03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

10. mál, lóðasala í Reykjavík

Jón Pálmason:

Úr því að farið er að ræða þetta mál hér og jafnvel farið fram á að fella þetta litla frv., þykir mér ástæða til að gefa í þessu máli dálitlar upplýsingar, sem sýna, hvernig farið hefur verið með sum mál af hálfu þess opinbera. Mér er skýrt svo frá, að 1925 eða 1926 hafi þáverandi ríkisstj. keypt þarna stóra lóðarspildu af Reykjavíkurbæ fyrir atbeina Margrétar Rasmus, fyrrverandi forstöðukonu málleysingjaskólans, á 25 eða 26 þús. kr., síðan sé búið að selja um 30 lóðir úr þessari upphaflegu spildu, án þess að leitað hafi verið heimildar Alþ. til sölunnar. En þessi kona, sem á langan starfsferil að baki, var búin að fá loforð fyrir þessu lóðarhorni, og þá fyrst kemur til kasta Alþ. að samþykkja söluna. Ég tel sjálfsagt, að þegar þannig stendur á, verði þetta frv. samþ. og það fljótt. Það væri undarlegt og kaldhæðni örlaganna, ef sá aðilinn, sem hér á hlut að máli og gekkst fyrir því, að ríkið fengi alla þessa lóðarspildu, yrði nú svikinn um það, sem fyrrverandi ráðherra lofaði henni, að fá keypta þessa lóð.