17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í D-deild Alþingistíðinda. (5044)

905. mál, bændaskólar

Steingrímur Steinþórsson:

Aðeins örfá orð til þess að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa flutt þetta mál inn í þingið, því að ég tel, að umr. þær, sem hér hafa farið fram, hafi verið mjög gagnlegar, og að sú skýrsla, sem hæstv. atvmrh. gaf um málið, hljóti að verða til þess, að hv. alþm. viti meira og réttar um þetta mál eftir en áður. Og ég skal geta þess, að mér, sem hef haft allmikil afskipti að þessum málum frá upphafi, þætti vænt um, að þau kæmu fram enn frekar hér í þinginu, þegar tíminn er ekki svona takmarkaður, þannig að þá gefist kostur á að ræða málið vel. Og skal ég þá ræða við hv. þm. Barð., sem sýndi það áðan, að þegar hann fer með rök og heimildir, notar hann þetta eins og sagt er, að einn karl lesi Biblíuna, öfugt. Því að það, sem þessi hv. þm. las upp úr lögunum, sannar einmitt, að hæstv. atvmrh. gerði í þessu máli ekkert annað en það, sem full heimild er fyrir í lögum.

Ég vil svo leyfa mér að undirstrika það, sem komið hefur hér fram hjá báðum hv. þm. Árn. út af því, sem kom fram hjá hv. þm. S-Þ., sem sagði, að enginn áhugi væri fyrir þessu skólamáli á Suðurlandsundirlendinu, að ég skal sýna hv. þm. S-Þ., ef hann vill, nöfn nokkurra hundraða bænda á Suðurlandi, og úr sumum sveitum hvert einasta bóndanafn, þar sem þeir skora ákveðið á stjórnarvöldin í landinn að flýta framkvæmdum í þessu máli.

Ég ætla ekki að vitna hér sem landbn.-maður eða afsaka, þótt ég hafi með mínum till. til hæstv. ráðh. stutt að því, að Jörundur Brynjólfsson fengi Kaldaðarnes á þann hátt, sem hér hefur verið skýrt frá. Ég tek undin orð hv. 2. þm. Skagf. um það, að ég er alveg rólegur vegna afskipta minna af því máli. Og það er svo margtekið fram, hver tilgangur löggjafans hafi verið með því að setja þetta búsetuskilyrði, sem ýmsir hv. þm. hafa komið fram með eins og meinbug í framkvæmdum hæstv. ráðh. í málinu, að ekki hafi verið uppfyllt, þetta er svo margtekið fram, að ekki virðist þörf um þetta atriði að deila. Það er ekki nema smámunalegt nart, ádeilur þeirra manna út af þessu atriði, sem hér hafa talað á móti framkvæmdum hæstv. ráðh. á grundvelli þessa lagabókstafs, sem þetta þriggja ára búsetuskilyrði er, ef þeir ætla að beita slíku ákvæði á móti hæstv. ráðh.

Ég álít, að þetta mál, eins og fyrir liggur, að það hefur verið tekið af sækjendum þess hér, sé hæstv. Alþ. til vansæmdar. Það hafa verið samþ. lög um bændaskóla í Skálholti. En vafninga yfirleitt gegn því að framkvæma það, sem lög gera ráð fyrir og fjárveitingar á fjárl. gefa heimild til um framkvæmdir á slíka vafninga tel ég til mikillar vansæmdar fyrir hæstv. Alþ. Hv. fyrirspyrjandi gat þess, að það ætti að koma fram með frv. um að fella niður úr bændaskólalögunum ákvæðið um Skálholtsskóla. Væri gott, að slíkt frv. kæmi fram, því að ég veit, að hæstv. Alþ. verður sér ekki til minnkunar með því að fella úr gildi það, sem það hefur gert í þessu máli. En þegar búið væri að fella slíkt frv. mundi það verða til þess, að fastar yrði knúið á um framkvæmdir í málinu. Þess vegna væri ég hv. fyrirspyrjanda frekar þakklátur fyrir það, að slíkar till. kæmu fram, til þess að hæstv. Alþ. gæti nú tekið afstöðu til málsins um að stuðla að því, að nú þegar væri hafizt handa um meiri framkvæmdir í málinu.