10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í D-deild Alþingistíðinda. (5053)

906. mál, menntaskólakennsla í Laugarvatnsskóla

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fyrirspurnin greinist í þrjá liði: Hversu margir nemendur stunduðu í fyrra vetur menntaskólanám í héraðsskólanum að Laugarvatni, hver hefur orðið kostnaðurinn við þessa kennslu og samkvæmt heimild í hvaða lögum hefur sá kostnaður verið greiddur úr ríkissjóði?

Skólaárið 1947–48 lærðu 8 nemendur fræði, sem samsvara 1. bekk lærdómsdeildar, en skólaárið 1948–49 stunda 18 nemendur menntaskólanám, 10 menn í 1. bekk og 8 menn í 2. bekk lærdómsdeildar, 3 eru í máladeild, en 5 í stærðfræðideild. Hver kostnaðurinn hefur orðið við þessa kennslu, er ekki gott að segja, því að hann blandast saman við annan kostnað. Kostnaðurinn í fyrra vetur var sem næst launum eins kennara, eða um 20 þús. kr., en í vetur um 40 þús. kr., en taka verður tillit til þess, að ef þessir nemendur hefðu ekki verið, hefðu jafnmargir héraðsskólanemendur komið í staðinn. Tala fastra kennara á Laugarvatni miðast við það, að 20 nemendur komi á hvern kennara, þar sem verknám er þar svo mikið. Fyrra árið má því draga 8/20 af launum gagnfræðaskólakennaranna frá launum lærdómsdeildarkennarans, eða 7.200.00 kr. Aukakostnaður verður þá sem næst 10.800.00 kr., eða 1.350.00 kr. á nemanda. Í vetur má draga 18/20 af launum gagnfræðaskólakennara frá kostnaðinum, eða um 16 þús. kr. Umframkostnaður verður því um 24 þús. kr., eða rúmlega 1.300 kr. á nemanda. Húsnæði til kennslunnar, ljós, hita o. s. frv. leggur héraðsskólinn til án endurgjalds, þar sem gagnfræðanemendur hefðu verið í rúmi þeirra, sem eru í lærdómsdeildinni, væri hún ekki starfrækt.

Fyrst er að taka það fram, að það er litið á þetta sem tilraun, tilraun, sem gerð var til þess að athuga, hvernig tækist að halda uppi slíkri kennslu við þau skilyrði, sem þarna eru til staðar, og á kostnaðinn var litið sem kostnað við þá tilraun. Það er rétt, og það verð ég að játa, að þessum þúsundum hefur verið varið umfram fjárlög, um það er ég sekur, en ég taldi skynsamlegt, að þessi tilraun væri gerð. Hins vegar er hér ekki um neinn menntaskóla að ræða. Það kemur nú til kasta þings og stj. að ákveða, hvort stíga skuli skrefið fullt. Ég vil taka það fram, að það er ekki í fyrsta skipti, sem stofnaður hefur verið slíkur framhaldsskóli. Hliðstæð lærdómsdeild var 1946–47 og 1947–48 í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga, og greiddi ríkissjóður sinn hluta af þeim kostnaði, þ. e. öll laun föstu kennaranna og hálfan rekstrarkostnað að öðru leyti. Nú hefur þessi lærdómsdeild verið lögð niður, þar sem hennar er ekki þörf lengur vegna hinnar nýju löggjafar.

Ég vona, að Alþ. taki ekki hart á því, að þessi tilraun hefur verið gerð, enda getur þingið tekið í taumana, ef því sýnist, og ákveðið, hvort framhald skuli verða á þessu eða ekki. Kostnaður á nemanda er að vísu meiri en í menntaskólanum í Reykjavík, en það er augljóst, að dvalarkostnaðurinn er lægri og heildarkostnaðurinn því sízt meiri. Það er rétt, að til þessarar kennslu hefur verið stofnað án bókstaflegrar heimildar, en hér er ekki um stofnun menntaskóla að ræða. eins og ég sagði áður, heldur aðeins tilraun. Ég vænti því þess, að Alþ. taki þessu máli vinsamlega.