03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í D-deild Alþingistíðinda. (4991)

37. mál, raforkumál

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Með þessari fyrirspurn er leitað eftir því, hvort ríkisstj. hafi gert ráðstafanir til þess, að fullnægt verði sem fyrst rafmagnsþörf þeirra heimila í landinu, sem geta ekki fengið raforku frá stórum vatnsaflsstöðvum.

Það er nú vafasamt, hve sterkt á að kveða að orði um þetta, en ég tel þó rétt að rifja upp athugun, sem farið hefur fram í landbrn. í sambandi við þetta mál. — Það munu vera um 6.000 sveitabýli hér á landi, flest í mjög miklu dreifbýli, og þar af leiðandi er ljóst, að það er bæði dýrt og mun sækjast seint að koma rafmagni inn á öll þessi býli með stórvirkjunum sem höfuðleiðum. Eftir því sem næst verður komizt, hafa nú 816 býli fengið rafmagn, að vindrafstöðvum fráskildum, en ekki eru til skýrslur um þær, svo að ég viti. Nú á síðustu árum, eftir að farið var að leggja linur út um land frá stærri raforkuverum, hefur lítið eitt þokazt í áttina, en þó ekki meira en svo, að um 150 af þessum 816 býlum fá rafmagn út frá stórvirkjunum, Soginu, Laxá og Andakílsárvirkjuninni lítils háttar. Auk þess eru í undirbúningi rafveitur frá ýmsum stöðum, þannig að gera má ráð fyrir, að með sömu rafmagnsframkvæmdum og verið hafa komi rafmagn til viðbótar inn á 2.300 sveitabýli eða þar um bil á einu til tveimur árum. En það er bezt að geta þess nú þegar, að samkvæmt fjárveitingu ákveðinni af Alþ. til rafveituframkvæmda ríkisins nú er ekki hægt að reikna með meira, en 100 býlum árlega, þannig að allir sjá, að ef ekki er hægt að verja meiri fjármunum til þessara framkvæmda en nú er og útlit er fyrir á þessu ári, að þá muni þessi róður sækjast heldur seint. Nú er rétt að minna á það, að samkvæmt 35. gr. raforkulaganna er heimilt að lána úr raforkumálasjóði til einkavirkjana, og verður að því ofur lítil viðbót við þá tölu, sem ég nefndi áðan. Nú hafa 416 sveitabæir rafmagn frá einkavirkjunum, og er það stærsti samfelldi flokkurinn af raforkuframleiðsluaðferðum fyrir sveitirnar.

Eftir að ég tók við þessum málum, fór ég að athuga um að láta 35. gr. raforkulaganna koma betur til framkvæmda til þess að bæta ofur lítið úr rafmagnsskortinum til sveita. Og vorið 1947 var í ráðuneytinu gengið frá reglum um úthlutun lánsfjár samkvæmt þessari grein. Þá lágu ekki fyrir margar beiðnir um lán, sem eðlilegt var, af því að mönnum var ekki almennt ljóst, að þessi leið var til. Var síðan ákveðið að taka árlega frá 150 þús. kr. til þessara framkvæmda og úthluta undir eftirliti raforkumálastjóra. Síðan voru lánin ákveðin þannig, að lána má af kostnaðarverði virkjunar á hverjum stað til 17 ára, afborgunarlaust í 2 ár, en vextir eru 2½%. Umsóknum um lán úr raforkumálasjóði til þessara virkjana fjölgaði fljótlega, og nú liggja fyrir umsóknir frá 20 býlum; verið er að ganga frá virkjunum á 5 þeirra, og á næstu 5 árum er gert ráð fyrir að ljúka öllu verkinu. Þrjú fyrstu árin er lánsféð 150 þús. kr. á ári, eða samtals 450 þús. eða nákvæmlega sú upphæð, sem ákveðið var að taka frá úr sjóðnum í þessu skyni, svo að hún dugir þessi þrjú ár, en ef lánbeiðnum fjölgar, tel ég rétt að auka lánsfé til þessara framkvæmda.

