10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í D-deild Alþingistíðinda. (5009)

901. mál, verðmæti landbúnaðarvöru

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það er erfitt að svara þessari fyrirspurn, vegna þess að það liggja ekki fyrir opinberar lokaskýrslur um þessa hluti. Það vill svo til, að ég gerði um það ýtarlega tilraun á s. l. vetri, að láta gera áætlun um framleiðslumagn landbúnaðarins á árinu 1946, og ég býst við, að hv. þm. muni láta sér nægja það, þó að það geti skakkað ofur litlu. Ég studdist þar við upplýsingar bæði frá framleiðsluráði landbúnaðarins og stofnunum, sem annast sölu landbúnaðarafurða, ásamt upplýsingum frá hagstofunni, og yfirleitt allar þær upplýsingar, sem ég gat náð í, til þess að byggja á nokkurn veginn öruggar niðurstöður um þetta. Niðurstaðan varð þannig, að framleiðslumagnið 1946 hefur orðið sem hér segir:

65 millj. l. mjólk

8000 smál. kindakjöt

1500 — nautgripakjöt

1000 — hrossakjöt

250 — svínakjöt

75 — alifuglakjöt

600 þús. stk. slátur og mör

80 smál. egg

og svo gærur og ull. Nú er spurt um það, hve mikið verð felist í þessari framleiðslu, miðað við innlent og erlent verðlag. Ég hef reynt að gera mér nokkra grein fyrir því, og ég hef reiknað út þetta framleiðslumagn innanlands á 2 árum með því að reikna út verðið, eins og það er selt á markaðsstöðum innanlands, og í öðru lagi að reikna út það verð, sem bændur fá, og í þriðja lagi hef ég látið reikna út meðalverð á öllum þessum vörum á Norðurlöndunum þremur. Niðurstaðan af þessu verður þá þannig, að verð á þessum vörum, með því verðlagi, sem bændur fá, er um 200,2 milljónir kr. Útsöluverð á öllum þessum vörum er 278,45 milljónir kr., en verð þessarar vöru, miðað við meðalverð, sem var á þessum vörum á Norðurlöndum, eru 128,4 milljónir.