19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í D-deild Alþingistíðinda. (5090)

910. mál, njósnir fyrir flugvöllum ríkisins

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Fyrsta spurningin er um það hve oft menn hafi orðið varir þess á yfirstandandi ári, að erlendar flugvélar virtust starfa að njósnum yfir flugvöllum ríkisins. Þessari spurningu er ekki hægt að svara, eins og hún liggur fyrir, en það verður að búa til aðra á þessa leið, hve oft hafa menn orðið varir við flugvélar, sem ekki hafa fylgt settum reglum eða gert grein fyrir ferðum sínum. Ef þannig er spurt, mun ég reyna að svara eins og nú skal gert.

Samkvæmt upplýsingum frá flugumferðarstjórninni, sem á sér stað í turni Reykjavíkurflugvallarins og er fyrir Norður-Atlantshafsleiðina kringum Ísland, hefur þetta komið fyrir eins og nú skal greina. Fyrst 9. apríl 1948, kl. 3.30 e. m., tilkynnir turnmaður á Keflavíkurflugvelli, að hann hafi heyrt flugvéladyn og séð 3–4 flugvélar í ca. 7.000 feta hæð. Um þetta leyti voru engar vélar á flugi yfir Íslandi, svo að vitað væri af ATC, og fyrst von á vél kl. 6.10. — Næst kemur þetta fyrir 6. ágúst 1948. Þá er hringt frá Gaulverjabæ og sagt frá flugvél, rauðri að lit, sem hafi verið að hringsóla þar yfir um kl. 20.30 og síðan horfið í austurátt. Um enga innienda flugvél gat verið að ræða og engin vél undir stjórn OATC TFRK nálægt þessu svæði. — Þriðja tilfelli er svo 30. okt. 1948, og í dagbókinni segir svo: Kl. 22.45 lendir AOA NC 901 á Keflavík. NC 901 segist hafa séð ljós á annarri flugvél yfir velli. Ekki er vitað um neina flugvél á öllu flugumferðarstjórnarsvæðinu íslenzka. Kl.23.15 tilkynnir áhöfn NC 901, að flugvélin, sem þeir sáu, hafi verið í ca. 1.500 fetum yfir endanum á 03, og hafi haft eitt hvítt ljós, en engin ljós í vængjum. Út af þessu eru nánari upplýsingar frá flugumferðarstjóra ríkisins, þar sem hann segir, að 31. f. m. hafi Sigfús Guðmundsson skýrt frá því, að kvöldið áður hafi legið við slysi vegna óþekktrar flugvélar, þegar hann hafi verið að koma til að lenda. Enn fremur skýrði yfirmaður flugumferðarstjórnarinnar, að um líkt leyti hefði heyrzt óvenjulegur hávaði í hreyflum yfir flugvellinum. Síðan hefur flugstjórnin skýrt frá því, að það hafi komið í ljós, að loftbelgur hafi verið settur á loft um svipað leyti, og segir hann síðan, að hér geti verið um misskilning að ræða og að það hafi verið ljós loftbelgsins um að ræða. Enn fremur segist hann strax við tækifæri láta taka frekari skýrslu út af þessu máli, athuga nánar, hvort hér hafi verið um flugvél eða loftbelg að ræða, og senda ráðuneytinu.

Eins og menn sjá, hefur það komið fyrir tvisvar sinnum fyrir víst, að í raun og veru hafi verið flugvélar á ferð hér, sem menn vita ekki, hverjar voru eða hvert erindi hafi haft. Í þriðja skipti, sem gefið hefur verið upp, að flugvél hafi sézt, leikur nokkur vafi á, hvort svo hafi verið.

2. spurningin er um það, hvernig þjóðir hindri, sem ráði yfir vopnuðu liði, þess konar njósnarstarfsemi, og er því til að svara, að það er mér ekki kunnugt um.

3. spurningin er um það, hvað flugmálastjórnin ætli að gera til að hindra, að þessari njósnarstarfsemi verði haldið áfram hér á landi. Flugmálastjórnin hefur ekki tök á að hindra, að flugvélar komi aðvífandi án þess að fylgja settum reglum. Það er hægt að leggja til, að málið verði tekið upp við hlutaðeigandi stjórnarvöld, ef hægt er að vita, hver hér á hlut að máli.