20.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í D-deild Alþingistíðinda. (5046)

905. mál, bændaskólar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af þeim ummælum, sem fram hafa komið hér, m. a. frá hv. 2. þm. Skagf., vil ég benda á nokkur veigamikil atriði í þessu máli. Hann upplýsti, að hæstv. landbrh. hefði komið til landbúnaðarnefndanna í fyrra og sagt, að Jörundur Brynjólfsson ætti skv. lögum frá 1946 kauparétt á Skálholti. (JS: Ég hef ekkert sagt um það.) Þetta er alveg rangt, því að ákvæði þessarar gr. taka ekki til þeirra jarða, sem eru ákveðnar til hins opinbera eins og þessi jörð. Jörundur Brynjólfsson átti því ekki rétt á að kaupa þá jörð eftir þessum lögum. — Nákvæmlega sama er að segja um Kaldaðarnes, af því að búið er að ákveða hana til opinberra nota og leggja í hana mikið fé í því skyni. Og svo koma landbn.-menn og gera ráð fyrir, að hægt sé að loka augunum fyrir þessu atriði.

En það atriði, sem ég hef rætt hér, varðar ekki Skálholtsskóla. Ég var samþykkur því, að bændaskóli yrði reistur í Skálholti, og ég frábið mig því að vera talinn á móti því. En ég er á móti því, að hæstv. ríkisstjórn eða landbúnaðarnefndir eða nokkur þm. leyfi sér að ganga berlega á móti fyrirmælum laga um ráðstöfun á fé ríkissjóðs. Og ég ætla, að það hafi hér verið gert, ekki aðeins með kaupum á jarðarhúsum í Skálholti, heldur og með því að setja upp skólabúið í Skálholti, hvað sem hæstv. atvmrh. segir um það. Ég vil einnig benda hæstv. Alþ á, að ef þessi aðferð á að gilda í framtíðinni, að gengið sé fram hjá ákvæði laga um þriggja ára búsetuskilyrði, þá er ekki hægt að meina manni, sem hefur setið á ríkisjörð, að velja sér til kaups eitthvert annað höfuðból. Bústjórinn á Reykhólum gæti þá kannske farið og beðið um Hóla í Hjaltadal — eða Bessastaði á Álftanesi. Það er kannske það, sem hæstv. ráðh. ætlast til. (PO: Þá færi kannske búið á Bessastöðum að bera sig.)