16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í D-deild Alþingistíðinda. (5249)

925. mál, fjárbú ríkisins á Hesti

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Þetta bú var upprunalega stofnað sem almennt kynbótabú, en síðan hefur það breytzt í eins konar mæðiveikispítala. Þangað hafa verið keyptir stofnar af veiku fé. Tilgangurinn hefur verið sá að reyna hina ýmsu fjárstofna með tilliti til mótstöðukrafts þeirra gegn veikinni, til að finna út, hvort einhverjir stofnar væru svo hraustir, að þeir stæðust hana. Þannig er kynbótabúið orðið að mæðiveikitilraunabúi, og þar hefur verið mikill tilkostnaður frá upphafi. En almerkilegastur er rekstur þessa bús, þar sem fyrirsjáanlegt er, að innan skamms munu fara fram fjárskipti í Borgarfirði, því að Borgfirðingar þrá þær framkvæmdir eins og aðrir bændur, og þá er með öllu tilgangslaust að halda búinu áfram með öllum þess tilkostnaði. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Það eru nokkrar hliðar á þessu máli, sem hæstv. landbrh. mun telja sér ánægju að svara.