02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í D-deild Alþingistíðinda. (5221)

114. mál, símabilanir á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Frá því 1. des. s.l. og þar til 1. jan. þessa árs hefur verið símasambandslaust við Ísafjörð og nágrenni samtals í 17 daga, þar að auki mjög slæmt samband í eina viku, þannig að segja má, að þessa tvo mánuði hafi verið svo að segja helming þess tíma svo til símasambandslaust við þennan landshluta. Í því sambandi vil ég einnig geta þess, að eftir þeim athugunum, sem ég hef látið gera á hinu almenna ástandi í símamálum á Vestfjörðum, þá þurfa íbúar á Vestfjörðum yfirleitt að greiða 2 símtöl af þrem með þreföldu gjaldi, sem sé sem hraðsamtöl. Þá er þess. að geta um ástandið í símamálum í þessum landshluta, að heil byggðarlög hafa í vetur verið svo vikum skiptir gersamlega símasambandslaus við t.d. Ísafjörð og jafnvel einstök byggðarlög innbyrðis. Á Ísafirði sjálfum er ástandið þannig, að símstöðin þar er svo ófullkomin, að það má heita, að símamál kaupstaðarins sjálfs innbyrðis séu í fullkomnum ólestri. Ég hef ekki tíma til þess að rekja þetta öllu nánar, en þær tíðu bilanir og sambandsleysi, sem Vestfirðir hafa yfirleitt við að búa, ekki eingöngu Ísafjörður, og á ég fyrst og fremst þá við Ísafjarðardjúpið, því að þar er ég kunnugastur, er svo slæmt og alveg sérstaklega í vetur, að það er alveg óviðunandi við slíkt. Símabilanir hafa verið svo tíðar, að algert sambandsleysi hefur verið um langt skeið.

Af þessum ástæðum leyfi ég mér að beina fyrirspurn til hæstv. samgmrh. varðandi símabilanir í þessum landshluta. Ég spyr um það, hverjar séu taldar vera orsakir hinna tíðu bilana, sem orðið hafa undanfarna mánuði á símalínum á Vestfjörðum. Og í öðru lagi spyr ég um það, hvaða ráðstafanir séu fyrirhugaðar til þess að bæta úr því öngþveitisástandi, sem ríkir í símamálum þessa landshluta. Í þriðja lagi, hvernig horfur eru með innflutning á nauðsynlegu efni til viðhalds og nýbyggingar símalína í landinu. Ég hef ekki tíma til þess að ræða þetta nánar nú en ég vildi aðeins segja það áður en ég fæ svar hæstv. ráðh., að þetta ástand, sem ríkt hefur í vetur í símamálum Ísafjarðar og annars staðar á Vestfjörðum, er gersamlega óviðunandi.