En þó að gert sé ráð fyrir, að flestir bændur, sem hafa góða aðstöðu til virkjunar við bæjarvegginn, fari af stað og fái til þess lán úr raforkumálasjóði, munum við skammt á veg komast um lausn þessa máls í heild. Það yrðu aldrei nema tiltölulega fá sveitabýli. Af þeirri ástæðu fól ég forstjóra Landssmiðjunnar s. l. vetur að rannsaka, hvort hægt mundi að afla dieselvéla til að bæta úr rafmagnsþörf sveitanna, eða þeirra sveitabýla, sem ekki hafa aðgang að þeim tveimur leiðum til rafmagnsöflunar, sem ég hef nú minnzt á. Í þessu sambandi er rétt að geta hinna fjölmörgu vindrafstöðva, sem margir höfðu trú á um skeið, að gætu leyst þörf dreifbýlisins til bráðabirgða. En reynslan hefur orðið sú, að þær eru alls staðar að leggjast niður. Aðalástæðan mun vera sú, að vegna óstöðugrar veðráttu hér á landi, þar sem ýmist eru stormar eða stillur, er nauðsynlegt að hafa allmikla geyma með stöðvunum, en ókosturinn við þá er sá, að þeir eru bæði dýrir og ganga fljótt úr sér. Annað er það í sambandi við óstöðuga veðráttu, að stöðvarnar hafa oft bilað í veðrum. Og því miður er óvíða á næstu grösum tiltækileg aðstoð til að halda vélunum í lagi. Það eru tiltölulega fáir staðir, þar sem þessar stöðvar hafa verið og eru notaðar með góðum árangri, og er sá árangur mjög háður umhirðu og hagleik þeirra manna, sem eiga þessar stöðvar, svo að þær verða lítils virði nema í höndum hagleiks- og hirðumanna. En sé ekki almennum úrræðum til að dreifa, er lítil von til þess, að vindrafstöðvarnar haldist við, hvað þá að þeim fjölgi, þannig að sérfræðingar telja, að nægileg reynsla sé fengin fyrir því, að lausnina sé ekki að finna í þeim. — Af þessari ástæðu fól ég forstjóra landssmiðjunnar, eins og ég sagði áðan, að leita eftir hentugum dieselrafstöðvum til raforkuframleiðslu. Nú hefur tekizt að fá umboð fyrir nýja gerð slíkra véla, sem framleidd er í Bretlandi og sérstaklega ætluð einstökum heimilum, eða sveitaheimilum. Þessar nýju ensku stöðvar hafa þann kost fram yfir þær rafmagnsstöðvar, sem notaðar hafa verið hér á landi fram að þessu, að þær eru m. a. alveg sjálfvirkar. Þær eru þannig útbúnar, að um leið og fyrsta ljósið er kveikt á morgnana fara þær af stað, og fara út þegar síðasta ljósið er slökkt að kvöldinu. Þessi þægindi eru svipuðust því að fá rafmagn frá stórum orkuverum, eða stærri stöðvum. Verð á þessum stöðvum frá Englandi er 9.700 krónur — 6.000 watta — og fer síðan lækkandi, svo að þær minnstu kosta 2.700 krónur. Það er talið nokkurn veginn öruggt, að stærri vélarnar nægi til ljósa og orku, sem notuð er utan húss í sveitum, t. d. til heyþurrkunar og verkfæra, og svo til eldamennsku. Það er að vísu ekki talið hagfræðilega rétt að breyta olíu í orku og orkunni aftur í hita, en vegna vinnusparnaðar er talið hagkvæmt að nota þessar stöðvar til allrar venjulegrar suðu. Hins vegar er ekki talið borga sig að framleiða orku til upphitunar, og verður að leysa þá þörf öðruvísi, en láta þessar stöðvar nægja til ljósa, suðu og annarrar venjulegrar heimilisorkuframleiðslu.

Það er ákvæði um það í raforkulögunum, að þegar um héraðsrafveitur er að ræða, á sýslan að kosta þær að einum þriðja hluta. Þetta hefur verið leyst þannig, að þessi þriðjungur hefur verið tekinn með heimtaugagjaldi til býla, sem fá raforkuna. Þetta hefur verið samþykkt í nokkrum sýslum, sem hafa fengið rafmagn, en ekki farið inn á þá braut að leggja sérstaka bagga á þau heimili, sem ekki fá raforkuna. Það hefur þótt eðlilegra, að þeir einir, sem fá rafmagnið, bæru framlagið, sem tilskilið er af sýslunnar hálfu. Og nú hefur það sýnt sig, samkv. reglum, sem útbúnar hafa verið og samþykktar af félögum, að meðalkostnaður við heimtaugagjald hefur verið um 6 þús. kr. á býli. Þetta er nokkuð misjafnt, af því að mælikvarðinn, sem farið er eftir við álagningu þessa gjalds, er að nokkru leyti bundinn við fasteignamat viðkomandi jarða. Þetta verður þannig nokkuð misjafnt. En reynslan sýnir, að meðalheimtaugagjald er um 6 þús. kr. á býli. M. ö. o., þá kemur í ljós, að þessar diesel-stöðvar til framleiðslu rafmagns, sem hér er um að ræða og unnt er að útvega, kosta upp og ofan svipað á býli eins og heimtaugagjaldið frá hinum stærri rafmagnsveitum. (SkG: Voru ekki stöðvarnar á 9. þús. kr.?) Jú, þær dýrustu. En heimtaugagjaldið hefur reynzt 10 til 12 þús. kr., þar sem það er dýrast. Og það lætur nærri, að verð á þessum dieselrafstöðvum verði svipað og heimtaugagjaldið á hvert býli, þannig að það sýnir sig, að reynist þessar vélar vel, sem maður hefur ástæðu til að ætla, þá er miklu fljótlegra og þarf ekki svipað því eins mikið fjármagn til þess í heild að leysa raforkuspursmál dreifbýlisins með þessum stöðvum eins og með því að leiða rafmagnið frá vatnsaflsstöðvum. Að vísu má geta þess, að til þess að reka þessar stöðvar þarf olíu og benzín, og til þess þarf ærinn gjaldeyri. En það gæti komið á móti því, að allmikinn gjaldeyri þarf að greiða vegna hinna dýru rafleiðslna, sem annars yrði að leggja út um öll héruð landsins. Og hefur ekki verið reiknað út, hvort gjaldeyrir þessi, sem færi til olíunotkunar á þessum diesel-stöðvum, mundi verða meiri — sennilega mundi hann þó verða töluvert minni — heldur en gjaldeyrir, sem mundi fara til þess að greiða erlent efni, sem þyrfti að flytja inn í landið vegna raforkuleiðslna. — Eftir að landssmiðjan hafði fengið þessi tæki, auglýsti hún þau og gerði grein fyrir þeim. Og síðan hafa drifið til hennar beiðnir frá ýmsum bændum um að útvega þessar stöðvar, þannig að nú þegar eru um 100 menn búnir að fastsetja pöntun á þeim fyrir næsta ár, og fjöldi manna um land allt er að athuga þetta og velta fyrir sér og búa sig undir framkvæmdir á þessu sviði.

