02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í D-deild Alþingistíðinda. (5231)

924. mál, mjólkurflutningar til Reykjavíkur úr Borgarfjarðarhéraði

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Núna í þessum þungu snjóum kom það fyrir hvað eftir annað, sem ekki er óeðlilegt, að mjólkurbílar úr Mýrasýslu og Borgarfirði komust ekki fyrir Hvalfjörð. Það vakti eftirtekt manna hér, að beinast lægi við, þar sem Laxfoss gengi því nær daglega milli Rvíkur og Akraness og Borgarness, að flytja þessa vöru með honum. Munu að vísu vera taldir á því meinbugir að flytja mjólk frá Borgarnesi með tankbílum, þar sem ekki séu til nægileg ílát til þess að skipta um daglega. En þetta er svo fráleitt mál, að mér fannst sjálfsagt að spyrja um þetta í þinginu, því að Hvalfjörður er alltaf vafasamur vegur. Mér finnst ekki sæmilegt að bjóða bifreiðarstjórum að flytja mjólk úr tveimur sýslum þennan háskaveg, jafndýrt og það hlýtur að vera. Ég þykist vita, að ráðh., sem er þm. Mýr., muni finna einhver ráð til þess, eftir að þessi fsp. hefur verið borin fram, að úr þessu verði bætt. Þetta er mál, sem snertir alla og sérstaklega hans kjördæmi.