02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í D-deild Alþingistíðinda. (5174)

919. mál, sóttvarnarstöðvar í sambandi við innflutning sauðfjár

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Engey var keypt fyrir tveim árum samkvæmt heimild í fjárl. Hún er ekki ætluð til þessara hluta. Hún var keypt fyrir 225 þús. kr. Það þótti rétt, að ríkið ætti Engeyna, þar sem hún var vel sett og mikil og góð eign og liggur þannig, að það þótti sjálfsagt að kaupa hana, fyrst hún var til sölu með góðum kjörum. Eftir að Engey var keypt, hefur hún verið notuð til annarra tilrauna á þessu sviði. Það voru sem sé eindregin tilmæli um það frá búnaðarþinginu og búnaðarfélögum landsins og var samþ. á búnaðarþinginu að gera tilraun til þess að vernda eitthvað af innlendu fjárstofnunum, sem til eru, frá algerðum dauða og útrýmingu. Það stendur þannig á, að beztu búfjárræktarhéruð landsins eru altekin af mæðiveiki, og það stóð til að útrýma öllum þeim fjárstofnum, sem á þessum svæðum landsins lifðu. Og það er álit kunnugra og sérfróðra manna á þessu sviði, að íslenzkir fjárstofnar séu það góðir, að ekkert sé jafngott á Norðurlöndum og jafnvel ekki í Evrópu, að ekkert í þessum löndum sé til samanburðar um afurðagæði. Það þótti mjög mikið tjón ofan á allt það tjón, sem pestirnar höfðu valdið, ef þessum stofni yrði algerlega útrýmt og allt það mikla verk, sem á undanförnum árum hefur verið unnið til að kynbæta sauðfé, yrði þurrkað burt með þessari framkvæmd, sem nú er hafin vegna mæðiveikinnar. Þess vegna var það einróma álit þeirra manna, sem um þetta mál hafa mest að segja, að gera tilraun til þess að halda lífi í einhverjum þessara fjárstofna. Það var ekki nema um eitt ráð að gera, að fá heilbrigðar ær, t.d. af Vestfjörðum, og setja þær út í eyju og flytja sæði úr hrútum út í eyjuna og gera tilraun með, hvort ekki væri á þann hátt hægt að geyma þessa gömlu stofna heilbrigða og hafa þá til taks, þegar búið væri að hreinsa landið. Þessar tilraunir hafa verið framkvæmdar í Engey. Það hafa verið valdir úr beztu úrvalsstofnar landsins til þessara tilrauna, heilbrigðar ær frá Vestfjörðum, sem settar voru í eyjuna. Sæði hefur svo verið flutt úr karldýrum út í eyjuna. Þetta hefur tekizt mjög vel það, sem af er, og standa vonir til, að þegar útrýmingarherferðinni er lokið, þá eigum við þarna leifar ágætustu stofna, sem við höfum átt í landinu, og getum við þá kynbætt frá þeim stofnum á ný, þegar hættan er liðin hjá. Þessi starfsemi í Engey er tvenns konar. Það fæst úr því skorið fyrst og fremst, hvort hægt er að geyma stofninn þarna og halda við okkar gömlu og góðu fjárstofnum, og líka fæst úr því skorið, hvort hægt er að flytja sæði úr búfé í heilbrigt fé til viðhalds stofninum, án þess að hætta sé á, að sýkin berist.