10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í D-deild Alþingistíðinda. (5019)

902. mál, sjúkrahælin í Kumbaravogi og Kaldaðarnesi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. mál hans. Hann skilur, að aðstöðumunur okkar er mikill, þar sem hann getur teygt lopann, en ég hef aðeins 5 mínútur til þess að gera grein fyrir mínu máli. En mér mun gefast tækifæri síðar til að ræða þetta í sambandi við annað mál.

Ég vil þó benda á, að hæstv. menntmrh. tekur fram þrjú höfuðatriði sem ástæður fyrir því, að hælið er lagt niður í Kaldaðarnesi. Í fyrsta lagi, að það hafi þótt of fjarri að dómi lækna. — Nú er þó upplýst, að landlæknir sjálfur hefur valið staðinn, og hlýtur því hæstv. menntmrh. að hafa tekið meira mark á einhverjum öðrum læknum, en landlækni sjálfum. — Í öðru lagi telur hann að jörðin hafi verið í svo slæmu ástandi, að það hefði kostað of fjár fyrir ríkið að kippa því í lag. Nú er upplýst, að það lá fyrir stórfé frá hinum erlendu aðilum, sem skylt var að nota til þess að gera nauðsynlegar umbætur á jörðinni, og ef það hefur verið vanrækt, er það undarleg ráðstöfun. — Í þriðja lagi telur hann, að nauðsynlegt hafi verið að skipta um ábúendur í Skálholti og að Kaldaðarnes hafi verið selt samkvæmt lögum. Ég er þó ekki farinn að sjá, að það sé að fullu upplýst. Og ég sé ekki betur en þetta sé hreinn loddaraleikur allt saman.

En mér mun annars síðar gefast tækifæri til þess að ræða þetta niður í kjölinn.