18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í D-deild Alþingistíðinda. (5077)

908. mál, lýsisherzluverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Áki Jakobsson):

Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans við þessu. Mér þykir vænt um að heyra, að það fyrsta, sem ríkisstj. ætlar sér að koma í framkvæmd af byggingum nýrra verksmiðja, er lýsisherzlustöð, því að ég er sannfærður um, að slíkt mun skapa mikla atvinnumöguleika í landinu, sem við höfum ekki haft áður. En leitt þykir mér að heyra hjá hæstv. ráðh., að niðurstaðan hjá honum eftir þeim gögnum, sem hann hefur fengið í málinu, sem mér skilst, að séu upplýsingar frá Guðmundi Marteinssyni rafmagnsverkfræðingi, virðist vera sú, að Siglufjörður virðist vera ófær staður til þess að byggja þar slíka verksmiðju. Ég vænti þess, að þessi mál verði athuguð rækilega áður en endanlega verður gengið frá málinu.

Það lágu fyrir ýmsir uppdrættir, þegar þessi staður var ákveðinn, sem leiddu í ljós, að Siglufjörður var talinn vera vel til þess fallinn og þá einnig með tilliti til raforku að áliti raforkumálastjóra ríkisins, hr. Jakobs Gíslasonar, og þeirra sérfræðinga, sem með honum störfuðu. Þetta verður náttúrlega athugað nánar. En mér skildist á orðum hæstv. ráðh., að ekki væri endanlega ákveðið að hætta við að byggja verksmiðjuna á Siglufirði.

Ég veit, að það mundi vekja mjög mikla óánægju og vonbrigði, ef svo færi, að verksmiðjan yrði ekki byggð þar.

Ég hef ekki tíma til þess að ræða einstök atriði í sambandi við það, að ráðh. sagði, að þetta mál hefði verið illa undirbúið. Mér gefst tækifæri til þess að ræða það síðar, enda var það ekki tilgangur minn með þessari fyrirspurn að fara að karpa við þennan hæstv. ráðh. eða aðra um málið, heldur vildi ég fá upplýsingar um málið að gefnu tilefni vegna fjárlagaræðu hæstv. ráðh.

Ég get tekið til greina þær upplýsingar, sem komnar eru í þessu máli. En ég ætla, að það sé rétt skilið, að ekki sé endanleg ákvörðun um það tekin að byggja ekki verksmiðjuna á Siglufirði.