02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í D-deild Alþingistíðinda. (5166)

918. mál, ríkisskattar samvinnufélaganna

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Það var eiginlega í sambandi við ummæli, sem féllu hjá hv. þm. S-Þ. og ekki beint var tilefni til í sambandi við þessar fyrirspurnir, sem hér liggja fyrir, sem ég vildi segja nokkur orð. Hv. þm. S-Þ. virtist hafa löngun til þess að gera einhvern samanburð á samlögum kaupsýslumanna og kaupfélögum, sem starfað hafa á stríðsárunum — að því er mér skildist — að innkaupum í vesturálfu heims. Ég held, að það séu þessi samlög, Samband ísl. samvinnufélaga og Innkaupasambandið, sem hafa haft það aðallega á hendi að kaupa inn kornvörurnar. Ég veit ekki til þess, að það hafi á nokkurn hátt komið til greina að borga neitt til baka í sambandi við það, sem hv. þm. var að tala um. Ég veit ekki betur, en að þetta hafi legið skýrt fyrir frá ári til árs frá þessum báðum aðilum, sem unnu mjög gott og þarft verk á stríðsárunum, en upphaflega hófst þessi samvinna fyrir tilmæli frá ríkisstj., svo að náð yrði því marki að, að jafnaði yrðu til 6—7 mánaða birgðir í landinu. Og það held ég, að alltaf hafi tekizt. Ég vildi mótmæla því, að það væru ekki eins hrein viðskipti eða hreint uppgjör frá Innkaupasambandinu eins og frá Sambandi Ísl. samvinnufélaga á þessum árum. Ég held, að þessi ummæli hv. þm. séu í alla staði ekki rétt. Þá minntist hv. þm. á Eimskipafélag Íslands, og skildi ég tæplega í því og datt þá í hug, að heggur sá, er hlífa skyldi, því að hann hefur þótzt vilja hlífa því. Nú veit hv. þm. öllum mönnum betur, hvernig rekstur Eimskipafélags Íslands hefur verið á þessum árum, hvernig eignir, sem félagið hefur fengið, hafa verið notaðar fyrir þjóðina í framtíðinni. Það er opinbert, hvernig það hefur lagt til hliðar fé til þess að tryggja okkur ný og betri skip í stað hinna gömlu. Ég get varla skilið, hvers vegna er verið að draga Eimskipafélag Íslands inn í þessar umr. á þessu stigi málsins. Svo er annað að athuga í sambandi við þetta. Það er vitað, að Eimskipafélag Íslands hefur borgað svo millj. skiptir með því að flytja kornvörur og aðrar nauðsynjar til landsins, og ef þeir reikningar væru gerðir upp, þá mundi það sýna sig, að þeir væru ekki lítils virði. Ég vildi út af þessum tveim atriðum, sem hv. fyrirspyrjandi minntist á, mótmæla því, að þessi fyrirtæki séu dregin inn í umr. hér, vegna þess að það er ekki tími til að svara eins og þyrfti, þegar verið er með hálfgerðar dylgjur í sambandi við þau.