10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í D-deild Alþingistíðinda. (5030)

904. mál, vatnsréttindi í Þjórsá

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég skal um þetta gefa þær upplýsingar, sem ég hef getað aflað mér. — Ég skal geta þess, að í sambandi við umr., sem urðu um þetta fyrir rösku ári síðan í sambandi við mælingar eða athuganir, sem Englendingar gerðu á Þjórsá, án skuldbindingar þó, fól ég raforkumálastjóra að afla upplýsinga um það, hvernig væri háttað með eignarrétt vatnsaflsins í Þjórsá, og ég hef beðið hann um upplýsingar um þetta efni. Hefur hann í tilefni af því skrifað mér svolátandi bréf:

„Samkvæmt útskriftum úr veðmálabókum Árnes- og Rangárvallasýslna, sem vegamálastjóri hefur afhent raforkumálaskrifstofunni, virðist h/f Titan vera talið eiga öll vatnsréttindi í Köldukvísl, Tungnaá, Fossá í Þjórsárdal, Geldingaá og vatnsréttindi á Holta- og Landmannaafréttum, auk vatnsréttinda í Þjórsá, þar sem nokkurt virkjanlegt fall er, niður fyrir Urriðafoss. Titan mun þó aðeins hafa tekið á leigu vatnsréttindin í Kálfholtslandi, samkvæmt leigutilboði séra Ólafs Finnssonar í Kálfholti, dags. 14. ág. 1916, með áritaðri staðfestingu stjórnarráðsins, dags. 14. nóv. 1916, og framsali frá Eggert Claessen, dags. 14. nóv. 1916.

Af útskriftunum úr veðmálabókum verður ekki séð, hvort vatnsréttindi hafi verið seld (eða leigð) meðfram allri ánni, án þess að athuga um leið landamörk hverrar jarðar, sem hlut á að máli. Virðist þó sem óseld séu vatnsréttindi nokkurra jarða milli Þrándarholts og Skálmholtshrauns í Árnessýslu og á milli Króks og Haga, svo og milli Haga og Akbrautarholts í Rangárvallasýslu, (PZ: Þarna mun eiga að standa: Akbrautar). Já, það mun vera rétt, — auk vatnsréttinda fyrir neðan Urriðafoss í Þjórsá, en ekki mun vera virkjanlegt fall í ánni á þessum stöðum.“

Þannig er það, sem fyrir liggur um það, hver eigi aflið í Þjórsá og nálægum ám.

Í öðru lagi, sérstaklega viðvíkjandi síðari lið fyrirspurnarinnar, hefur þetta verið samið í atvmrn.:

„Félagið Titan var stofnað í Reykjavík í febrúarmánuði 1914 með heimilisfangi þar.

Við gildistöku hlutafélagalaganna, nr. 77/1921, var Titan veittur eins árs frestur til þess að koma málum sínum í löglegt horf í samræmi við hlutafélagalögin, svo að skrásetning þess gæti fram farið. Frestur þessi var ekki notaður, og er Titan ekki skrásett á hlutafélagaskrá í: Reykjavík.

1. gr. laga nr. 63 28. nóv. 1919, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, er svo hljóðandi: „Enginn má öðlast eignarrétt eða notkunar rétt yfir fasteignum á landi hér, hvort sem er, fyrir frjálsa afhending eða nauðungarráðstöfun, hjónaband, erfðir eða afsal, nema þeim skilyrðum sé fullnægt, sem nú skal greina:

1. Ef einstakur maður er, þá skal hann vera heimilisfastur hér á landi.

2. Ef fleiri menn eru í félagi, og ber hver fulla ábyrgð á skuldum félagsins, þá skulu þeir allir vera heimilisfastir hér á landi.

3. Ef félag er, og bera sumir fulla, en sumir takmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins, þá skulu þeir, er fulla ábyrgð bera, allir vera hér heimilisfastir, enda skal félagið hafa hér heimili og varnarþing og stjórnendur allir vera hér heimilisfastir.

