19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í D-deild Alþingistíðinda. (5100)

911. mál, kynbótastöðin á Úlfarsá

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Spurzt hefur verið fyrir um Úlfarsá og óskað eftir, að hún yrði höfð til þessarar starfsemi. Hér hefur orðið smávegis misskilningur milli mín og hv. þm. Barð. Löve var ánægður með jarðveginn í Kópavogi og landið líka, en hann fékk eigi nægilegt land til framtíðarstarfsemi. Reyndist ekki kleift að fá það til hennar. Svo er nú hitt, að Löve hefur hér rannsóknartæki sín og hann verður sjálfur að starfa hér í Reykjavík. Til mála hefði getað komið að flytja hann austur yfir fjall, en þá er þess að gæta, að kostnaðurinn af því yrði mikill, t. d. við að koma upp rannsóknarstofum. Á hinn bóginn eru rannsóknarstofur fyrir atvinnudeildina í einu og sama húsi, og starfsemi hennar er því bundin við það eina hús.