18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í D-deild Alþingistíðinda. (5082)

909. mál, sementsverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Í frv. til l. um sementsverksmiðju, sem lagt var fram á síðasta þingi, var ákveðið í 1. gr., að ríkisstj. skyldi heimilt að láta reisa við Önundarfjörð verksmiðju með fullkomnum vélum og öðrum nauðsynlegum útbúnaði til vinnslu sements. Í Ed. var þessari gr. breytt þannig, að felld var burt staðsetning verksmiðjunnar af þeim ástæðum, að ekki þóttu liggja fyrir nægilegar rannsóknir um það, hvort þetta þætti heppilegasti staður. Þá var bent á í fylgiskjali I, sem fylgdi frv., að kalkefnisprósenta væri afar há á Brjánslækjarfjöru við Vatnsfjörð, Sandoddanum við Patreksfjörð og jafnvel Hvestudal við Arnarfjörð. Ýmsar upplýsingar í sambandi við þessar rannsóknir bentu til þess, að þessar rannsóknir hefðu ekki farið fram það ýtarlega, að hægt væri af þeim að ákveða að byggja verksmiðju, sem kosta mundi 15–20 millj. kr. Ég hef því leyft mér að gera fyrirspurn til hæstv. atvmrh. um það, hvað líði undirbúningi undir byggingu verksmiðjunnar, hvort nokkur frekari rannsókn hafi verið látin fara fram á sementshráefnum og ef svo er, hver sé árangur þeirra rannsókna, einnig, hvort ríkisstj. hugsi til þess að láta fara fram frekari rannsókn, áður en staðsetning verksmiðjunnar er endanlega ákveðin, eða hvort þegar hafi verið endanlega ákveðið, hvar verksmiðjan verður reist, og loks, hvort ríkisstj. hafi látið fara fram nokkrar frekari athuganir á byggingar- og rekstrarkostnaði verksmiðjunnar og hvað þær athuganir hafi leitt í ljós. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi Alþ. upplýsingar um þetta mál.