28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (4985)

900. mál, landbúnaðarvélar

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ísaf. þurfti að grípa til útúrsnúninga til þess að verja mál sitt. Ég vissi ekki til, að ég segði neitt í þá átt, að hægt væri að nota sláttuvél í stað rakstrarvélar. Hitt getur hv. þm. Ísaf. e. t. v. skilið, að bændur gætu notað hestasláttuvélar, ef þeir fengju ekki vélknúnar sláttuvélar. Og varðandi súgþurrkunartækin t. d., þá hefur verkfæranefnd e. t. v. ekki talið þau til venjulegra verkfæra, og við vorum líka í vafa um það, og spursmál, hvort ekki átti að gera um þau sérstaka áætlun og hefur verkfæran. e. t. v. haft það í hyggju. Sem dæmi um það samræmi, sem er á milli stærstu liðanna, má benda á mjólkurvélarnar, sem eru stór liður, og ósamræmi það, sem annars staðar gætir, skýrist af því, hve geysilegt álitamál það getur verið, t. d. með rakstrarvélar, hve mikið þurfi að afskrifa og fá af nýjum vélum. Ég geng lengra á þeirri leið en verkfæranefnd, því að ég veit, að margar eldri vélar eru úr sér gengnar og úreltar. En um allt slíkt má vitanlega deila.

Hv. þm. Ísaf. þarf ekki að halda, að ég hafi farið að fyrtast við hann. Ég tók einmitt vel tilmælum hans um að endurskoða áætlunina, og ég endurtek það, að ég er fús til að samræma hana í þeim atriðum, þar sem á milli ber, en ég hverf ekki frá því, að misræmið er svo lítið, að það breytir engu verulegu í grundvallaratriðum, þegar gerð er áætlun til 4 ára. Verkfæran. tekur aðeins það dýpra í árinni, að hún vill, að áætlunin sé framkvæmd á 3 árum.