02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í D-deild Alþingistíðinda. (5156)

917. mál, fæðingardeild landsspítalans

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það vill svo vel til, að mér er kunnugt um það atriði, sem hv. 7. þm. Reykv. gerði að umtalsefni og hæstv. ráðh. kvaðst ekki reiðubúinn að upplýsa. Það var nefnilega skjólstæðingur hv. 7. þm. Reykv., sem tók byggingu deildarinnar að sér í akkorði, en þeim góða manni láðist að athuga grunnstæðið nógu vel, svo að í ljós kom, að helmingur grunnsins var á harðri klöpp, en til þess að komast á fastan grunn undir hinn helminginn þurfti að grafa djúpt niður. Þegar þessi maður sér svo fram á undirballans á verkinu, af því að hlaða verði undir hluta af grunninum, sendir hann út kjaftatíkur sínar til þess að segja, að það hafi verið meira ólánið að ætla ekki að hafa kjallara undir húsinu, og hefur einhver af kjaftatíkunum náð eyrum hv. 7. þm. Reykv. Nú eftir nokkurn uppsteyt er fundur haldinn á grunninum, og mætir þar landlæknir og annað stórmenni. Þá spyr sá óánægði, hvort hann geti ekki fengið kjallara, en landlæknir segir þvert nei. Þetta er hið rétta í málinu og er það hart, að hv. þm. skuli bera róg af þessu tagi inn í þingsalinn og hafa ekki annað á bak við sig en örgustu kjaftatíkur bæjarins.