19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í D-deild Alþingistíðinda. (5098)

911. mál, kynbótastöðin á Úlfarsá

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Hæstv. ráðh. hefur gefið allgreinileg svör, nema hann fór utan hjá því að svara því, hvort það væri nú þegar ráðgert, þegar þessi stofnun er flutt burt frá Úlfarsá, að þar komi áframhaldandi stofnun fyrir sjúklinga frá Kaldaðarnesi. Ég óska eftir, að hann svari því, áður en umr. lýkur. — Ég verð að láta í ljós efa um, að það hafi yfirleitt verið heppileg meðferð á þessu máli. Það kemur í ljós, að þessi starfsemi hefði átt að vera á Keldum, sem ríkið hafði keypt og einnig lagt mikið fé í byggingar þar. Svo kemur það, sem hæstv. ráðh. ekki svaraði, en þó allir vita, að þegar til kemur, þá afsegir forstöðumaðurinn að vera Þar, ef nota eigi eitthvað af landinu til annarra þarfa. Alþ. fyrirskipar að nota eitthvað af landinu til annarra þarfa, en þessi maður, sem ekkert liggur eftir, hann afsegir að hlýða. Að Alþ. og ríkisstj. skuli láta bjóða sér þetta, sýnir röggsemdarleysi Alþ. og niðurlægingu ríkisstj. líka. Hæstv. ráðh. veit, að sérfræðingur í þessum efnum þarf að hafa jarðhita. Jarðhiti er bæði á Keldum í Mosfellssveit og austan við heiði. Það stóð til boða land fyrir þessa starfsemi á Reykjum í Hveragerði. Þá stóð á forstöðumanni jurtakynbótastöðvarinnar. Hann vildi ekki fara þangað. Forstöðumaðurinn vill búa í Reykjavík, en hafa ráðsmann á stöðinni. Þetta sýnir furðulegt umhyggjuleysi, að hann skuli ekki búa þar, sem hann vinnur. Hér í Reykjavík hefur hann ekkert að gera. Þetta sjálfræði forstöðumannsins hefur svo leitt til þess, að ráðh. hefur keypt jörð fyrir þessa starfsemi, sem hann hefði átt að vita og sérfræðingurinn enda betur, að aldrei hefði átt að byrja hana á. Það átti að nota land, sem ríkið átti annars staðar, eða fá land með jarðhita í Mosfellssveit. — Nú hefur heyrzt, að áfengissjúklingarnir frá Kaldaðarnesi eigi að fara að Úlfarsá. Það er orðin ein keðja úr þessum vísindalegu stofnunum. Það er búið að leggja um 800 þús. kr. í umbætur á Kaldaðarnesi, og á hælinu mun hafa verið um 300 þús. kr. tekjuhalli þann tíma, sem það starfaði. Sjúklingarnir voru þar frá 8 og stundum 1, en læknar 2. Nú skilst mér, að þeir félagar allir í Kaldaðarnesi eigi að fara að Úlfarsá. Hvers vegna var Úlfarsá keypt og hvernig stendur á þessu? Ég vildi fá svar við því, hvort það er meiningin að setja upp drykkjumannahæli á Úlfarsá.