Í sambandi við þetta hef ég leyft mér að skrifa fjárhagsráði og benda því á þessa staðreynd og óskað eftir því, að það væri viðbúið að veita gjaldeyri á þessu ári fyrir 300–500 slíkum stöðvum á sveitabæi og þeim tækjum, sem nauðsynleg eru til þess að koma rafmagninu inn á heimilin. Þá hef ég farið fram á við gjaldeyris- og innflutningsnefnd, að hún í sinni innflutningsáætlun geri ráðstafanir til þess, að þeir menn, sem beita sér fyrir því að reisa einkavatnsaflsstöðvar, fái nægilegt efni til þess að koma þessum stöðvum upp.

Nú hef ég falið Landssmiðjunni í áframhaldi að gera ýtarlegar tilraunir, eða látið gera á vegum landssmiðjunnar tilraunir með þessi tæki, bæði um orku þeirra, notagildi og orkueyðslu, og væntanlega liggja niðurstöður þeirra tilrauna fyrir, áður en langir tímar líða. Verði það nú svo, að reynslan sýni, sem ég álit, að vel muni mega vænta, að þarna sé að finna lausn á þessu vandamáli sveitanna, kemur til kasta ríkisins að stuðla að hentugum lánum fyrir bændur til þess að eignast þessi tæki. Það er nú þegar samkv. ræktunarsjóðslögunum verkefni ræktunarsjóðs m. a. að greiða fyrir því, að raforkan komist inn á sveitaheimili í landinu, og eru lán, sem sá sjóður veitir til þessa, mjög hentug. En hins vegar má búast við, að það þurfi að gera ráðstafanir til þess að afla meira lánsfjár til þessara hluta, svo að ekki strandi á því, að bændur vanti möguleika í því efni.

Ég held, að ég þurfi nú ekki að hafa fleiri orð um þetta. Þetta er í fáum dráttum það, sem gert hefur verið af atvmrn. til þess að athuga þessi mál og greiða fyrir því, að nokkur framkvæmd geti á þeim orðið. Og verða þá vitanlega úrræðin til þess að afla sveitunum rafmagns á næstu árum þessi: Fyrst og fremst það að halda áfram að leggja línur um byggðirnar, eftir því sem fjárhagsorka leyfir, og þá sérstaklega á þéttbýlum svæðum á okkar mælikvarða, og má búast við, að nokkuð mikið af býlum landsins fái raforkuþörf sinni fullnægt á þann hátt. Af raforkumálastjóra er nú verið að vinna að athugun á því, hvaða svæði á landinu og hve margir bæir er líklegt að fái lausn þessara mála gegnum ríkisrafveitur nú á næstu árum. — Og annað úrræðið er að halda áfram að stuðla að því, að einstakir bæir, sem einn eða fleiri saman hafa aðstöðu til að koma upp heimavatnsaflsstöðvum, fái lán og veitingu fyrir gjaldeyri til kaupa á þeim tækjum, sem nauðsynleg eru til þess að koma upp slíkum stöðvum. Og þriðja og síðasta úrræðið, sem ég geri ráð fyrir, að sé það bezta og hentugasta, verður, ef dieselrafstöðvar verða fáanlegar, að nota þær til raforkuframleiðslu á sveitaheimilum. Og þetta, sem ég hef lýst, að gert hefur verið af ráðuneytinu í sambandi við þær stöðvar, tel ég spor í rétta átt.