03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í D-deild Alþingistíðinda. (4992)

37. mál, raforkumál

Fyrirspyrjandi (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. atvmrh. fyrir greið og góð svör við þessari fyrirspurn. Ég vil láta í ljós gleði mína yfir því, að maður eygir í gegnum þau svör, sem hann gaf, nóg til þess, að hægt sé að gera ráð fyrir, að þau býli, sem þannig eru sett, að þau geta ekki fengið raforkuþörf sinni fullnægt með leiðslum frá stærri raforkustöðvum, og ekki hafa aðstöðu til að virkja bæjarlækinn hjá sér, muni nú geta samt sem áður fengið lausn á því vandamáli, sem raforkuspursmálið er fyrir sveitabýli landsins.

Í sambandi við þetta vil ég benda á, að eins sjálfsagt og það er, sem hæstv. atvmrh. sagðist mundu vilja stuðla að, að gjaldeyrisyfirvöldin komi hér á móti og veiti leyfi fyrir nauðsynlegum innflutningi til þess að þessar dieselrafstöðvar geti komizt upp og verið reknar, og eins sjálfsagt og það er líka, að þeir menn, sem ráðast í það að koma þessum stöðvum upp hjá sér, fái lánamöguleika, sem hæstv. atvmrh. kom líka inn á, þá held ég, að eftir sé að athuga einn lið í þessu sambandi, sem ég vil benda hæstv. ráðh. á. Það er að vonum, að vélamenning hér á okkar landi er tiltölulega lítil, enda ung. Og þegar þessar nýju rafstöðvar, dieselstöðvarnar, útbreiðast meðal almennings, má ganga út frá því sem gefnu, að ekki hafi allir, sem þær fá, þekkingu til þess að fara vel og rétt með þær. Það er því ákaflega hætt við, að fleiri eða færri af þessum stöðvum geti bilað í höndunum á þeim. sem fá þær. Þess vegna er nauðsynlegt, að þær útbreiðist þannig um landið, að samhliða því sem þær útbreiðast í héruðum, komi í þeim sömu héruðum upp verkstæði, þar sem hægt sé að fá gert við þessar vélar, þegar þær ganga úr sér. Þess vegna vil ég benda á það, hvort ekki muni vera rétt að haga útbreiðslu þessara véla þannig, að þær útbreiðist á hverju ári fyrir sig um ákveðin svæði, þannig að séð verði um, að á þeim sömu svæðum verði jafnframt komið upp verkstæðum til þess að geta gert við þessar dieselvélar, ef þau verkstæði eru ekki til þar fyrir. Þetta fyrirkomulag um útbreiðslu þessara véla teldi ég heppilegast, þannig að sveitabyggðirnar væru í þessu efni teknar í áföngum, þar sem það fylgdist að, að séð væri fyrir nægum viðgerðaverkstæðum um leið og vélarnar útbreiddust. Og ef þær kæmu til landsins um 500 á ári, mundi á ekki mjög mörgum árum með innflutningi þeirra vera hægt að ráða verulega fram úr rafmagnsþörf sveitanna. En, sem sagt, ég teldi heppilegast, að þær dreifðust á ári hverju um tiltölulega takmarkað samfellt svæði, þannig að með þeim væri á þessum svæðum í hverjum áfanga nokkurn veginn séð fyrir rafmagnsþörf sveitabýlanna þar og þar sem séð væri um, að verkstæði væru fyrir hendi til viðgerða á þessum rafstöðvum. Ef þær hins vegar dreifðust um allt landið á hverju ári, sem þær væru fluttar inn, svona nokkurn veginn skipulagslaust, þá gæti svo farið, að margir, sem þessar vélar fengju, stæðu eftir stuttan tíma ráðalausir, og það vegna lítilvægra bilana, sem kynnu að eiga sér stað í þessum vélum.