18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í D-deild Alþingistíðinda. (5108)

912. mál, gjaldeyrismál

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég skal ekki viðhafa mörg orð til andsvara þeim hv. þm., sem hér hafa talað.

Ég vil aðeins út af því, sem hv. þm. Str. sagði um innflutning innanhúsmuna, geta þess, að ráðun. skrifaði viðskiptan. fyrir alllöngu síðan og lagði fyrir hana að gefa ekki innflutningsleyfi án gjaldeyris til sjómanna fyrir þessum vörum öðruvísi, en að fyrir lægju upplýsingar um, að þeir hefðu gefið gjaldeyrinn upp við síðustu eignakönnun eða aflað hans löglega síðan. Þeir, sem ættu þannig gjaldeyri löglega, ættu að fá innflutningsleyfi, aðrir ekki. Ég vil hins vegar mælast til þess við hv. þm. Str., að hann athugi vel öll þau 11 atriði, sem viðskiptan. hefur talið upp, að gætu komið til greina, þegar innflutningsleyfi væru veitt án gjaldeyris, og margir þessir liðir eru fjárfrekir. En hitt, hvað lesa má á milli linanna í þessu svarbréfi frá gjaldeyriseftirlitinu, sem hv. þm. taldi ekki fullnægjandi, það er hans mál að gera upp við sig, en ég tel, að gjaldeyriseftirlitið hafi sýnt af sér framtakssemi, sem hefði þurft að hafa fyrir löngu. Það hefur sýnt mikla viðleitni til umbóta, og er það mjög gott, því að það er ekki góður siður, sem sum innflutningsfyrirtæki hafa haft, kannske einna helzt þau stærstu, t. d. Sambandið, að skila aldrei neinum umboðslaunum. Slíkt hlýtur að setja skarð í þetta. Það fær að nota þessa peninga til skrifstofuhalds erlendis, en það hlýtur að skerða umboðslaunatekjur þjóðarinnar, ef þessu fé er ekki skilað, sem á að fara til bankanna. Hv. þm. undraðist stórlega, að umboðslaunatekjurnar væru ekki meiri. Það er rétt, þær eru meiri en það, sem fram kemur, en það stafar af því m. a., að hinir stóru innflytjendur, eins og kannske fleiri, skila ekki öllum umboðslaunum, og það verður að telja spurningu, hvort ætti ekki að láta alla undantekningarlaust skila sinum umboðslaunum.

Hvað því viðvíkur, að slælega hafi verið gengið fram í því að afla upplýsinga um innstæður Íslendinga erlendis, eins og hv. þm. vildi láta skína í, þá hef ég, síðan ég kom í rn., gert allt, sem í mínu valdi hefur staðið, til að fá þessar upplýsingar. Það má segja, að það hafi verið gert slælega, en ég fór fyrst þá leið, sem mér fannst eðlilegust, að biðja þjóðbankastj., og frá þeim er komin fullyrðing mín, að þessar tölur, sem hafa komið fram um inneignir Íslendinga erlendis, hafi verið talsvert hærri en raunverulegt sé, og ég hygg, að þar hafi fengizt einhverjar upplýsingar um heildarinneignina, þó að hún sé ekki sundurliðuð. Þegar þessi aðferð dugði ekki, var snúið sér til sendiráðanna að fara diplomatisku leiðina og reynt að fá ríkisstj. viðkomandi landa til að greiða úr þessu máli, og það hefur verið fullyrt, að það væri eina leiðin, sem fær væri, en hún hefur reynzt jafnófær og hinar nema í einu landi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en ég tel, að það, sem hægt er að upplýsa í sambandi við þessa fyrirspurn, hafi verið gert með þessum svörum viðkomandi aðila, sem ég hef lesið hér upp.