24.11.1948
Sameinað þing: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í D-deild Alþingistíðinda. (5135)

915. mál, skuldir og ábyrgðir ríkissjóðs

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn er að sumu leyti nokkuð lík annarri fyrirspurn á þessu sama þskj., sem hv. 1. þm. Reykv. hefur gert og þegar er búið að svara, og þá um leið efnislega nokkru af þessari fyrirspurn minni. Ég hafði ekki séð þá fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv., þegar ég kom með þessa fyrirspurn mína. En samt er þarna nokkur munur á þessum tveim fyrirspurnum. Ég óska eftir, að Alþ. fái yfirlit um það, hvað séu fastar skuldir ríkissjóðs og hvað lausar skuldir, og í stórum dráttum, hverjir séu lánardrottnar ríkissjóðs, bæði hvað snertir fastar skuldir annars vegar og hins vegar lausar skuldir. Og í þriðja lagi er mín fyrirspurn um það, hvað mikið af skuldum ríkissjóðs séu samningsbundnar með margra ára greiðsluákvæðum, og hve mikið megi teljast lausaskuldir. — Um ábyrgðir ríkissjóðs hefur hæstv. fjmrh. þegar gefið svör. Um 5. liðinn hefur hæstv. ráðh. líka svarað ýtarlega. Ég vildi þó óska, ef hann gæti án mikillar fyrirhafnar, að hann sundurliðaði, hvaða ábyrgðir eru fyrir sveitarfélög og hvaða ábyrgðir eru fyrir vatnsvirkjanir.