaldið og aðalíhaldið. Hann er því á réttum stað. — Ég skil einnig vel hv. 5. þm. Reykv. Hann er þarna að tala úr sínum flokki, sem berst fyrir auðstéttina á Íslandi, og honum er ljóst, að hlutlæg rannsókn á atburðunum 30. marz er ekki heppileg fyrir húsbændur hans. En svo má segja: Og þú líka barnið mitt, Brútus. — Framsóknar- og samvinnumaðurinn hv. 2. þm. N-M., sem ekki er, svo að vitað sé, enn búið að innlima í varnarkerfi auðstéttanna og Sjálfstfl. og ekki vitað annað en hann sé einlægur samvinnumaður, sem vilji berjast fyrir snauða bændur á norðausturhjara landsins. (HÁ: Ekki með grjóti.) Það er sjálfsagt rétt, því að hv. þm. hefur fleiri tæki, sem henta honum betur. (Forseti: Ég vil beina þeirri eindregnu ósk til hv. þm., að hann ljúki máli sínu sem fyrst.) Ég er undrandi að finna hann í þessum félagsskap. Ég skil, að hið eiginlega íslenzka íhald vilji víkja þessu máli frá, en það sviptir engu af skyldu þingsins að skipa n. til að rannsaka málið, sem fær hina hæfustu lögfræðinga til að gera málinu skil.

Ég skal svo vegna góðs samstarfs við hæstv. forseta láta hér staðar numið, þótt ég hefði þurft meira en klukkutíma til að ljúka máli mínu.