02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í D-deild Alþingistíðinda. (5157)

917. mál, fæðingardeild landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta var gott innskot hjá hv. þm. S–Þ. Það er augljóst, að hann er kunnugur kjaftatíkum bæjarins, og er það raunverulega það eina, sem hann hefur upplýst í málinu. Varðandi ræðu hæstv. menntmrh. get ég ekki eins og venja er til, þegar ráðh. hefur svarað fyrirspurnum, þakkað honum fyrir greið svör, því að þegar ég spyr, hvenær upphaflega hafi verið ætlunin að deildin tæki til starfa, svarar hann því einu til, að það hefði átt að vera, þegar er byggingunni væri lokið. En spurningin er þannig: „Hvenær var upphaflega ráðgert, að fæðingardeild landsspítalans gæti tekið til starfa í hinni nýju byggingu deildarinnar?“ Það er ekki ólíklegt, að menn hafi látið sér detta eitthvað í hug um það, og eftir því sem ég veit bezt af kynnum mínum af málinu í bæjarstjórn, þá var ráðgert, að deildin tæki til starfa haustið 1946. En hæstv. ráðh. svarar því einu, að deildin eigi að taka til starfa, þegar byggingu er lokið, en þetta hefur brugðizt. Hæstv. ráðh. upplýsir, að byggingunni hafi verið lokið í ágúst í sumar, og enn er deildin ekki tekin til starfa. Hér er enn nýr hlekkur í keðju þeirra mistaka, sem einkenna þetta mál. Ég spurði um orsakir, sem valdið hefðu hinum mikla drætti, og hæstv. ráðh. sagði, að ýmis óhöpp hefðu þar um ráðið, sérstaklega þetta voðalega óhapp með lyftuna! Svo upplýsti hæstv. ráðh. að lokum, að ekkert hefði skort á röggsemi heilbrigðisstjórnar og landlæknis til að hraða framkvæmdum, en ég leyfi mér að efast um, að þessi svör hans verði til að friða borgarana. Varðandi grjótið í kjallaranum, þá gerði ég ekki um það neina fyrirspurn nú, en ég held, að innlegg hv. þm. S-Þ. í það atriði dragi ekki úr því, að fram komi háværar óskir um skýringar á því atriði.