10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í D-deild Alþingistíðinda. (5052)

906. mál, menntaskólakennsla í Laugarvatnsskóla

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í gildandi l. um menntaskóla, nr. 58 frá 1946, segir, að menntaskólar skuli vera tveir, annar í Reykjavík, en hinn á Akureyri, en gert er ráð fyrir þeim þriðja í sveit, ef fé er veitt til hans í fjárlögum. Nú hefur mér borizt til eyrna fregn um það, að menntaskólakennsla fari fram á Laugarvatni, en ég hef ekki getað fundið neina fjárveitingu til þessarar kennslu í fjárlögum. Ég vil taka það skýrt fram, að ég er ekki andvígur heimavistarmenntaskóla í sveit. En það er kunnugt, að Menntaskólinn í Reykjavík, sem nýlega hefur haldið hátíðlegt 100 ára afmæli sitt, hefur verið vanræktur og á við mjög erfið skilyrði að búa. Mér þykir því miður, ef það er látið sitja á hakanum að sýna þessari stofnun verðugan sóma, samtímis því að stofnaður er nýr skóli á öðrum stað, án þess jafnvel að fé sé til hans veitt á fjárlögum.