17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í D-deild Alþingistíðinda. (5043)

905. mál, bændaskólar

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 4. þm. Reykv., spyr, hvernig aðsóknin hafi verið að bændaskólunum á Hvanneyri og Hólum á undanförnum árum. Því hefur hæstv. atvmrh. svarað. Af því geta hv. þm. ráðið, hvort það er sérstaklega mikið tilefni af þeim ástæðum til að amast við því, að stofnaður verði þriðji bændaskólinn í landinu, þó að það hafi aðeins komið fyrir, að bændaskólarnir hafi ekki verið fullskipaðir. sem fyrir eru, og ýmsar orsakir liggja til þess, eins og segja má um fleiri skóla. Og það er einnig lítil ástæða til að vera meinsmaður þess, að þriðji þessara skóla risi hér upp hjá okkur, sem búið er að veita 2 millj. kr. til framkvæmda við að koma upp, þó að þær séu skammt á veg komnar. Það er fjarstæða ein að vera meinsmaður þess, því að okkar landbúnaður og okkar aðstaða til búskapar hefur tekið gerbreytingum og verður að taka. Aðstaða til framleiðslu þarf svo mjög að breytast sakir breyttra búnaðarhátta í landinn, ekki aðeins meðal bændastéttarinnar sjálfrar, heldur einnig meðal annarra stétta. Til þess að sú breytiþróun, sem þarf að verða fljótt, geti orðið í fullu lagi, þarf að mennta vel bændastéttina. Og þessa menntun getur hún ekki sótt annað, en til reynslunnar og til menningarstofnana. Og þær menningarstofnanir, sem eiga að verða og verða bændastéttinni notadrýgstar í þessum efnum, eru auðvitað bændaskólarnir að öllum eðlilegum hætti.

Það geta engir skólar bætt það upp, ef ekki er séð fyrir fræðslu og menntun í hagnýtri búfræði í bændaskólunum. Og andstaðan gegn því að koma upp nægum bændaskólum hér hjá okkur er því furðulegri sem í nágrannalöndum okkar er aukin bændafræðslan og bændamenningin, þó að nágrannaþjóðir okkar hafi að vísu verið langt á undan okkur í öllum búnaðarháttum, er snerta landbúnað. Samt sem áður telja nágrannaþjóðir okkar það svo mikils virði fyrir sig að manna bændastétt sína, að þær hafa aukið við sínar bændamenningarstofnanir mjög frá því, sem áður var. Það er því alveg furðulegt að heyra hér talað um að koma í veg fyrir, að sú löggjöf komi nú til framkvæmda, sem sett hefur verið um þetta efni, að þriðji bændaskólinn verði reistur. Og ég vil láta í ljós fyrir hönd bændastéttarinnar allrar mitt innilegasta þakklæti til hæstv. landbrh. fyrir það, að hann lætur ekki á sig fá goluþyt nokkurra manna, sem sennilegast af misskilningi, en áreiðanlega a. m. k. af fljótfærni hafa borið fram ásakanir á hann viðkomandi þessu máli. Hæstv. landbrh.lætur þetta ekki á sig fá, en framkvæmir í þessu efni eins og hann álítur ástæðu til. Það mun verða sá minnisvarði, sem geymir nafn hans á ókomnum öldum, sem hann gerir til þess að ýta þessu skólamáli áfram til framkvæmdar. Hitt, sem fram kemur frá öðrum hv. þm. og mætti verða þessum framkvæmdum til hindrunar, gleymist — eins og sennilega nafn þeirra sjálfra.

Hv. þm. S-Þ. talaði um, að það væri hæfilegt að hafa 8–9 mánaða námstíma á bændaskólunum. Þetta er nú fram komið hjá þessum hv. þm. af því, að hann veit allt of lítil deili á því, hvað til þess þarf að standa vel í stöðu sinni sem bóndi, ég veit, að einstakir menn eru svo vel gerðir, að þeir geta af eigin rammleik aflað sér mikils fróðleiks um búfræðileg efni og leyst bústörfin vel af hendi án skólavistar á bændaskólum. En við verðum að hafa það í huga, að tímarnir eru að breytast og aðstaðan til búskapar er mjög ólík því, sem áður var. Og sú breyt. kallar á sérstaka þekkingu, sem erfitt er að veita sér, nema með mikilli reynslu og helzt í stofnun, sem þyrfti að eiga þá reynsluþekkingu. — En ég er hv. þm. S-Þ. sammála um það, að verklega kennslan í bændaskólunum þarf að aukast. En hún ein út af fyrir sig er svo mikil í þessum stofnunum, að ekki mun veita af 8–9 mánuðum til að veita nemendum hana. Og verklega kennslu þurfa bændur vissulega að fá í skólunum. En það er misskilningur, að nemendum nægi svo lítill tími til þess að nema allt, sem þeir þyrftu að læra á bændaskólunum. En breyt. á fyrirkomulagi skólanna er aðkallandi. En þegar fyrirkomulag þeirra verður fært til betri vegar, þá mun aðsóknin aukast til skólanna.

Hæstv. forseti bendir mér nú á, að mínar mínútur séu liðnar. En ég vil undirstrika það, að hv. þm. S-Þ. fer með gersamlega rangt mál, er hann segir, að enginn áhugi sé fyrir bændaskóla á Suðurlandi.