02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í D-deild Alþingistíðinda. (5162)

918. mál, ríkisskattar samvinnufélaganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Gegnum endurskoðunardeild ríkissjóðs hef ég reynt að fá svör við fyrirspurnum hv. þm. S–Þ. Mér virtist vera talsverður móður á Jóni, eins og þar stendur, og þykir mér líklegt, að hann reynist sannspár um það, að fram komi merkilegar upplýsingar, hver svo sem fyrir vonbrigðunum verður að fengnum þeim upplýsingum. Þetta er allmikil skýrsla frá endurskoðunardeildinni, og fjallar hún, eins og spurt er um, um það, hversu mikið fé ríkissjóður hafi fengið í ýmiss konar skattgreiðslur á árunum 1939-47 frá eftirtöldum samvinnufélögum:

1. Sambandi ísl. samvinnufélaga,

2. Sláturfélagi Suðurlands,

3. Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis,

4. Kaupfélagi Árnesinga,

5. Kaupfélaginu í Borgarnesi,

6. Kaupfélagi Austur-Húnvetninga, Blönduósi,

7. Kaupfélagi Eyfirðinga,

8. Kaupfélagi Þingeyinga,

9. Kaupfélagi Héraðsbúa.

Enn fremur er óskað eftir að fá hin ýmsu skattgjöld sundurliðuð ár fyrir ár, þannig að glöggt komi fram skattgreiðslur hvers félags. Þeir skattar, sem hér er um að ræða, eru tekju- og eignarskattur og tekjuskattsviðauki frá 1939. 1941 bætist við stríðsgróðaskattur og helzt áfram. 1943 bætist við verðlækkunarskattur og er í tvö ár. 1945 hverfur hann, en í hans stað kemur veltuskattur, sem er 1945–46. Þessir skattar, tekju- og eignarskattur, viðauki, stríðsgróðaskattur, verðlækkunarskattur og veltuskattur, eru þeir skattar, sem renna beint til ríkisins. Taflan yfir þessar skattgreiðslur er nokkuð umfangsmikil, og þar sem óskað er eftir að fá þetta sundurliðað ár frá ári, þá bið ég hv. þm. að afsaka, þótt það taki langan tíma að fara í gegnum hana, og ekki sízt, ef mér yrði nú á að mismæla mig og fara skakkt með einhverja töluna.

Ég byrja þá á Kaupfélagi Austur-Húnvetninga. Árið 1939 greiðir það í tekju- og eignarskatt og tekjuskattsviðauka 3.646,00 kr. Árið 1940 greiðir það 2.861,00 kr. í sömu skatta. 1941 er stríðsgróðaskattur með og þá greiðir félagið 2.993,00 kr. Árið 1942 greiðir það 3.724,00 kr. í sömu skatta. 1943 greiðir það í tekju- og eignarskatt 6.541,00 kr., í stríðsgróðaskatt 351,00 kr. og í verðlækkunarskatt 6.828,00 kr., eða samtals 1943 13.720,00 kr. Árið 1944 virðast skattgreiðslur félagsins vera 4.117,00 kr., en 1945 er tekju- og eignarskattur og viðauki 13.431,00 kr., stríðsgróðaskattur 531,00 og veltuskattur 23.984,00 kr., eða samtals 379.46,00 kr. Árið 1946 er tekju- og eignarskattur og viðauki 31.534,00 kr. og veltuskattur 19.388,00 kr. Árið 1947 eru þessir skattar 46.072,00 kr. og stríðsgróðaskattur 7.180,00 kr., eða samtals 53.252,00 kr. Skattgreiðslur Kaupfélags Austur-Húnvetninga á árunum 1939–47 að báðum árum meðtöldum nema því alls 173.181,00 kr.

Skattgreiðslur Kaupfélags Árnesinga voru: 1939 6.663,00 kr., 1940 12.611,00 kr., 1941 9.277,00 kr., 1942 14.095,00 kr., 1943 70.895,00 kr., 1944 103.195,00 kr., 1945 170.163,00 kr., 1946 136.607,00 kr. og 1947 76.788,00 kr. Samtals verður þetta 600.294,00 kr.

Skattgreiðslur kaupfélagsins í Borgarnesi voru: 1939 2613,00 kr., 1940 2.570,00 kr., 1941 3.071,00 kr., 1942 4.953,00 kr., 1943 33.737,00 kr., 1944 37.613,00 kr., 1945 75.344,00 kr., 1946 50.957,00 kr. og 1947 71.627,00 kr. Samtals er þetta 282.485,00 kr.

Skattgreiðslur Kaupfélags Þingeyinga voru: 1939 5.250,00 kr., 1940 6.305,00 kr., 1941 10.970,00 kr., 1942 14.336,00 kr., 1943 36.590,00 kr., 1944 24.258,00 kr., 1945 87.407,00 kr., 1946 69.123,00 kr. og 1947 93.203,00 kr. Samtals er þetta 347.442,00 kr.

