26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í D-deild Alþingistíðinda. (5200)

920. mál, skipakaup

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Það er svo sem auðheyrt á ræðu hæstv. forsrh., að það er margt á fjármálasviðinu alveg í lausu lofti. Þetta nærri minnir mig á einn mikinn lögfræðing hér í bænum, sem var stundum í vandræðum með að borga reikninga. Þegar til hans var komið með reikning, sagði hann stundum: Kannske þér vilduð skipta honum í tvennt.

Það er búið að panta skipin, en það kemur í ljós, að það er allt í óvissu, hvernig verði hægt að borga skipin eða hvort það verði hægt. Það er talað um Marshall-lán og fleiri lán, og loks er þess vænzt, að ef landið hefur ekki ráð til að borga skipin, þá geti kannske væntanlegir kaupendur komið með útlenda peninga og borgað þau. Ef ég man rétt, þá hafa kaupstaðir eins og Norðfjörður, sem skuldar 20 millj. kr., verið að panta ný skip. Siglufjörður hefur keypt togara og rekur hann alltaf með tapi, sem landið verður að borga. Það er furðu mikil bjartsýni eða barnaskapur í öllum þessum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar.

Ræða hæstv. menntmrh. var fremur stutt. Það er náttúrlega gott og blessað, að fjárhagsráð telji sér fært að borga þetta, en einhver vanmáttur er þó hjá því að greiða allar þessar skuldir, sem fyrir eru og hefðu að sjálfsögðu átt að ganga fyrir, ef nokkur úrræði væru annars fyrir hendi. En ráðstafanir um þetta skip eru þvert ofan í vilja Alþ. og líkur til, að þær geri frekar skaða en gagn.