18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í D-deild Alþingistíðinda. (5083)

909. mál, sementsverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil í fáum orðum gera grein fyrir því, sem hv. þm. Barð. spyr um. Eins og hv. þm. muna, þá gat ég þess, þegar málið var til meðferðar á síðasta þingi, að ég mundi telja öruggara fyrir ríkisstj., að það færi fram nokkru fyllri athugun á þessu máli áður, en til framkvæmda kæmi, og var það sjálfgert að því leyti, að ekki hefur tekizt að afla þeirra nauðsynlegu fjármuna til að koma verksmiðjunni upp. Taldi ég því sjálfsagt að nota tímann til þess að afla gagna í þessum efnum. Fyrir milligöngu sendiráðsins í London tókst að fá hingað kunnan sementsverksmiðjuverkfræðing frá Englandi, og kom hann upp í sumar, fór vestur og athugaði aðstöðu þar, og sömuleiðis athugaði hann allan undirbúning, sem gerður hafði verið til rannsókna í þessu máli. Skilaði hann fyrir skömmu ýtarlegri grg. um rannsóknir sínar og niðurstöður, og kemur þar fram nokkurt ósamræmi í niðurstöðum hans og þeim niðurstöðum, sem fyrir lágu frá hálfu íslenzkra vísindamanna, m. a. það, að hann telur meiri vöntun á kísilsýru í þeim hráefnum, sem til eru vestra, heldur en álitið hefur verið eftir fyrri rannsóknum. Hann telur, að það mundi þurfa að flytja inn allmikið af kísil til þess að fá í hráefnið öll þau efni, sem þurfi til að fá fullkomið hráefni. Að vísu hefur þetta efni fundizt austur á landi, í Loðmundarfirði, en þessi verkfræðingur telur, að það mundi verða dýrara að sækja það þangað, en fá það frá Englandi. Að öðru leyti eru aths. frá honum um það, að nauðsynlegt sé að kanna það betur, en þegar er orðið, hversu mikill sandur sé á þessum stöðum fyrir vestan, þar sem verksmiðjan hefur verið hugsuð, því að það lægju ekki fyrir fullkomnar rannsóknir um það, til hvað margra ára starfsemi sá forði mundi endast, sem þar er fyrir hendi, og telur hann öruggara að gera um það frekari rannsóknir, áður en hafizt er handa um framkvæmdir. Niðurstaða þessa verkfræðings er í aðalatriðum sú, að hann telur nauðsynlegt að auka innflutning á kísil, til þess að það sement, sem framleitt yrði, gæti orðið samkeppnisfært við sementsverð, eins og það er nú í heiminum. En niðurstöður hans að öðru leyti eru þannig, að því er gjaldeyrishliðina snertir, að með innlendu framleiðslunni sparist gjaldeyrir um 20% af sementsverðinu með því að reikna afborganir af vélum, vexti af lánum o. s. frv. Um staðina tvo, sem til greina koma, Patreksfjörð og Önundarfjörð, telur hann, að hann geti ekki gert verulegan greinarmun á. Hann telur, að þeir geti báðir komið til greina, og telur ekki ástæðu til að mæla frekar með öðrum staðnum, en hinum.

Eftir þessar athuganir lét Haraldur Ásgeirsson sína skoðun í ljós á þessum niðurstöðum, og liggja þær einnig fyrir, en þær eru þannig, að það er nokkurt rannsóknarefni enn þá, hverjar eru hinar vísindalega réttu niðurstöður. Af þessum ástæðum og vegna þess hins vegar, að ég tel það á rökum byggt, að nauðsynlegt sé, að það fari fram ýtarleg rannsókn á magni hráefnisins. sem átti að byrja á, hef ég talið rétt að ákveða ekkert um staðsetningu verksmiðjunnar að svo komnu, en láta þær viðbótarrannsóknir, sem verkfræðingurinn hefur sannfært ráðun. um, að þurfi að gera, fara fram næsta ár, en vinna að öðru leyti að framgangi málsins eftir því, sem mögulegt er.