Skattgreiðslur Kaupfélags Eyfirðinga voru: 1939 27.443,00 kr., 1940 29.971,00 kr., 1941 72.393,00 .kr., 1942 121.933,00 kr., 1943 288.010,00 kr., 1944 302.958,00 kr., 1945 361.071,00 kr., 1946 564.002,00 kr. og 1947 363.023,00 kr. Samtals öll árin 2.130.804,00 kr.

Skattgreiðslur Kaupfélags Héraðsbúa voru: 1939 2.518,00 kr., 1940 4.609,00 kr., 1941 8.847,00 kr., 1942 13.385,00 kr., 1943 32.931,00 kr., 1944 24.944,00 kr., 1945 83.025,00 kr., 1946 79.985,00 kr. og 1947 61.958,00 kr. Samtals er þetta 312.202.00 kr.

Þá er það Samband ísl. samvinnufélaga. Skattgreiðslur þess voru sem hér segir: 1939 54.899,00 kr., 1940 67.978,00 kr., 1941 16.8701,00 kr., 1942 203.298,00 kr., 1943 286.142,00 kr., 1944 332.698,00 kr., 1945 1.018.198,00 kr., 1946 560.465,00 kr. og 1947 524.179,00 kr. Alls verður þetta 3.216.598,00 kr.

Skattgreiðslur Sláturfélags Suðurlands voru: 1939 3.314,00 kr., 1940 9.883,00 kr., 1941 10.583,00 kr., 1942 94.797,00 kr., 1943 123.276,00 kr., 1944 171.883,00 kr., 1945 273.597,00 kr., 1946 334.740,00 kr. og 1947 352.269,00 kr. Alls er þetta 1.374.342,00 kr.

Þá er það loks Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis. Skattgreiðslur þess voru: 1939 1.674,00 kr., 1940 3.511,00 kr., 1941 3.784,00 kr., 1942 14.256,00 kr., 1943 46.797,00 kr., 1944 41.689,00 kr., 1945

185.084,00 kr., 1946 56.353,00 kr. og 1947 81.671,00 kr. Samtals er þetta 434.819,00 kr.

Þessar eru þá skattgreiðslur þeirra félaga, sem hér hafa verið talin og hef ég látið endurskoðunardeild stjórnarráðsins safna saman þessum upplýsingum til þess að svara þeirri fyrirspurn, sem hér liggur fyrir. Hér er um að ræða sterkustu gjaldendur félaganna, og samkvæmt þessum niðurstöðum skila þessi fyrirtæki öll skattgreiðslum til ríkissjóðs, er nema: 1939 108.020,00 kr., 1940 140.299,00 kr., 1941 290.659,00 kr., 1942 484.777,00 kr., 1943 932.098,00 kr., 1944 1.043.355,00 kr., 1945 2.291.835,00 kr., 1946 1.903.154,00 kr. og 1947 1.677.970,00 kr. Samtals verður þetta fyrir allt tímabilið 8.872.167,00 kr.

Til fróðleiks má geta þess, að eitt hlutafélag hér í bæ greiddi á sama tímabili í tekju-, eignar- og stríðsgróðaskatt 1.189.5729,00 kr., en landslýður allur, líka kaupfélögin, greiddi í ríkissjóð sem hér segir: 1939 2.082.062,00 kr., 1940 2.625.951,00 kr., 1941 12.161.736,00 kr., 1942 26.856.577,00 kr., 1943 41.553.602,00 kr., 1944 33.850.657,00 kr., 1945 53.290.647,00 kr., 1946 49.455.854,00 kr. og 1947 53.436.692,00 kr. Alls nema því skattatekjur ríkissjóðs á tímabilinu 1939–47, bæði árin meðtalin, 275.313.778,00 kr. Af því hafa kaupfélögin borgað 8.872.167,00 kr., eða 3,2226% af öllum skattgreiðslum á landinu, þ.e.a.s. rúmlega 3%.

Ég held ég sjái ekki ástæðu til að orðlengja um þetta frekar. Þessar upplýsingar eru gefnar eins og þær hafa verið útbúnar af starfsmönnum stjórnarráðsins, og þær varpa glöggu ljósi á það, sem hv. fyrirspyrjandi vildi fá upplýsingar um, hvað þessi félög greiða í ríkissjóð. En ég hef líka talið rétt að geta þess, hverju þessar greiðslur nema frá öllu landinu, þó að ekki væri beint að því spurt. Þá er hægt að sjá, hver er hlutur kaupfélaganna í heildargreiðslunum. Hafi menn ekki rennt grun í það, hvernig þessum málum var varið, þá hefur það nú komið í ljós hæstv. Alþ. og þjóðinni til athugunar.