26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í D-deild Alþingistíðinda. (5208)

921. mál, hafrannsóknir og friðun Faxaflóa

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Þessi fyrirspurn var send í mitt ráðuneyti vegna þess sérstaklega, að sá maður, sem hefur þessi mál með höndum, starfar í stofnun, sem heyrir undir það ráðuneyti. Ég mun því lesa þá skýrslu, sem hann hefur gefið mér, enda þótt umræddum fundum hafi verið lokið áður en ég kom í ráðuneytið. Ég mun lesa hina stuttu greinargerð Árna Friðrikssonar:

„Út af fyrirspurn til ríkisstj. samkv. 177. þingskjali, nr. 3, frá Jónasi Jónssyni, um tilkostnað og árangur af þátttöku Íslands í alþjóðafundum í sambandi við hafrannsóknir og friðun Faxaflóa vil ég samkvæmt ósk hins háa ráðuneytis taka þetta fram:

Með yfirliti því, sem hér fylgir, er svarað 1., 3. og 4. spurningu að nokkru leyti. Íslendingar hafa tekið þátt í 15 ráðstefnum þeirrar tegundar, sem um er spurt, á árunum 1938–48, og hafa þátttakendur verið 13 samtals. Kostnaðurinn hefur orðið kr. 135.079, eða rösklega kr. 12.000 á ári, og hefur hann að nokkru leyti verið greiddur úr ríkissjóði. en að nokkru af því fé, sem ætlað er til fiskirannsókna, en þá ávallt í samráði við atvinnumálaráðuneytið. Af kr. 15.000, sem veittar voru vegna ráðstefnunnar í Stokkhólmi í ágúst 1946, var kr. 3000 varið til annars í samráði við ráðh.

Síðari hluta 2. spurningar er erfitt að svara nákvæmlega, en jafnaðarlega mun hafa farið um það bil mánuður til hverrar ráðstefnu að meðaltali. Þó fór miklu lengri tími í Lundúnaráðstefnuna 1943, en skemmri til ferðar minnar til Danmerkur í marz 1947 vegna prentunar á skýrslu Faxaflóanefndar.

5. spurningunni er tæplega hægt að ætlast til, að hægt sé að svara. Benda má þó á, að Íslendingar hafa svo mikilla hagsmuna að gæta um fiskveiðar, að ekki hefur þótt rétt að sitja hjá, þegar fiskveiðimál hafa verið rædd á alþjóðavettvangi.

6. Faxaflóamálið var afgreitt endanlega frá alþjóðarannsóknaráðinu á fundi þess í Stokkhólmi 1946. Var einróma mælt með friðun flóans, og er málið nú til athugunar hjá ríkisstj.

Þetta var greinargerð Árna Friðrikssonar, og hef ég þar fáu við að bæta. Hans afskiptum af málinu lýkur svo, þegar sérfræðingafundinum er lokið, og kemur þá til kasta ríkisstjórnanna að afgreiða málið. Ekkert liggur enn fyrir um beinan árangur, og þannig virðist málið hafa strandað á vettvangi utanríkismálanna.