10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í D-deild Alþingistíðinda. (5013)

902. mál, sjúkrahælin í Kumbaravogi og Kaldaðarnesi

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Ríkisstj. mun nú hafa í huga að stofna nýjan spítala fyrir áfengissjúklinga, en undanfarandi stjórn hafði rekið tvö hæli, annað í Kumbaravogi, en hitt í Kaldaðarnesi, og skilst mér, að hún hafi lagt í það mjög mikla peninga, þar á meðal mikið fé í framkvæmdir í Kaldaðarnesi, eftir að hælið var lagt niður. — Það leiðir af sjálfu sér, þar sem allar þessar framkvæmdir hafa verið gerðar utan við Alþ. og þær hafa kostað mikið, að þá er sannarlega ástæða til þess, að þingið og þjóðin fái að vita, hvernig þessu hefur verið háttað. Í fyrsta lagi, hvenær þessi hæli voru stofnuð, hvað þau kostuðu mikið, hve margir sjúklingar dvöldu þar og hvaða menn höfðu yfirstjórn í þessum hælum. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. sé ánægja að því að gefa skýrslu um það mál.