4. Ef félag er, þar sem enginn félaga ber fulla ábyrgð á skuldum félagsins, eða stofnun, þá skal félagið eða stofnunin eiga hér heimilisfang og varnarþing og stjórnendur allir vera hér heimilisfastir.

Nú eru skilyrði þau eigi fyrir hendi, er í 1.–4. tölulið segir, og er ráðuneytinu þá rétt að veita leyfi, ef ástæða þykir til. Eigi þarf þó leyfi til leigu á fasteign eða réttinda yfir henni um 3 ára tímabil, eða ef uppsögn er áskilin með eigi lengri en árs fyrirvara.

Ákvæði laga þessara ná til hvers konar afnotaréttar fasteigna, þar á meðal veiðiréttar og vatnsréttinda, að því leyti sem sérleyfislög láta eigi öðruvísi um mælt.

Námuréttindi, svo og hagnýting vatns og vatnsorku í þarfir námuvinnslu einvörðungu getur ráðherra undanþegið ákvæðum laga þessara.“

Samkvæmt upplýsingum hrm. Ragnars Jónssonar, umboðsmanns félagsins Titan hér á landi, eru allir stjórnendur þess búsettir erlendis. Titan fullnægir því ekki skilyrðum 1. gr. 4. tölul. þessara laga til þess að eiga afnotarétt eða eignarrétt á vatnsréttindum hér á landi án leyfis ráðuneytisins. Slíkt leyfi hefur ekki verið veitt, en Titan ber samkvæmt 4. gr. laganna minnst 6 mánaða frestur til þess að koma málum sínum í löglegt horf.

Fyrir um það bil ári síðan ræddi ráðuneytið við umboðsmann Titan hér um það, að æskilegt væri að samningar yrðu hafnir um kaup ríkisins á vatnsréttindum félagsins hér á landi. Samningar hafa enn þá ekki hafizt, sem orsakast fyrst og fremst af málaferlum, sem standa nú yfir í Noregi milli stjórnar Titans og einstakra félagsmanna, en horfur eru á, að málaferlum þessum ljúki á næstunni, og eru stjórnendur félagsins, einn eða fleiri, væntanlegir hingað til lands í erindum þess á næsta vori.“

Ég þarf ekki miklu við þetta að bæta. Ég skal aðeins geta þess, út af niðurlagi þess, sem ég las, að fyrir ári síðan, þegar umræður hófust um þetta, að gefnu tilefni af hálfu þeirra ensku manna, sem fóru að athuga þetta, þá fór ráðun. að athuga, hvernig eðlilegast og sjálfsagðast væri, að Ísland eignaðist vatnsorkuna í Þjórsá. Það mátti vitanlega gera það með því að skipa þeim í þessu félagi að koma málum sínum í lag með þeim sex mánaða fresti, sem þar er tilskilinn, og láta síðan dóm ganga um eignarréttinn. Við töldum hins vegar rétt, þar sem það er vitanlegt, að meginhluti fjárins er í eign þegna þjóðfélags, sem okkur er skylt og vinveitt, Norðmanna, að fyrst færu fram samningaumleitanir við þessa menn um það, með hvaða kjörum þeir væru fáanlegir til að láta aflið af hendi, en neyta ekki fyllsta lagaréttar, fyrr en sýnt væri, að ekki væri unnt að komast að samningum. En enn hefur staðið á því, að félagið hefur ekki getað komið sér upp löglegri stjórn, vegna þess að þarna eru málaferli innbyrðis, sem þurfa að hlaupa á enda, áður en hægt er að vita, við hverja hægt er að tala þarna í félaginu. En þessi málaferli eru að verða búin, og innan stundar liggur fyrir, hverjir eru í Noregi löglegir eigendur þessara vatnsréttinda. Og þeir munu snúa sér til atvmrn. um samninga um þetta efni. Fleiri upplýsingar held ég, að ég geti ekki gefið að sinni.