03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í D-deild Alþingistíðinda. (4994)

37. mál, raforkumál

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. 1. þm. N-M. ræddi um eftirlitið með þessum vélum og viðgerðir á þeim, og er það alveg rétt hjá honum, að þessi hlið málsins er athyglisverð. Ég gleymdi að taka það fram, að ég hef rætt sérstaklega þessa hluti við raforkumálastjóra og óskað eftir því, að hann undirbyggi til ráðun. áætlun um viðgerða- og eftirlitskerfi sérstaklega með þessum stöðvum, ef innflutningur á þeim og notkun skyldi aukast stórlega frá því, sem nú er, og ef yfirleitt yrði farið inn á þessar leiðir til raforkuframleiðslu. Og hef ég rætt um tvennt í því efni. Fyrst það að koma upp eins konar stuttu námskeiði fyrir þá bændur eða aðra þá, sem kaupa slíkar stöðvar, til þess að kenna þeim meðferð á þessum vélum og hirðingu. Og í öðru lagi hef ég rætt um að koma upp nokkurs konar viðgerðakerfi, eða sjá um, að menn væru til staðar nægilega margir á þeim svæðum, þar sem þessar vélar væru notaðar, til þess að gera við bilanir, sem fram kæmu á vélunum. Þetta er vitanlega stórt atriði.

Út af fyrirspurn hv. þm. Barð. vil ég geta þess, að um þær reglur, sem ráðun. gefur út um aðstoð við kaup á rafstöðvum, hefur ráðun. samráð við raforkumálastjóra og raforkumálanefnd. Hins vegar hef ég ekki snúið mér til hæstv. viðskmrh. um þessi mál, því að þau lágu undir mitt ráðuneyti. En ég taldi rétt, í samráði við þá sérfræðinga í þessum efnum, sem ég hafði fengið upp í hendurnar, að gera þessar áætlanir, sem ég hef lýst. — Og viðkomandi því, hvort hægt sé að fá annars staðar betri eða ódýrari dieselvélar, en í Englandi, þá dettur mér ekki í hug að neita því. Þetta, sem ég hef tekið fram, er aðeins byrjun á þessum athugunum, og verður að sjálfsögðu haldið áfram að leita fyrir sér um þetta. En ég vil að gefnu tilefni aðeins benda á, að ég tel, að þessi tilraun, sem hér hefur verið gerð, sýni, að þessar vélar hafi nokkra kosti fram yfir þær vélar, sem hingað til hafa verið notaðar hér á landi til sömu nota, þó að vitanlega hafi verið unnið að því á mörgum árum að leysa þetta spursmál. Og ég bað forstjóra Landssmiðjunnar að leita ekki síður fyrir sér í Englandi í þessu efni, sem var sérstaklega vegna gjaldeyrisástæðna, því að skortur á dollurum er allmikil hindrun í vegi fyrir því að geta fengið þessar vörur frá Ameríku. Og ef líklegt væri, að við gætum fengið frá Englandi heppileg tæki til raforkuframleiðslu í sveitum, þá teldi ég miklu meiri líkur til þess, að hægt væri að afla þeirra þaðan, en frá Ameríku, beinlínis vegna gjaldeyrisástæðna. En ef það sýndi sig, að það væri ódýrara að fá þessi tæki frá Ameríku og við hefðum ástæður til þess að geta keypt þau þaðan, þá er vitanlega sjálfsagt að fagna því og taka öllum umbótum, sem á þessu sviði fást.