17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í D-deild Alþingistíðinda. (5041)

905. mál, bændaskólar

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað að taka til máls um þetta mál, a. m. k. ekki á þessu stigi. En úr því að ég heyri, að landbn.-menn eru farnir að vitna, get ég alveg eins vitnað líka. Eins og tekið hefur verið fram, var það borið undir álit okkar landbn.-manna. beggja deilda Alþ., og hæstv. landbrh. kom á fund okkar í þessum n. og spurði um álit okkar um það, hvort við teldum, að það bryti beinlínis í bág við ákvæði laganna að selja Kaldaðarnes þeim manni, sem þarna var um að ræða, að vildi kaupa það, og hafði búið um fjölda ára á öðru höfuðbóli landsins, sem var í eigu hins opinbera. Þessi ábúandi var þá búinn að fá erfða ábúðarrétt á jörðinni, Kaldaðarnesi, og átti þar af leiðandi skýlausan rétt eftir þrjú ár að fá jörðina keypta, ef hún yrði seld. — Ég skal taka það fram, að ég var einn af þessum sex landbn.-mönnum, sem álitu þessa umtöluðu sölu Kaldaðarness ekki brjóta í bág við lögin, og ég blygðast mín ekkert fyrir að viðurkenna það. Ég lít svo á, og ætla ekki að bera neinar afsakanir fram um það. Og það gildir mitt atkv. alveg jafnt, hvort sá maður heitir Jörundur Brynjólfsson eða hvað annað. Hér lá málið þannig fyrir, að þessi maður hafði, svo að segja í næstu sveit, búið góðu búi og hafði öll þau skilyrði að öðru leyti, sem þarf til þess að öðlast þann rétt, sem til þurfti, til þess að selja mætti honum þessa jörð á þann veg, að hann gerði hana að óðalseign, sem, eins og hæstv. atvmrh. benti á, er svo um búið, að maður, sem eignast jörð þannig, getur ekki verzlað með hana, henni verður ekki ráðstafað á annan hátt en þann, að hún gangi til niðja hans, eða ef svo færi, að enginn þeirra vildi taka við henni til ábúðar, verður hann að láta jörðina af hendi aftur til hins opinbera á fasteignamatsverði. Ég tel hættulaust fyrir ríkissjóð að láta jarðir af hendi með slíkum kjörum. Ég hef alltaf litið svo á, að bændastéttin hefði bezta tryggingu fyrir velgengni með því móti, að bændur væru sjálfseignarbændur. Og ég hef haldið, að flokksbræður mínir yfirleitt litu einnig svo á.

Þegar frv. um sölu þjóð- og kirkjujarða var hér á ferð, þá hygg ég, að það hafi upphaflega verið borið þannig fram, að ekki hafi verið ákveðinn í því neinn ábúðartími hlutaðeigandi kaupanda sem skilyrði fyrir því, að selja mætti honum jörð, sem verið hefði í ríkiseign. En það varð að samkomulagi í n. að áskilja það í l., að kaupandi hefði búið á viðkomandi jörð í minnst 3 ár. Af því að ég var einn af flm. þessa máls og átti talsvert mikinn þátt í samningu þessa frv., hef ég litið svo á og lít svo á enn, að í þessu tilfelli, sem hér hefur verið rætt um viðkomandi sölu Kaldaðarness, beri ekki að líta fyrst og fremst á bókstaf laganna, hvað þetta búsetuskilyrði snertir, vegna þeirra ástæðna, sem til þess lágu, að það var sett inn í lögin. Það má vel vera, að lögfræðingar standi fastar á bókstaf laganna í þessu efni. En ég stend ekki fast á þessu atriði í þessu sambandi, heldur álit ég, að ef öðrum skilyrðum sé fullnægt, sem lög ákveða um sölu þjóð- og kirkjujarða, þá sé ekkert við það að athuga. sem gert hefur verið í sölu Kaldaðarness. Og þess vegna greiddum við hv. 2. þm. Árn. og ég atkv. með þessu í landbn., þar sem okkur var líka kunnugt um það, að það var eindregin ósk þeirra þarna eystra, að þetta gengi þannig. — Ég geri grein fyrir þessu að gefnu tilefni og kannast alveg við, að ég var einn af þessum sex landbn.-mönnum, sem sáu ekkert að athuga við það. úr því sem komið var, að þessi maður. hv. 1. þm. Árn., fengi keypta þessa jörð, þar sem hann var búinn að eignast réttinn til að kaupa jörðina að öðru leyti en þessu, sem hér hefur verið um rætt.