10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í D-deild Alþingistíðinda. (5026)

903. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fyrirspyrjandi (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu geri ég mér fulla grein fyrir því, að erfiðleikar útgerðarinnar eru margþættir, en eins og ég áður gat um, er ástæðan til þess, að ég ræði um þessa hlið sérstaklega, sú, að það er mjög illa ástatt fyrir mörgum sjómönnum, sem við síldveiðar hafa verið á s. l. sumri. Ég gat um það áðan, að fyrirspurnin, sem hér er flutt, var prentuð meira en viku áður en hæstv. ráðh. flutti sína fjárlagaræðu, og þótt hann hafi svarað henni að mestu, þá verð ég að segja eins og er, að mér finnst það ekki liggja nógu glöggt fyrir, hvernig fara eigi að að ráða bót á í þessu efni. Hæstv. ráðh. gat um, hver væri fyrirætlun hans um athugun á þörfum þessara útgerðarmanna, sem verst eru komnir. Mér finnst það liggja ljóst fyrir, að um leið og hæstv. ráðh. talar um, að nauðsyn sé til þess að gera löglegar ráðstafanir og að þær taki sinn tíma, þá hefði mátt vænta þess, að á Alþ. hefði komið fram frv. um bráðabirgðalán til þeirra útgerðarmanna, sem verst eru staddir. Slíkt frv. er ekki komið enn, en kemur væntanlega næstu daga. Ég endurtek það, sem ég sagði hér áðan, að ég tel þetta svo stórt atriði fyrir fjölda sjómanna, að það verði að koma úrbætur hið allra fyrsta. Ég tek það fram, að þótt ég unni útgerðinni alls hins bezta, þá hef ég komið hér fram með þetta mál vegna hagsmuna sjómanna. Mér er það ljóst, að útvegsmenn eru misjafnlega illa staddir, þar sem sumir hafa staðið við allar skuldbindingar, en aðrir ekki. En það breytir engu um það, að það eru mjög margir útgerðarmenn, sem hafa ekki greitt kaup enn þá, og mér finnst þeir hafa mjög sterka afsökun, vegna þeirra erfiðleika, sem þeir hafa orðið fyrir, vegna síldarleysisins í sumar, til viðbótar þeim erfiðleikum, sem útgerðin hefur orðið fyrir á umliðnum árum.