10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í D-deild Alþingistíðinda. (5054)

906. mál, menntaskólakennsla í Laugarvatnsskóla

Jónas Jónsson:

Sú afbrýðisemi, sem kemur fram í sambandi við nýja þróun þessara mála, er mjög eftirtektarverð. Þegar menntaskóli var á sínum tíma stofnaður á Akureyri, kom fram mikil beiskja í Reykjavík í tilefni af því, en með lagni tókst að koma honum á og hann blessaðist vel. Enn furðulegri var þó sú afbrýðisemi, er kom fram hjá sumum, er menntaskólakennsla var hafin í Verzlunarskólanum í Reykjavík, og nú, þegar þessi tilraun er gerð, kemur hið sama fram. Þrátt fyrir allar fyrirbænir er þó ástand Menntaskólans í Reykjavík þannig, að kenna verður piltunum í svokölluðu fjósi. Ég hygg því, að þessi tilraun til þess að leiða strauminn burt frá fjósinu sé góðra gjalda verð. Kostnaðurinn á mann er líka um 4.000 kr. minni, en í Reykjavik, og ef 20 menn eru í deildinni, sparast því á þessu 80 þús. kr. dvalarkostnaður á vetri.