17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í D-deild Alþingistíðinda. (5048)

905. mál, bændaskólar

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. atvmrh. fyrir þau glöggu svör, sem hann hefur gefið við fyrirspurn minni. Meginhluti fyrri ræðu hæstv. atvmrh. var að öðru leyti rökstuðningur fyrir því, að hann hefði haft lagaheimild til þess að selja Kaldaðarnes. Ég hafði ekki deilt á hæstv. ráðh. fyrir þessa ráðstöfun og mun ekki gera það, svo að allur sá langi hluti ræðu hans, sem um þetta fjallaði, var ekki svar til mín. Ég tel, að ekkert hafi komið fram í því máli, sem bendi til þess, að þessi ráðstöfun hæstv. atvmrh. hafi ekki haft við full rök að styðjast, og hef því engu að bæta við það atriði málsins. — Að öðru leyti var ræða hæstv. atvmrh. rökstuðningur fyrir nauðsyn bændaskóla og bændamenntunar. Ég er honum sammála um það, að menntun bænda er nauðsynleg og að bændaskólar eru nauðsynlegar stofnanir. En ég geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi að benda hæstv. ráðh. á það, að til eru aðrar stéttir manna, sem líka er nauðsyn á að fá menntun, og aðrir skólar, sem eru nauðsynlegri heldur en bændaskólarnir. Og ég þarf ekki að benda hæstv. ráðh. á það, að það vantar fleiri skóla í landinu heldur en bændaskóla, og aðra skóla frekar, og það er óneitanlegt. Það hlýtur að teljast mikið öfugstreymi, þegar hafður er í huga sá mikli skortur, sem er á skólahúsnæði í landinu yfirleitt, að þá skuli einmitt á sama tíma standa til að leggja stórfé í að byggja yfir þá tegund skóla, sem einir virðast ekki hafa verið fullskipaðir á undanförnum árum.

Hér vantar mjög tilfinnanlega menntaskóla og hefur sáralítið verið gert í þeim efnum í heila öld. Síðan Menntaskólinn á Akureyri var stofnaður, eru nú liðin 20 ár. Mér er kunnugt, að menntaskólamálin eru hér í hinum mesta ólestri og einna nauðsynlegast að stækka skólann hér. Einnig er hér mikill skortur á gagnfræða- og barnaskólahúsum, þannig að tví- eða þrísetja verður í þá hér í Reykjavík. Ég verð því að endurtaka það, að mér finnst undarlegt, að nú skuli vera á döfinni að auka við bændaskólana, einu skólana, sem ekki eru fullsetnir. Aðalatriði málsins eru því þessi:

1. Er ástæða til að auka við húsnæði búnaðarskólanna? Mér virðist af svörum hæstv. ráðh., að það sé mjög vafasamt.

2. Jafnvel þótt ástæða væri til þess, þá væri það spurning, hvernig ætti að fara að því. Auðveldasta leiðin er að auka við þá, sem fyrir eru.

3. Jafnvel þótt byggja ætti nýjan skóla, virðist mér mjög vafasamt, að hann ætti að vera í Skálholti.