10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (5003)

51. mál, vegamál

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Vegna þess að þessar þrjár fyrirspurnir eru að langmestu leyti teknisks eðlis, þá hef ég óskað eftir því, að vegamálastjóri sjálfur svaraði þeim fyrir sitt leyti, og skal ég leyfa mér að lesa upp hans svar, sem er svohljóðandi:

„1. Breidd bifreiða er frá 2,0–2,3 m og jafnvel allt að 2,5 m breidd heimiluð á nokkrum aðalvegum á Suðvesturlandi. Ef ekið er hratt, 40–60 km, verður að aka mjög varlega og venjulega að draga úr hraða, nema vegir séu minnst 6 m breiðir, sérstaklega þegar ekið er fram úr annarri bifreið. Svo breiðir vegir eru hér ekki nema nokkrir aðalvegirnir á Suðvesturlandi og einstaka vegir næst Akureyri.

2. Aðrir vegir eru yfirleitt ekki breiðari en 4,0–5,5 m, og verður þá að gæta varúðar, er ekið er fram úr bifreið eða þær mætast, og venjulega að draga úr hraða, því að vegbrúnin er oft svikul. Sumir upphleyptir vegir eru þó mjórri en 4,0 m, jafnvel aðeins 3,0 m, og verða þá bifreiðar að mætast á útskotum. Sundurliðaðar skýrslur um breidd einstakra akvegakafla eru ekki til, en langflestir vegakaflar eru í þessum flokki.

Hefur undanfarin ár mjög verið unnið að því að bæta aðstöðu til að mætast og árlega bætt við fjölda útskota, svo að ekki verður sagt, að valdi lengur verulegum töfum og erfiðleikum. Á mörgum vegaköflum, þar sem lítil umferð er, vantar þó enn útskot, svo að viðunandi sé. Ber vitanlega að stefna að því að bæta úr þessu, eftir því sem efni eru talin standa til.

3. Á löngum, mjóum vegaköflum, upphleyptum, er víða sett upp útskotsmerki, en algengt er enn, að stuttir, mjóir kaflar upphleyptir koma milli fullbreiðra vegakafla, t. d. á melum, og þykir þá ekki eins henta að setja upp slík merki.

Það viðurkennist, að enn vantar bæði útskot með merkjum eða sums staðar merkin ein til leiðbeininga. Fjarlægð milli útskota er venjulega 200–300 metrar eftir því, hve umferðin er mikil, og þá reynt að stefna að því, að útskotin falli inn í væntanlega síðari breikkun vegarins.

Væri mjög æskilegt að geta komið þessu í gott lag á næstu tveim árum, og mætti það væntanlega takast, ef viðhalds- og umbótafé til þjóðveganna verður ekki skorið mjög við nögl.

Í þessu sambandi má geta þess, að verið er að undirbúa gagngera merkingu á vegamótum með árituðum leiðarmerkjum, er tilgreini vegalengdir. Með því að vegalengdir hafa allvíða breytzt á síðari árum, er nýir kaflar hafa verið lagðir, hefur þessi undirbúningur tekið nokkurn tíma, en væntanlega tekst að koma þessu í framkvæmd á næsta vori. Því miður hafa slík leiðarmerki, útskotsmerkin og háskamerkin, rauðu þríhyrningarnir, er hingað til hafa verið sett upp, þráfaldlega verið skemmd af mannavöldum. en vonandi tekur fyrir það með bættri umferðarmenningu.

Talsvert af nýjum háskamerkjum hefur verið útvegað, sem fyrirhugað er að setja upp í vor.“ Þetta eru svör vegamálastjóra við spurningunum í þessari fyrirspurn hv. þm. S-Þ., og vænti ég, að þeim sé að mestu þar með svarað. Ég býst ekki við, að hv. fyrirspyrjandi, þm. S-Þ., hafi ætlazt til að fá sundurliðaða skrá yfir þá vegi, þ. e. skrá yfir þá vegi, þar sem hægt er að mætast án þess að draga úr hraða, eða með töfum og erfiðleikum. Sú skrá er ekki til. Mætti sjálfsagt búa hana til. Hitt tel ég meira virði, að fé verði ekki skorið svo við nögl til vegagerða, að ekki sé hægt að leggja meðfram vegum hæfilegan fjölda útskota. — Um merkinguna og umferðarmenninguna er það rétt, sem vegamálastjóri segir, að það skortir á, að umferðarmenningin sé svo góð sem skyldi hjá okkur. Það er hin sorglega staðreynd, sem e. t. v. er ekki hægt að breyta á skömmum tíma, og er e. t. v. ekki hægt að hafa mjög mikil áhrif á menn í því efni í útvarpi, því að þeir, sem þyrftu helzt að heyra það, hlustuðu kannske ekki á það. En ég hygg, að með batnandi umferðarmenningu og fjölgun vegamerkja mundi þetta fást lagað. Og það veltur langmest á því, hvort fé fæst til þess að gera útskotin, hvort takast má á næstu tveimur árum að ljúka uppsetningu þeirra svo, að viðunandi megi teljast.