24.11.1948
Sameinað þing: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í D-deild Alþingistíðinda. (5142)

916. mál, tímarita- og blaðasafn Helga Tryggvasonar

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mig undrar mjög að heyra þessar upplýsingar frá hæstv. menntmrh. Hæstv. menntmrh. var vel kunnugt um, að safnið var boðið á 350 þús. kr. til ríkisins, og var það erindi sent til fjvn., sem mælti á móti því, að safnið yrði keypt fyrir nokkuð nálægt þeirri upphæð. Hæstv. ráðh. var einnig kunnugt um, að heimildin, sem gefin var, marðist í gegn í fjvn. með framsóknaratkvæðum og atkv. kommúnista, sem alltaf eru reiðubúnir til þess að hjálpa Framsfl., og einu atkv. til, til þess að gefa ráðh. heimildina, þó með því skilyrði, að ríkisstj. öll væri sammála um þetta og hægt yrði að fá hagkvæm kjör og hagkvæmt verð. Honum var einnig kunnugt um ummæli frá landsbókaverði, þar sem það er upplýst, að miklar eyður séu í safninu og að þetta sé alls ekki fullkomið blaðasafn. Þar er einnig sagt, að hann telji enga brýna þörf á að leggja Landsbókasafninu þetta safn til, en hins vegar segir hann, að það sé gott fyrir ríkið að eiga safnið til þess að geta útbýtt því á milli annarra safna í landinu, þannig, að það verði ekki sem ein heild, heldur til þess að fylla upp í eyður annarra safna hingað og þangað á landinu. Mér þykir þetta ákaflega einkennilegt, þegar sama ríkisstj. notar þessa heimild, sem þannig er fengin á fjárl. og með þeim skilyrðum, sem ekki voru uppfyllt, hins vegar notar einnig heimild í fjárl. á sama ári til að draga úr fjárframlögum til verklegra framkvæmda, um allt að 35%, að jöfnum hlutföllum. Eftir svona ráðstafanir fer ég að taka með allri varfærni þau ummæli ríkisstj., sem gera kröfur til þess, að dregið sé úr verklegum framkvæmdum í landinu. Þegar teknar eru 300 þús. kr. úr ríkissjóði fyrir jafnauvirðilegan hlut, og það á þeim tíma, þegar ríkissjóður treystir sér ekki undir neinum kringumstæðum til að greiða þetta út, heldur bindur sér nærri 11 þús. kr. vaxtabyrði á fyrstu árunum vegna þessara kaupa. Ég hefði viljað vita um það, hvort hæstv. fjmrh. hefði verið fullkomlega með þessari ráðstöfun á fé úr ríkissjóði, því að ef svo er, þá kann það að hafa önnur og lakari áhrif á afgreiðslu fjárl. á þessu ári, en búast mætti við. En hæstv. menntmrh. hefur upplýst, að ríkisstj. standi öll að því, að svona var farið með þennan lið fjárl. Hins vegar var hæstv. fjmrh. bent á. að þessi heimild yrði ekki notuð, nema brýn nauðsyn væri fyrir hendi og safnið fengist fyrir viðunanlegt verð.