10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í D-deild Alþingistíðinda. (4976)

28. mál, hvíldartími háseta á togurum

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Eins og hv. 1. flm. fsp. hefur tekið fram, lagði hann ásamt öðrum hv. þm. fram frv. til l. um breyt. á l. um hvíldartíma háseta á togurum. Var máli þessu vísað til ríkisstj. 5. marz s. l., eftir að ég hafði gefið yfirlýsingu um það, að ég mundi fyrir mitt leyti hraða því, að þessi löggjöf yrði tekin til endurskoðunar. Sá háttur var á hafður af hálfu forsrh., að leitað var til sjómannafélaga Rvíkur og Hafnarfjarðar og þau félög í sameiningu beðin um að tilnefna tvo menn, — annan, sem þekkti sérstaklega vel til togara, og hinn, sem þekkti til mótorbáta. Á sama hátt var leitað til sambands íslenzkra útvegsmanna og þeir beðnir um að tilnefna tvo menn af sinni hálfu til endurskoðunar á löggjöfinni um hvíldartíma háseta á botnvörpuskipum. Það dróst, að tilnefndir yrðu menn af hálfu þessara aðila, en þar kom þó að lokum, að tilnefndir voru fjórir valinkunnir menn af hálfu þessara aðila. Þegar þeir höfðu verið tilnefndir, leit rn. svo á, að einnig mundi vera heppilegt að hafa með í ráðum einhverja valinkunna menn af hálfu ríkisvaldsins, færa í lögfræðilegum efnum, til þess að taka þátt í þessari endurskoðun. Það tókst að fá til þessa starfa þá Jónatan Hallvarðsson og Torfa Hjartarson, sem báðir eru kunnir embættismenn og báðir hafa einnig verið sáttasemjarar ríkisins í vinnudeilum. Þar að auki hafði annar þeirra, Jónatan Hallvarðsson, nokkra reynslu í þessum efnum, því að hann hafði einnig um skeið verið háseti á togara. Þessir menn tóku það að sér eftir beiðni minni að ganga einnig í þessa sömu n., og ræddi ég sérstaklega ýtarlega við þá um það atriði, sem þeir og óskuðu eftir, að þeir fengju tækifæri til að kynna sér löggjöf nágrannaþjóðanna á þessu sviði, sérstaklega þeirra þjóða, sem stunda fiskveiðar bæði á togurum og mótorbátum. En bæði er, að þessir embættismenn hafa mikið að gera, og svo eins hitt, að það er erfitt fyrir nefndir að starfa á sumrin, og varð því lítið úr störfum s. l. sumar, nema hvað n. kom saman og gerði ráðstafanir til að afla sér sem beztra upplýsinga í þessum efnum. N. mun nú eftir ósk minni hraða störfum og skila áliti sínu til forsrn. Ég get ekki sagt um það nákvæmlega, hvað langt störfum n. er komið, og ekki get ég heldur sagt á þessu stigi, hvenær vænta megi árangurs eða till. af hálfu n. En ég get lýst því yfir, að ég hef fyrirskipað, að n. skuli hraða störfum sínum. Og það er ekki ætlun mín með skipun þessarar n. að setjast á málið til þess að svæfa það, heldur vil ég með þessu fá trygga og varanlega skipun þessara mála og þætti mest undir því komið, að gagnkvæmur skilningur tækist milli sjómanna og útvegsmanna í þessum efnum, þar sem þeir gætu mætzt, svo að um varanlega lausn málsins yrði að ræða. Ég vil endurtaka það, að ég hef enga tilhneigingu til að setjast á þetta mál, heldur vil ég, að málið leysist fljótt, og því vil ég heita, að þessi n. leiti sér sem allra fyrst upplýsinga um þetta mál, utan lands og innan, áður en hún gengur endanlega frá till. sínum til ráðuneytisins.