17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í D-deild Alþingistíðinda. (5068)

61. mál, launakjör alþingismanna

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég átti sæti í mþn., sem samdi frv., og ég minnist þess ekki, að svar bærist frá hæstv. fyrrv. forsrh., að hann vildi ekki flytja frv. (Forsrh.: Svarið var sent til form. nefndarinnar.) Ég var nú form. nefndarinnar, og ég minnist þess ekki að hafa fengið það í hendur. En verið getur, að mig misminni, enda skiptir það ekki miklu máli. Ég undraðist mjög, þegar ég frétti, að hæstv. forsrh. ætlaði ekki að leggja frv. fyrir þingið. Ekki sízt þegar þess er gætt, að ný launalög voru þá sett fyrir alla opinbera starfsmenn, og ber þó þess að gæta, að launalög voru til frá 1919, sett í töluverðri dýrtíð, en lög um þingmennskukaup voru frá 1912, og er þar lögákveðið, að kaup sé 12 kr. á dag, og samkvæmt dýrtíðarlögunum á að leggjast á það full dýrtíðaruppbót, og verða því þm. að sitja hér fyrir 36 kr. á dag. Nú vita allir, að þm. hafa ofurlítið meira samkv. sérstökum samþ. hér á Alþ., svo sem með þingsályktunum og samþykktum í þingfararkaupsnefnd. Ég kann ekki við það, að þm. sé goldið kaup eftir mjög vafasömum heimildum, og finnst, að ekki mætti minna vera en þm. tækju þetta litla kaup sitt eftir lögum. Skömmu eftir 1930 ákvað þfkn., að utanbæjarþingmenn skyldu fá goldinn húsaleigustyrk, þetta var gert í 9 ár eða þangað til 1942, að ég bar fram lagafrv., sem samþ. var, að ríkissjóður legði til húsnæði handa utanbæjarþm. eða greiddi húsaleigustyrk, ef þm. útveguðu sér sjálfir húsnæði. Ég get skilið hæversku þá, sem virðist ríkja hjá þm., að koma sér ekki að því að bera fram till. um kauphækkun fyrir sjálfa sig, en ég skil tæpast hæstv. fyrrv. ríkisstj., sem bar fram launalögin, og ekki heldur hæstv. núverandi ríkisstj. að hafa ekki lagt fyrir frv. um þetta, jafnvel þótt allir þingflokkarnir hafi ekki tjáð sig fylgjandi því. Og þó að einhver vildi ef til vill gera þetta að pólitísku máli, held ég varla, að mikið mundi hafast upp úr því. Ástandið, eins og það er nú, er áreiðanlega ekki í þágu almennings á Íslandi, því að ástandið er nú þannig, að enginn maður utan Reykjavíkur, sem ekki er sæmilega efnaður, getur setið á þingi. Tíminn er nú búinn, en ég vil láta í ljós undrun mína yfir því, ef hæstv. ríkisstj. lætur ef til vill einn flokk stöðva mál þetta.